Stjórnarfundur í Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði
5. nóvember 2014 í Múltíkúltí kl. 20:00

Mætt voru Andrea, Hulda, Gústaf, Björn (sem ritaði fundargerð), Hjalti (sem stýrði fundi) og Andri Sigurðsson.

1. Rætt um starfið á komandi vetri. Hjalti sagði frá starfi sjálfbærnihóps sem er í fullum gangi. Andrea talaði um að tími væri kominn til að láta reyna á ýmsar af þeim hugmyndum sem ræddar hefðu verið innan félagsins. Nefndi í því sambandi slembivalið skuggaþing sem samanstæði af 63 einstaklingnum völdum úr þjóðskrá. Gústaf ræddi um aukið lýðræði innan lífeyrissjóðanna og verður það mál tekið upp í málefnahópi um hagkerfið. Einnig rætt um stjórnarskrármálið og framhald þess.

2. Mótmæli á Austurvelli og möguleg þátttaka Öldu í skipulagi þeirra. Andri reifaði málið. Andrea, Björn og fleiri fundarmenn lýstu þeirri skoðun sinni að þörf væri á nýrri hreyfingu sem tæki upp málstað virkara, betra og beinna lýðræðis. Í framhaldinu var rætt um að halda allsherjar hugmyndasmiðju í tengslum við mótmælahreyfinguna (Jæja-hópinn) sem yrði opin öllum og ætluð til að ræða stefnumál og framhaldið. Ákveðið að leita eftir fundi með aðstandendum Jæja-hópsins.

3. Gústaf sagði frá undirbúningi sínum fyrir ferð til Slóveníu þar sem hann mun flytja erindi, sem fulltrúi Öldu, á málþingi um lýðræðisþróun á vegum samtakanna Peace Institute.

4. Önnur mál. Rætt um beiðni frá Utanríkisnefnd Alþingis um umsögn félagsins um þingsályktunartillögu um aðild Íslands að NATO. Félagið hefur sent áður inn umsögn um samskonar þingsályktunartillögu og var Birni falið að senda hana til stjórnarmanna til endurnýjaðrar samþykktar.
Rætt um beiðni frá samtökunum ChangeMaker um að senda undirskriftasöfnun um olíuvinnslu á Drekasvæðinu á póstlista félagsins. Fram kom hjá fundarmönnum að fara bæri varlega í slík afnot af póstlistanum. Samþykkt að setja tilkynningu frá samtökunum á vefsíðu Öldu og á Facebook-síðu félagsins.
Rætt var um að gefa út fréttabréf Öldu, rafrænt, t.d. tvisvar á ári.
Að lokum var rætt um fundatíma félagsins (stjórnar og málefnahópa) en þeirri umræðu frestað til næsta stjórnarfundar.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 22:10.