Alda er félagsskapur til að móta hugmyndir um hvernig megi koma á alvöru lýðræði og sjálfbærni. Markmið okkar er að þróa hugmyndir um hvernig megi auka lífsgæði fólks, t.d. með styttingu vinnutíma, auknum áhrifum almennings í samfélaginu og vinnunni, ásamt innleiðingu endurnýtanlegra auðlinda. Alda kemur hugmyndum sínum á framfæri við þá sem hafa umboð til þess að hrinda þeim í framkvæmd.

Í grunnatriðum var og er hugmyndin að baki stofnun Öldu að gera fólki kleift um að stjórna eigin lífi í meira mæli en nú er, og gera því kleift að búa í samfélagi sem nýtir auðlindir jarðar með sjálfbærum hætti, án þess að klára þær eða eyðileggja vistkerfi jarðarinnar.

Starf félagsins er opið og byggir á alvöru lýðræði. Allar hugmyndir og verkefni sem unnið er að innan félagsins eru unnin eftir hugmyndafræði gagnsæis og opins vettvangs.

Tildrögin að stofnun félagsins árið 2010, voru eftirleikar hrunsins 2008, þegar hópi fólks varð ljóst að ríkjandi hugmyndafræði stjórnmálanna myndi verða áfram við lýði, þrátt fyrir hunið sem þá hafði átt sér stað nokkrum misserum áður. Alda var stofnuð til að vinna að nýjum hugmyndum sem mótvægi við þeim sem voru ríkjandi.

Stjórnmálaflokkur?

Alda er ekki stjórnmálaflokkur og mun ekki verða. Tilgangurinn með stofnun Öldu var að móta hugmyndir og láta öðrum eftir að framkvæma þær — það er alveg óbreytt og er mjög ólíklegt til að breytast. Alda er jafnframt ótengd öllum stjórnmálaflokkum.

Hvernig starf Öldu fer fram

Einu sinni í mánuði eru haldnir stjórnarfundir þar sem teknar eru ákvarðanir um stefnu, ályktanir og yfirlýsingar ræddar og ýmis mál önnur. Allir fundir félagsins eru auglýstir á vefsíðu þess með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara.

Allir fundir innan Öldu eru opnir öllum. Hafa jafnframt allir fundargestir atkvæðisrétt, óháð því hvort þeir séu félagar í Öldu eða ekki. Hjá Öldu gildir reglan um eitt atkvæði á mann. Sjaldnast er þó gripið til atkvæðagreiðslu því mál eru rædd og útkljáð eins og kostur er með samhljóða samþykki (e. consensus).

Innan Öldu hefur verið unnið að ýmsum málum, en þar má til dæmis nefna drög að lögum stjórnmálaflokks, tillögu að styttingu vinnutíma, þingsályktun um lýðræðisleg fyrirtæki og margt fleira. Lista yfir útgefið efni félagsins má finna hér.

Alda beitir sér fyrir hugmyndum sínum í opinberri umræðu, en lætur stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, hagsmunasamtökum, stofnunum og öðrum eftir um að koma þeim í framkvæmd.

Þeir sem skrá sig í félagið fá reglulega tölvupósta um starfið.

Fundir
Að jafnaði er um þrjár tegundir funda að ræða hjá Öldu.

1. Fundi í málefnahópum sem eru vinnufundir þar sem félagsmenn koma saman og ræða þau verkefni sem eru í vinnslu hjá félaginu. Á fundunum er verkefnum forgangsraðað, hugmyndir ræddar og farið yfir stöðuna á þeim verkefnum sem eru í vinnslu. Hópstjórar hafa umsjón með hópnum og yfirleitt þeim verkefnum sem eru í vinnslu. Öllum er hins vegar frjálst að taka þátt, jafnvel þeim sem ekki eru félagar í Öldu og hafa allir sama rétt á fundunum. Notast er við samhljóða ákvarðanatöku (e. consensus) en ef sú leið þrýtur er eitt atkvæði á mann. Hver sem er getur átt frumkvæði að málum og jafnvel tekið að sér að vinna að þeim, t.d. með því að safna gögnum, skrifa texta eða undirbúa viðburð.

2. Stjórnarfundir eru ákvarðanatökufundir þar sem tillögur og verkefni frá málefnahópum eru rædd til samþykktar eða synjunar. Þar eru öll mál sem varða skipulag og starfsemi félagsins rædd og leidd til lykta. Notast er við samhljóða ákvarðanatöku (e. consensus) en ef sú leið þrýtur er eitt atkvæði á mann. Fundirnir eru öllum opnir.

3. Kynningarfundir eru haldnir um þau verkefni sem félagið hefur lokið við og samþykkt á stjórnarfundi. Á þeim er haldin framsaga til kynningar og svo eru umræður og spurningar í kjölfarið. Engar ákvarðanir eru teknar á þessum fundum. Allir eru velkomnir.

Styrkir og greiðslur til Öldu

Félagið tekur við frjálsum framlögum frá einstaklingum og lögaðilum. Meira um fjárframlög hér.