Alda vill að í náinni framtíð verði fjögurra daga vinnuvika venjubundin á Íslandi. Full vinnuvika myndi teljast 30 til 32 stundir og oftast unnin á fjórum dögum. Fjögurra daga vinnuviku yrði náð með að beisla nýja og núverandi tækni í þágu styttri vinnutíma, auk samráðs á vinnumarkaði.

Að mati Öldu er megintilgangur styttri vinnuviku að auka lífsgæði fólks, örva félagslíf fullorðinna, stuðla að ástundun áhugamála, aukinni hreyfingu og eflingu fjölskyldutengsla. Fólk þarf að hafa tíma til að sinna þessum mikilvægu þáttum lífsins. Valfrelsi fólks um hvernig fólk ver vökutíma sínum eykst þegar vinnutíminn er styttur. 

Félagið telur skemmri vinnuviku einnig geta stuðlað að sjálfbærni og að álag á náttúruna minnki. Í ofanálag er fjögurra daga vinnuvika skynsamlegt viðbragð við fjórðu iðnbyltingunni. Hvort tveggja mun gagnast fólki og samfélagi á endanum.

Alda telur að fjögurra daga vinnuvika eigi að geta náðst á Íslandi um 2035 án kaupmáttarskerðingar. Lykillinn að því er að farið sé í átak til að auka framleiðni í hagkerfinu, að aukinni framleiðni sé varið til að stytta vinnutímann og að samráð sé haft um innleiðingu styttingarinnar. Með góðu skipulagi, skynsamlegri nýtingu tækninýjunga og breytingum á vinnustöðum er fjögurra daga vinnuvika möguleg. Erlend tilraunaverkefni sýna fram á aukin lífsgæði fólks og fýsileika fjögurra daga vinnuviku.

Fjögurra daga vinnuvika er alþjóðleg þróun, drifin áfram af grasrótarstarfi, stéttarfélögum og hugveitum víða um heim. Mikilvægt er að íslenskt samfélag haldi í við hina erlendu þróun.

Tillögur Öldu

Tillögur Öldu um fjögurra daga vinnuviku á Íslandi eru þessar:

  1. Venjuleg vinnuvika verði stytt í 32 vinnustundir á fjórum dögum. Lög verði uppfærð í áföngum til að tryggja þennan rétt.
  2. Aukin framleiðni hagkerfisins verði nýtt til að fjölga frístundum.
  3. Fyrrgreindum markmiðum verði náð án skerðingar kaupmáttar.
  4. Aðilar vinnumarkaðarins, ríkið og frjáls félagasamtök vinni saman til að láta þessar tillögur ganga eftir með leiðbeiningu og leiðsögn hlutlauss aðila.

Nánar um fjögurra daga vinnuviku

Af hverju fjögurra daga vinnuvika?

Alda telur fjögurra daga vinnuviku rökrétta í mjög tækni- og sjálfvirknivæddu nútímasamfélagi þar sem efnisleg lífsgæði – hús, bílar, húsbúnaður o.þ.h. – eru orðin mjög mikil en óefnisleg lífsgæði – sem stafa af félagslegum tengslum, áhugamálum, hreyfingu og hvíld – skortir. Fólki einfaldlega vantar tíma til að sinna þessum þáttum lífsins – þeir þurfa mikinn tíma, sem nútímasamfélagið býður ekki upp á, því áherslan er öll á að auka hin efnislegu gæði og í það kapphlaup fer mikill tími. Samfélagið býr þó þegar við tæknilega getu að mati félagsins til að vinna minna og þá mun tækniþróun fjórðu iðnbyltingarinnar fleyta okkur áfram að því sama. Við munum þó þurfa að breyta samfélaginu til að þetta geti orðið. Rétt er að taka fram að félagið telur framangreint eiga við um íslenskt samfélag sem og mörg önnur efnuð vestræn samfélög.

