Venjulegur vinnudagur í lífi íslendinga gengur svona fyrir sig: Vaknað um eða fyrir sjö á morgnana, mætt til vinnu klukkan átta, eftir að hafa komið við á leikskóla eða í grunnskóla. Klukkan fjögur eða þar um bil – jafnvel fimm – er haldið úr vinnu, komið við aftur í skóla. Stoppað í búð kannski áður en haldið er heim á leið. Heim er komið um klukkan 17 eða 18 – tíu til ellefu tímum eftir að dagurinn byrjaði. Taka þá við skyldustörf á heimilinu sem taka mislangan tíma, stundum allt þar til er kominn tími til að hvílast fyrir næsta dag.
Þetta ætti að hljóma kunnuglega. Hér eru tíðindi fyrir marga: Svona gengur lífið ekki fyrir sig t.d. í Danmörku og í Noregi. Á Íslandi er um það bil tveir af hverjum þremur (69%) sem vinna átta stundir á dag eða meira, á meðan rétt rúmlega einn af hverjum tíu gera það í Danmörku (12%) og Noregi (16%). Mun algengara er að vinnudagurinn vari í sex til sjö tíma í þessum löndum. Fólk kemur því oft fyrr heim.
En þetta er ekki allt. Vinnutími á Íslandi er að mörgu leyti líkari vinnutíma sem tíðkast á Ítalíu. Fjöldi árlegra vinnustunda (á hvern vinnandi mann) er svipaður á Ítalíu og á Íslandi og álíka stórt hlutfall í báðum löndum vinnur 8 stundir eða meira á hverjum virkum degi. Íslenskt samfélag nýtur raunar þess vafasama heiðurs að hér er mest unnið af öllum Norðurlöndum. Meðalmaður í vinnu vann árið 2008 um hundrað stundum meira en þá var meðaltalið í Finnlandi, sem dæmi.
Vinnan hefur breyst á undanförnum áratugum. Árið 1980 vann um helmingur vinnandi fólks við þjónustu og um einn af hverjum tíu við sjósókn og landbúnað. Árið 2008 voru þessi hlutföll mjög breytt; aðeins einn af hverjum tuttugu vann við sjósókn og landbúnað og meira en 70% við þjónustu. Á sama tíma jókst líka verðmætasköpun í samfélaginu: Á hverri vinnustund árið 2008 var um helmingi meira framleitt en 1980. Allan þennan tíma hefur vinntími okkar lítið breyst; í heildina lítið hefur vikulega unnum stundum fækkað um rétt rúmlega eina stund. Eina stund á viku yfir 30 ára tímabil. Með sama áframhaldi mun taka okkur um það bil öld að ná þeim fjölda vinnustunda sem fólk vinnur í Svíþjóð.
Það er löngu kominn tími til að þetta breytist og eitt er víst: Það mun ekki gerast sjálfkrafa, og ekkert bendir til að breytingar séu að eiga sér stað. Þær miklu breytingar sem hafa orðið á vinnu á undanförnum áratugum sýna okkur samt að róttækar breytingar eru mögulegar.
Ein leið til að breyta ástandinu er að hafa samband við sitt stéttarfélag, spyrjast út í málið og fá að vita hvað hefur gerst. Ýmis stéttarfélög munu endurskoða sína kjarasamninga á næstu mánuðum og er kjörið að láta sitt stéttarfélag vita af sinni afstöðu. Það má líka fá vinnufélagana með sér. Stéttarfélögin verða að vekja af doðanum og fá þau til að vinna að styttum vinnutíma. Þú getur verið liður í því.
Alda hefur sett fram tillögur um skemmri vinnutíma, en þessar tillögur voru sendar stéttarfélögum í lok sumars.
-Guðmundur D. Haraldsson
Heimildir: Gögn um vinnutíma og framleiðni koma úr Total Economy Database. Gögn um mismunandi fjölda vinnustunda á viku koma frá OECD. Gögn um skiptingu vinnumarkaðarins í mismunandi atvinnugreinar koma frá Hagstofu Íslands.