Alda er félag um dýpkun lýðræðisins og endurnýjun efnahagsins með þátttöku almennings í ákvarðanatöku og sjálfbærni lifnaðarhátta að leiðarljósi. Félagið er öllum opið með einfaldri skráningu.

Kjarninn í starfsemi félagsins er efling lýðræðisins. Þátttaka almennings – þátttökulýðræði – í stjórn samfélagsins er því hornsteinninn í stefnu félagsins. Þegar almenningur hefur beina möguleika til að hafa áhrif á gang samfélagsins er meiri sátt og samstaða um framgang þess og framtíð.

Þá eru bæði aukinn efnahagslegur jöfnuður og lýðræði í atvinnulífinu fyrirferðarmikil, enda þrífst lýðræði best í samfélögum mikils efnahagslegs jöfnuðar og þar sem atvinnulífið þarf að taka tillit til hagsmuna almennings og starfsmanna fyrirtækja. Jöfnuður tryggir að allir fólk geti tekið þátt í samfélaginu og lýðræði innan fyrirtækja tryggir að starfsfólk hafi meiri völd yfir þeim hluta lífsins sem við verjum mestum tíma til – vinnunni.

Stytting vinnutíma hefur verið snar þáttur í starfi félagsins í gegnum árin. Alda telur að stytting vinnutíma hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, félagslíf og lýðræðislega þátttöku. Almennar tækniframfarir eiga enda, að mati félagsins, að skapa fólki möguleikann á skemmri vinnutíma, auk þess sem rannsóknir benda til að stytting geti haft jákvæð áhrif á sjálfbærni. Félagið telur fjögurra daga vinnuviku æskilegt markmið.

Annað stefnumála Öldu er að komið sé á legg samfélagsbanka á Íslandi. Félagið telur mikilvægt að starfandi séu bankar sem láni fé á ábyrgan hátt, en hafi jafnframt að höfuðmarkmiði sínu að draga úr áhættu og veita þjónustu á sem lægstu verði. Gera verði samfélagsbönkum kleift að starfa á Íslandi, t.d. með því að umbreyta einum af þremur stærstu bönkum landsins í slíkan banka.

Sjálfbær nýting auðlinda er forsenda mikilla lífsgæða til langrar framtíðar. Jafnframt er nauðsynlegt að virða þolmörk loftslagsins og annarra ferla náttúrunnar til að lífsgæði geti verið mikil. Raunin er þó sú að ágangur á auðlindir og álag á náttúrulega ferla eru mjög mikil af völdum mannskepnunnar og er farið að hafa neikvæð áhrif á líf fólks á jörðinni. Stefna Öldu tekur mið af sjálfbærni og er stefnumálum félagsins ætlað að hafa jákvæð áhrif á sjálfbærni.

Er Alda stjórnmálaflokkur?

Alda er ekki stjórnmálaflokkur og mun ekki verða. Tilgangurinn með stofnun Öldu var að móta hugmyndir og láta öðrum eftir að framkvæma þær — það er óbreytt og er mjög ólíklegt til að breytast. Alda er jafnframt ótengd öllum stjórnmálaflokkum.

Starf Öldu

Stjórnarfundir eru haldnir reglulega þar sem ákvarðanir um stefnu, ályktanir og starf félagsins eru rædd og önnur mál sem koma upp. Öllum er frjálst að mæta á stjórnarfund.

Á fundum Öldu hafa allir fundargestir atkvæðisrétt, séu þeir félagar í Öldu. Hjá Öldu gildir reglan um eitt atkvæði á mann. Sjaldnast er þó gripið til atkvæðagreiðslu því mál eru rædd og útkljáð eins og kostur er með samhljóða samþykki (e. consensus).

Alda beitir sér fyrir hugmyndum sínum í opinberri umræðu, en lætur stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, stofnunum og öðrum eftir um að koma þeim í framkvæmd.

Styrkir og greiðslur til Öldu

Félagið tekur við frjálsum framlögum frá einstaklingum og lögaðilum.