Á liðnum fjórum áratugum hefur vinna í ríkum, vestrænum samfélögum gjörbreyst: Sjálfvirkni hefur aukist gríðarlega og rutt brott mörgum störfum í sjávarútvegi, landbúnaði og þjónustugreinum. Smærri bátar og skip hafa nánast horfið á Íslandi á þessum tíma, bankaútibúum fækkað mikið og þá er sjálfsafgreiðsla nánast orðin regla í stærri verslunum. Alþjóðlegar rannsóknir benda til að þróunin muni halda áfram og einna mest verði áhrifin af sjálfvirkni í þjónustugreinum, en það eru fyrirferðamestu greinarnar í störfum talið. Vinnutími hefur almennt ekki styst með þessum miklu breytingum.

Alda telur að vinnan sjálf verði að taka mið af þeim breytingum sem hafa orðið og eru að verða allt í kringum okkur. Nú er kominn tími á að auka lífsgæði önnur en þau efnislegu – félags- og fjölskyldulíf, tíma til áhugamála – og telur félagið fjögurra daga vinnuviku best til þess fólgna.

Mikil framleiðni hagkerfisins er grunnur að miklum lífsgæðum fólks í sérhverju samfélagi, hvort sem er efnisleg eða óefnisleg. Í opinberri umræðu á Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, er oft ýjað að því að aukinni framleiðni sé eingöngu hægt að verja til að skapa efnisleg lífsgæði og auð – og það beri skilyrðislaust að gera. Í raun og veru er einnig hægt að verja aukinni framleiðni til að draga úr vinnu og efla þannig óefnisleg lífsgæði – frítíma og allt það sem hann gefur okkur. Þá er vitað að ávinningurinn af aukinni framleiðni á Íslandi hefur endað hjá ríkasta hluta samfélagsins í miklum mæli síðastliðna áratugi, enda hefur þessi hópur auðgast mun meira en aðrir. Hvernig framleiðniaukningu er varið og til hverra er því í reynd stjórnmálaleg spurning sem oft er skautað framhjá. Félagið vill nýjan samfélagssáttmála um að aukinni framleiðni, hvernig sem hún kemur til, sé varið til að stytta vinnutímann með fjögurra daga vinnuviku sem viðmið. Tilgangurinn yrði að aðallega auka óefnisleg lífsgæði, en áhrifin gætu raunar einnig orðið jákvæð fyrir umhverfið og samfélagsgerðina sjálfa.

Aukin lífsgæði og öflugra samfélag með styttri vinnutíma

Að mati félagsins er fjögurra daga vinnuvika tækifæri til að auka lífsgæði í íslensku samfélagi, og þá sérstaklega óefnisleg lífsgæði, sem felast í samvistum við annað fólk, hreyfingu, hvíld og tíma til að sinna áhugamálum. Lífsgæðin sem felast í þessu eru verðmæt og mikilvæg, en falla í skuggann af miklu vinnuálagi og streitu sem kemur til af vegna áherslu á að auka í sífellu efnisleg lífsgæði. Alda vill að á næstu áratugum einkennist forgangsröðunin í efnahagsmálum af því að meiri áhersla sé lögð á þessi óefnislegu lífsgæði. Það myndi leiða af sér stóraukin lífsgæði og minnkaða streitu landsmanna, en einnig sterkari tengsl á milli fólks á milli í samfélaginu. Heilt yfir yrði samfélagið öflugra og þróttmeira. Þá getur hæglega dregið úr álagi á velferðarkerfin.

Þessi afstaða Öldu byggir á útgefnum rannsóknum á styttri vinnutíma og fjölþjóðlegum tilraunaverkefnum sem hafa verið rekin undanfarin ár, þar með talið á íslandi. Þessar rannsóknir sýna að styttri vinnutími – einkum fjögurra daga vinnuvika – dregur úr vinnutrengdri streitu, einkennum kulnunar og kvíða, og bætir tilfinningalega líðan. Jafnframt er sterk tilhneiging til að dragi úr hvers kyns árekstrum í daglegu lífi fólks, hvort sem er á milli vinnu og einkalífs eða innan heimilisins. Auðveldara reynst að hitta fólk – fjölskyldu, ættingja og vini – og sinna sjálfboðaliðastarfi og áhugamálum. Ánægja með líf, starf og frítíma eykst iðulega. Og þá verður regluleg hreyfing tíðari og lengri í senn. Tilhneiging er til að ganga á milli staða oftar.

