Við eigum bara eina jörð en göngum á auðlindir hennar líkt og við ættum margar. Haldi ofnýting auðlinda áfram verða náttúruhamfarir ekki umflúnar. Eina ráðið er að krafan um hagvöxt víki fyrir sjálfbærni.

Sjálfbærni
Framleiðsla og neysla verður að vera sjálfbær, að öðrum kosti er einungis tímaspursmál hvenær auðlindir jarðar ganga til þurrðar og mikilvæg vistkerfi hrynja. Eilífur vöxtur í heimi takmarkaðra auðlinda er ómögulegur. Krafan um sífelldan hagvöxt verður að víkja. Umhverfisvottun vöru verði skilyrði fyrir framleiðslu.

Samfélagsbankar
Bankar og fjármálastofnanir eiga að vera reknar með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi, ekki hagnað. Huga ber að stofnun samfélagsbanka á Íslandi, sem geta veitt alhliða fjármálaþjónustu fyrir almenning, en slíkir bankar þekkjast meðal annars í Þýskalandi og eru traustir, þeir m.a. gengu ekki í gegnum erfiðleika í efnahagsöngþveitinu sem dundi yfir heiminn 2008-2010. Slíkir bankar ættu að leysa af hólmi banka sem eru reknir með hagnaði að leiðarljósi.

Sjálfsstjórn vinnandi fólks
Fyrirtæki lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa: Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Starfsmenn reka fyrirtækið í sameiningu, ákvarða stefnu þess og skipulag. Rannsóknir sýna að lýðræðisleg fyrirtæki eru a.m.k. jafn hagkvæm og kapitalísk fyrirtæki en koma betur út félagslega.

Í dag er tekjumunur innan fyrirtækja jafnvel 500 á móti 1. Í lýðræðislegu hagkerfi má gera ráð fyrir tekjumun innan fyrirtækja upp á u.þ.b. 9 á móti 1. Starfsmönnum gefst loks færi á því að velja á milli hærri launa eða meiri frítíma því ekki er lengur þrýstingur á að vinnandi fólk starfi sem lengst fyrir sem minnst.

  • Meira um lýðræðisleg fyrirtæki hér.
  • Þingsályktunartillögu Öldu um lýðræðisleg fyrirtæki má finna hér.

Markaðurinn áfram
Markaðir fyrir vörur og þjónustu verða áfram líkt og hingað til. Markaðurinn þjónar þeim tilgangi að miðla upplýsingum um framboð og eftirspurn svo fyrirtækin geti tekið skynsamlegar ákvarðanir um framleiðslu. Samkeppnin byggi ekki lengur á því að komast í einokunarstöðu heldur á skynsamlegri framleiðslu.

Velferðarkerfi
Öflugt velferðarkerfi með jöfnum aðgangi að menntun, heilbrigðisþjónustu og lífeyri. Atvinnuleysi ekki lengur talið eðlilegt. Stefnt er að fullri atvinnu. Bankakerfið hefur það grundvallarmarkmið að skapa atvinnu, ríkisvaldið ræður fólk til að halda uppi öflugu velferðarkerfi og styrkja innviði samfélagsins.

Skemmri vinnuvika
Alda hefur lengi hvatt til skemmri vinnuviku, en rannsóknir sýna að fólk sem vinnur skemmri vinnuviku nýtur betra jafnvægis milli vinnu og einkalífs, hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið og líður almennt betur. Skemmri vinnuvika ýtir líka undir aukna framleiðni. Meira má lesa um tillögur Öldu að skemmri vinnuviku hér.

Útgefið efni um hagkerfið

Útgefið efni um sjálfbærni

Hér má nálgast allar færslur um hagkerfið og allar færslur um sjálfbærni.