Jákvæðar breytingar sem þessa hafa komið fram í tilraunaverkefnum um styttri vinnutíma og fjögurra daga vinnuviku, en ástæðan er fólgin í því að vinnan eftir styttingu er iðulega betur skipulögð innan vinnustaða, ábyrgð og verkefni skýrari og þá dregur einnig úr árekstrum í lífi fólks sem valda vanlíðan – allt gerir þetta vinnuna heilnæmari og eykur jákvæða upplifun. Þá verður til meiri tími til að sinna mikilvægum þáttum lífsins – félagslegum tengslum – vegna þess að vinnan tekur minna pláss í tilverunni. Í tilraunaverkefnum þar sem stytt er um heilan dag (í fjóra daga) hafa áhrifin iðulega verið skýrari en þegar stytt er um hluta úr degi, enda munar um fullan dag.

Aukin lífsgæði hafa reynst þátttakendum í tilraunaverkefnum svo mikilvæg að um þriðjungur þeirra sögðu að laun þyrftu að hækka á bilinu um fjórðung til helming svo að þeir fengjust til að skipta aftur í fimm daga vinnuviku og um 15% sögðu launahækkun alls ekki duga til – aukin lífsgæði væru yfir peninga hafin.

Félagið telur tilraunaverkefni og árangurinn af þeim mikilvægan leiðarvísi um hvernig fjögurra daga vinnuvika geti reynst samfélaginu öllu, aukið styrk þess og aukið lífsgæði fólks.

Vinnan og umhverfið

Umhverfismál og vinna tengjast böndum í gegnum sameiginlega hegðun fólks og heilu samfélaganna. Öll framleiðsla á vörum – vinna sem greiðir laun – kallar á losun loftslagsbreytandi lofttegunda og myndun úrgangs einhversstaðar. Það sama á við um þjónustu sem er veitt. Öll neysla – möguleg fyrir tilstilli tekna af vinnu – hefur í för með sér áhrif á umhverfið, því hún byggir á að neyta framleiðslu eða nýta þjónustu. Þessar athafnir okkar hafa þannig áhrif á náttúruna og valda raski á jafnvægi hennar – ójafnvægið sem af þessu hlýst veldur svo náttúruhamförum, sjúkdómum og öðru sem skerðir lífsgæði fólks. Umhverfisvandinn er þannig afleiðing flókins samspils á milli þess hvernig við framleiðum vörur, veitum þjónustu og svo sameiginlegra ákvarðana heilu samfélagana sem tengjast vinnu og neyslu.

Mikil von er bundin við að ný tækni hjálpi okkur að losa minna út í umhverfið sem myndi þá draga úr umhverfisvandanum. Vísindafólk hefur hins vegar árum saman varað við að það sé ósennilegt; líklegra sé að slíkt geri einfaldlega enn meiri neyslu mögulega og líklegast verði það raunin – hvatar kapítalismans og krafan um hagvöxt sjá til þess. Sagan er skýr um þetta og hvatarnir óbreyttir. Þess vegna hefur vísindafólk kallað eftir hegðunarbreytingu – slíkt myndi hafa langvarandi áhrif og það í bland við betri tækni myndi hafa í för með sér að áhrifin á náttúruna yrðu jákvæðari fyrir hana og enn meiri en af nýrri tækni einni og sér.

Félagsfræðingar og hagfræðingar hafa í ljósi þessarar vitneskju kallað eftir að aukinni afkastagetu hagkerfa vestrænna ríkja – framleiðni – verði varið til að stytta vinnutímann yfir langt tímabil. Með því móti myndi frítími lengjast, neysla standa í stað og neikvæð áhrif umhverfið hætta að aukast (og jafnvel dragast saman). Jafnframt er líklegt að styttingin sjálf myndi hafa jákvæð áhrif á val fólks á vörum og þjónustu – rannsóknir benda til að fólk neyti umhverfisvænna þegar það hefur meiri tíma. Þá sýna erlend tilraunaverkefni um fjögurra daga vinnuviku að fólk sem vinnur skemur hegðar sér öðruvísi; ferðalögum þess til og frá vinnu fækkar og utanlandsferðum sömuleiðis, og fólk gengur frekar á milli staða. Við myndum þannig færast nær því að lifa innan öruggra marka náttúrunnar og ójafnvægið ekki verða jafn mikið og ella.

Alda telur í ljósi alls þessa mikil tækifæri fólgin í fjögurra daga vinnuviku fyrir sjálfbæra hegðun fólks og samfélaga, einkum í vestrænum heimi. Fjögurra daga vinnuvika sem viðmið samfélaga myndi þýða aðra hugsun um framleiðni sem myndi hafa mikil, langvarandi og jákvæð áhrif á umhverfismál og þar með fólk.

Hvað um hagvöxt?

Að mati félagsins er hagvöxtur – að auka afköst hagkerfisins sífellt og neyta þannig meira – ekki lengur æskilegt markmið sem slíkt í efnuðum samfélögum nútímans, og á það einnig við um íslenskt samfélag. Hagvöxtur þjónar ekki því hlutverki sem hann er oft sagður eða álitinn þjóna – um meiri velsæld og aukin lífsgæði – vegna þess að við höfum ýmist náð því marki eða að hagvöxtur skerðir lífsgæði nú eða til framtíðar fremur en að að auka þau. Loftslagsbreytingar, niðurbrot vistkerfa, ofnýting auðlinda og mengun eru til marks um það. Hagvöxtur er þannig, að mati félagsins, ekki æskilegt markmið til að gera lífið betra í samtímanum eða framtíðinni í efnuðum samfélögum, þótt það hafi eitt sinn verið svo.

Huga ber að öðrum, sértækari markmiðum, líkt og fjögurra daga vinnuviku, sem hefur sýnt sig að eykur lífsgæði mjög áþreifanlega eftir því sem rannsóknir sýna. Mikilvægt er að hlúð sé að þessu markmiði hægt og rólega yfir langt tímabil með að nýta aukna framleiðni hagkerfisins til að stytta vinnuvikuna í fjóra daga.

Hvernig mun fyrirtækjum og stofnunum vegna?

Fyrirliggjandi rannsóknir benda til að bæði fyrirtækjum og stofnunum muni vegna vel eftir að fjögurra daga vinnuvika hefur verið innleidd í samfélaginu. Í erlendum tilraunaverkefnum, sem aðallega hafa verið haldin í einkageiranum, hefur komið í ljós að stytting vinnutímans í fjóra daga hefur haft jákvæð áhrif á framleiðni og starfsanda fyrirtækja, nokkuð sem kom til með bættum starfsaðferðum og vinnuskipulagi, auk virks samstarfs við starfsfólkið um þetta tvennt. En jafnframt hefur fyrirtækjum auðnast að halda betur í starfsfólkið sitt og laða til sín nýtt starfsfólk – þau hafa þannig staðið sig betur í samkeppninni um starfskrafta, enda mikill kostur fyrir vinnandi fólk að þurfa aðeins að vinna fjögurra daga vinnuviku. Þá hafa verið teikn um að dragi lítillega úr veikindum. Allt þetta gerði að verkum að rekstur fyrirtækjanna gekk vel – tekjur jukust á meðan á tilraunaverkefnunum stóð, stjórnendur voru ánægðir með hvernig til tókst og ætluðu nær öll fyrirtækin að halda áfram (92%) með sama fyrirkomulag.

Á Íslandi voru haldin áþekk tilraunaverkefni í opinbera geiranum, bæði í stofnunum Reykjavíkurborgar og ríkisins, en að vísu var styttingin minni en erlendis og haldið í fimm daga vinnuviku, enda haldin fyrr og samhengið annað. Áhrifin á stofnanirnar voru þá um margt áþekk: Jákvæð áhrif á framleiðni, bætt vinnuskipulag og auðveldara reyndist að ráða inn nýtt starfsfólk. Stjórnendur voru mjög sáttir með afrakstur tilraunaverkefnanna.

Alþjóðleg þróun

Stytting vinnuvikunnar í fjóra daga er alþjóðleg þróun sem hefur sótt í sig veðrið í vestrænum heimi undanfarin ár. Þróunin er nátengd hugarfarsbreytingu sem hefur breiðst út – einkum í hinum enskumælandi heimi – og snýst um breytingar á vinnutíma, skipulagi vinnunnar og almennt að endurhugsa bæði samband okkar við vinnuna og tilgang hennar. Stórir hópar fólks hafa áttað sig á að lifnaðarhættir okkar í samtímanum ganga ekki upp – hvorki gagnvart vinnandi fólki né umhverfinu – og að vinnan, sem miðdepill daglegra athafna, verði að taka breytingum, enda geti það haft mjög jákvæð áhrif á líf fólks sé rétt að því staðið. Félagasamtök, stéttarfélög og stjórnmálaflokkar hafa tekið málefnið upp á sína arma.

Þróunin í átt að fjögurra daga vinnuviku má segja að hafi verið hraðari þökk sé tilraunaverkefnum sem hleypt hefur verið af stokkunum í mörgum löndum, svo sem Bretlandi, Írlandi, Spáni, Portúgal, Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Suður-Afríku og Brasilíu. Þessi tilraunaverkefni, sem eru að íslenskri fyrirmynd, hafa gengið vel og sýnt fram á að stytting vinnuvikunnar í fjóra daga er vinnandi fólki hagstæð ekkert síður en atvinnurekendum. Öll hafa þessi tilraunaverkefni verið án launaskerðingar – mánaðarlaun héldust óbreytt þrátt fyrir skemmri vinnuviku.

Hér er tækifæri fyrir Ísland til að vera í fararbroddi með því að fylgja eftir styttingu vinnutímans hér á landi á árunum 2020-2021.

Hvenær gæti fjögurra daga vinnuvika náðst?

Yfirleitt þegar rætt er um fjögurra daga vinnuviku er miðað við 32 stundir í vinnu á viku. Er þá miðað við raunverulegar vinnustundir. Gert er ráð fyrir að tekjutap samfélagsins verði ekkert með styttingu í fjögurra daga vinnuviku og að aukin framleiðni hagkerfisins verði nýtt til að styttingin verði að veruleika. Til að áætla hversu mörg ár tæki að koma á fjögurra daga vinnuviku á Íslandi má líta til gagna frá alþjóðastofnunum.

Samkvæmt hagtölum OECD er fjöldi vinnustunda á hvern vinnandi mann á Íslandi um 1.450 á ári. Eru það raunverulega unnar vinnustundir, þar sem er búið að undanskilja veikindaleyfi, frí og svo framvegis. Framleiðni á hverri unninni vinnustund (miðað við leiðréttan kaupmátt) að mati OECD er um 110 bandaríkjadalir. Til að viðhalda sömu landsframleiðslu á hvern vinnandi – um 160.000 bandaríkjadalir – en á 1.150 vinnustundum á ári – ígildi fjögurra daga vinnuviku – þyrfti framleiðni að ná um 138 dölum á vinnustund, sem er um 25% aukning.  Þessi tala hljómar vissulega há, en til samanburðar má benda á að framleiðni á Íslandi jókst um 25% á um 14 árum, á árabilinu 2008 til 2022. Það eru því nýleg, söguleg fordæmi fyrir slíkri aukningu á framleiðni, en aukinheldur þarf að hafa í huga að samfélagið stefndi ekki markvisst í átt aukinni framleiðni mest allt það tímabil, sem yrði auðvitað öfugt farið með fjögurra daga vinnuviku – tilraunaverkefni hafa sýnt að stytting í fjóra daga er öflugur hvati til aukinnar framleiðni. Má því jafnvel gera ráð fyrir að aukinni framleiðni yrði náð hraðar en á árunum eftir 2008 vegna meðvitaðrar ákvörðunar um að auka framleiðni sem mest og enn frekar ef gert ráð fyrir hvötum og samvinnu, sem nefnt er annars staðar.

Af þessu má því leiða að fjögurra daga vinnuvika ætti að geta náðst á um tíu til fimmtán árum.

Hvernig raungerum við fjögurra daga vinnuviku?

Alda telur mikilvægt að hafa í huga að margar aðferðir nota má nota til að stytta vinnutímann og að þær hagnýta samtímis, svo fremi sem þær styðji hver aðra í átt að sama markmiði. Hér að neðan eru nokkrar af þeim leiðum sem félagið telur ákjósanlegar fyrir íslenskt samfélag að notfæra sér, en þær fela í sér aðkomu stéttarfélaga, fyrirtækja, stofnana og ríkisins.

Tilraunaverkefni. Atvinnurekendur – stofnanir ríkisins og sveitarfélaga, fyrirtæki og félagasamtök í rekstri – geta efnt til eigin tilraunaverkefna um fjögurra daga vinnuviku. Heppilegt gæti reynst að reka slík verkefni í samvinnu við erlenda hugveitu eða samtök sem hafa fyrri reynslu af slíku tilraunaverkefni til að allt gangi sem best. Markmiðið með slíkum tilraunaverkefnum er alltaf að kanna hvernig megi bæta skipulag og starfshætti til að fjögurra daga vinnuvika gangi og hver ábatinn fyrir vinnustaðinn yrði. Íslensk lög heimila að samkomulag sé gert við starfsfólk um tilraunaverkefni af þessu tagi.

Kjarasamningar. Félagið telur mikilvægt að samið sé um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum og ákjósanlegt að fjögurra daga vinnuviku yrði náð þannig. Hins vegar telur félagið eðlilegt að beita öðrum leiðum í bland, enda getur þurft að styðja við þróunina í átt að fjögurra daga vinnuviku til að auðvelda kjarasamninga.

Samvinna og hvatakerfi. Samvinna og samstilling ólíkra aðila vinnumarkaðarins auk tímabundinna hvatakerfa er gagnleg að mati félagsins og myndi hraða verulega fyrir fjögurra daga vinnuviku, auk þess að styrkja kjarasamningagerð um styttingu vinnutímans.

Hvatakerfið fælist í styrkjum og lánum sem ríkið myndi veita fyrirtækjum og stofnunum til að auka skilvirkni sína og framleiðni í því augnamiði að stytta vinnutímann hjá sínu starfsfólki. Slíkir styrkir, sem ríkið myndi veita sem fjárfestir í hagkerfi framtíðarinnar, yrðu tímabundnir á meðan hagkerfið væri að aðlaga sig að styttri vinnutíma. Ríkið fengi styrkféið til baka í formi hærri styrkgreiðslna fyrirtækjanna vegna aukinnar framleiðni og minna álags á velferðarkerfin.

Í gegnum samráð geta félög launþega og atvinnurekenda auk stjórnenda stofnana átt samskipti og skipulagt hvernig styttingin er innleidd og hvernig aukinni framleiðni er náð fram á vinnustöðum. Slíkt samráð gæti átt sér stað á vegum stjórnvalda beint eða fyrir tilstilli endurreistar Þjóðhagsstofnunar. Mikilvægt er að hlutlausir aðilar, fræðafólk eða Þjóðhagsstofnun, sinni úrvinnslu á upplýsingum og stýri samráðinu.

Vel má hugsa sér að aðilar vinnumarkaðarins stytti vinnutímann í skrefum eftir því sem framleiðni eykst og samvinnu vindur áfram, byggt á kjarasamningaákvæðum.

Lög. Alþingi getur uppfært núverandi lög um fjörtíu stunda vinnuviku til að kveða á um 32 stunda vinnuviku á fjórum dögum. Alda mælist þó til að lögin verði fyrst uppfærð til að kveða á um 35 stunda vinnuviku, til að tryggja launafólki þann áfanga sem náð var með styttingunni 2020 til 2021 með lögum. Til þess má einfaldlega samþykkja frumvarp sem legið hefur fyrir frá 2014. Síðar, þegar kjarasamningar, samráð og tilraunaverkefni hafa borið árangur, má uppfæra lögin til að liðka fyrir innleiðingu fjögurra daga vinnuviku um allt samfélagið.

Lög eru mikilvægur hluti umgjarðar samfélags til að tryggja hóflegan vinnutíma í samfélaginu og til að tryggja rétt vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum. Þau eru einnig mikilvæg til að koma í veg fyrir að það sé of mikill munur á vinnutíma fólks innan vinnumarkaðarins.

Er stytting í fjóra daga áhættusöm?

Að stytta vinnuvikuna í fjóra daga er að mati Öldu ekki ýkja áhættusamt fyrir íslenskt samfélag sé vel að því staðið og sé það gert í skrefum, svo sem í gegnum kjarasamninga, með samráði á milli aðila vinnumarkaðarins og/eða fyrir tilstilli hvatakerfis. Söguleg reynsla sýnir að stytting vinnutímans gengur iðulega vel sé hún útfærð skynsamlega og er áhættulítil.

Réttast er að meta áhættuna af styttingu í fjóra daga með tilliti til ávinnings samfélagsins umfram núverandi skipulag þess og núverandi lifnaðarhætti og afleiðingum þeirra, og hvað myndi líklega breytast með fjögurra daga vinnuviku. Það sem þykir sjálfsagt í dag er ekki endilega það heppilegasta fyrir samfélagið.

Félagið telur eftirfarandi atriði áberandi skaðleg í núverandi skipulagi samfélagsins:

  • Fólk hefur ónógan tíma til að sinna hreyfingu og til að hvílast. Svefni er ábótavant hjá of mörgum og hreyfing ónóg – hvort tveggja er heilsufarsógn.
  • Fólki skortir tíma til að rækta fjölskyldulíf og vinskap. Rannsóknir sýna að þetta er mikilvægur hluti lífsins sem skapar mikil lífsgæði.
  • Álag í daglegu lífið er mjög mikið af völdum ýmiss konar krafna samfélagsins, bæði í vinnu og einkalífi, og hefur aukist mjög. Raunin er að fólki reynist oft erfitt að standa undir þessum kröfum þegar stórum hluta vökutímans er varið til vinnu. Langvarandi álag eykur hættu á kulnun og heilsufarslegum vanda. Álag frá vinnu stuðlar að árekstrum á milli vinnu og einkalífs.
  • Félagsstarf fólks á vinnualdri – þátttaka í frjálsum félagasamtökum – hefur dregist saman og á undir högg að sækja. Skortur á tíma er oft flöskuhálsinn.

Allt hefur þetta áhrif á fólk og dregur úr lífsgæðum. Stytting vinnutímans 2020-2021 bætti án efa úr, en með fjögurra daga vinnuviku má taka stærra skref að mati félagsin, enda rökrétt í ljósi tækniþróunar og almennra framfara í lífsgæðum. Má jafnvel búast við viðsnúningi á öllum þessum þáttum, enda hafa erlend tilraunaverkefni sýnt fram á með skýrum hætti að mikil breyting verður á þeim með fjögurra daga vinnuviku.

Þá er ljóst að vinna, neysla og umhverfisvandinn tengjast sterkum böndum, eins og fjallað er um annars staðar. Að mati félagsins felast tækifæri með fjögurra daga vinnuviku til að breyta neysluháttum, venjum og siðum sem myndu hafa jákvæð áhrif á umhverfið og þar með líf okkar sjálfra.

Fjögurra daga vinnuvika er líka tækifæri fyrir fyrirtæki, stofnanir og hagkerfið í heild sinni til að taka á rótgrónum vandamálum:

  • Framleiðni á Vesturlöndum hefur verið áhyggjuefni um langt skeið. Tilraunaverkefni sýna að stytting vinnutímans getur hæglega aukið framleiðni með bættum starfsaðferðum.
  • Fyrirtæki eiga oft erfitt með að halda í starfsfólk til langs tíma. Tilraunaverkefni erlendis um fjögurra daga vinnuviku sýna að auðveldara er að ráða og halda í starfsfólk eftir styttingu og að tryggð við vinnustaði eykst.

Ljóst er að ávinningurinn fyrir samfélagið í heild sinni getur verið gríðarlegur, og nær til vinnandi fólks og fyrirtækja.

Innleiðingu fjögurra daga vinnuviku um allt samfélagið fylgir þó áhætta sem þarf að hafa gætur á:

  • Hætt er við auknum vinnuhraða og álagi sem getur fylgt því ef illa er staðið að styttingu. Sporna má við þessu með góðu skipulagi við styttingu, bættri mönnun, aukinni sjálfvirknivæðingu og aðhaldi frá stéttarfélögum.
  • Við allar skipulagsbreytingar á vinnustöðum – sem er nánast óhjákvæmilegt til að geta innleitt fjögurra daga vinnuviku – er hætt við ólagi á vinnustöðum, allt frá árekstrum á milli fólks til að gleymist að huga að mikilvægum öryggisþáttum í rekstri, er hættan meiri ef of geyst er farið. Því er betra að styttingin breiðist um samfélagið á lengri tíma.
  • Heilbrigðisþjónusta og velferðarkerfi þurfa sérstaka aðgæslu. Þau þarf að styrkja og mönnun þeirra þarf að bæta meðfram innleiðingu fjögurra daga vinnuviku – og ætti það að reynast hægra, sbr. að vinnustaðir sem stytta í fjögurra daga vinnuviku eiga auðveldara með að ráða fólk og halda í það. Til eru tillögur um hvernig má innleiða fjögurra daga vinnuviku í bresku heilbrigðisþjónustunni, sem gætu nýst á Íslandi.

Þetta eru þær helstu hættur sem kunna að fylgja styttingu í fjóra daga og þarf að stemma stigum við til að innleiðing heppnist vel.

Hættu á óðaverðbólgu og efnahagslegum áföllum er oft teflt fram gegn styttingu vinnutímans af hagsmunasamtökum fyrirtækja- og fjármagnseigenda. Alda telur hættuna á slíkum atburðum mjög litla sé rétt og vel staðið að styttingunni, og byggir gagnrýnin á mjög hæpinni söguskoðun að mati félagsins.

Stytting vinnuvikunnar í fjóra daga er þannig ekki áhættulaus, og það þarf að gæta að tilteknum þáttum samfélagsins sérstaklega, en heilt yfir er ávinningurinn fyrir samfélagið áhættunnar virði að mati Öldu, enda gætu lífsgæði aukist mikið við fjögurra daga vinnuviku og vel mögulegt að hafa auga með og bregðast við áhættuþáttum.

Erlendar hugveitur og samtök

Á undanförnum árum hafa fjölmörg samtök og allnokkrar hugveitur verið stofnuð um fjögurra daga vinnuviku víða um heim. Þau helstu eru:

Einnig hafa stéttarfélög erlendis og samtök þeirra tekið fjögurra daga vinnuviku upp á sína arma:

Autonomy hugveitan heldur úti fréttabréfi um það helsta sem gerist varðandi vinnutíma víða um heim.

Erlend tilraunaverkefni

Erlend tilraunaverkefni um fjögurra daga vinnuviku eru nú orðin allmörg og hefur mikilvæg þekking orðið til með þeim. Hér eru nokkur þau helstu:

Ítarefni um styttingu vinnuvikunnar

Mikið efni er til um styttingu vinnutímans og ýmis nýleg tilraunaverkefni. Hér á eftir fylgir það helst sem til er, með áherslu á fjögurra daga vinnuviku.

Skýrslur um styttri vinnutíma

Skýrslur um tilraunaverkefni

Bækur um styttri vinnutíma

<< 1 >>


Alda og styttri vinnuvika

Alda hefur vakið athygli á og aflað stuðnings við styttri vinnuviku frá því árið 2011. Á þeim tíma hefur félagið staðið að útgáfu lengri skýrslna og samantekta, en einnig fjölmargra blaðagreina og umsagna til opinberra stofnana.

Alda og breska hugveitan Autonomy tóku höndum saman og gáfu út fyrstu skýrsluna á ensku um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar sem voru rekin á Íslandi á árunum 2015 til 2019. Um er að ræða tilraunaverkefni hjá bæði Reykjavíkurborg og ríkinu. Skýrslan vakti heimsathygli.

Alda stóð fyrir vönduðu málþingi árið 2019 í samstarfi við stéttarfélög og hugveitur. Á málþinginu var stytting vinnuvikunnar í fyrirrúmi og m.a. fjallað var um tilraunaverkefni sem þá stóðu yfir. Í framhaldinu gaf félagið út samantekt um efni málþingsins á ensku vegna mikils áhuga erlendra félagasamtaka og fjölmiðla á þróun mála á Íslandi.

Árið 2012 gaf Alda út bækling um nauðsyn og kosti styttri vinnuviku. Alda dreifði bæklingnum til stéttarfélaga, stjórnmálaflokka og fjölmiðla.

Alda braut með þessu blað og umræða um styttri vinnuviku jókst næstu árin.