Eitt af stefnumálum Öldu er að á Íslandi verði unnið minna en nú er gert. Tilgangurinn með færri vinnustundum er að auka lífsgæði almennings í formi meiri möguleika til tómstunda og sjálfsræktar, en auk þess að fólk geti frekar tekið þátt í eigin samfélagi.

Megininntak Öldu hvað vinnutímann áhrærir, er að jafnvel þótt vinnan sé mikilvæg – hún sér okkur fyrir húsaskjóli og fæðu – þá snýst lífið ekki eingöngu um vinnu. Lífið snýst um að njóta þess að vera til, fá að stunda áhugamál sín og verja tíma með fjölskyldu og vinum.

Tillögur Öldu

Tillögur Öldu um skemmri vinnudag, samþykktar af félaginu, eru þessar:

  1. Venjuleg vinnuvika verði stytt í 30-32 vinnustundir.
  2. Tryggja þarf að aukin framleiðni skili sér í fleiri frístundum hjá vinnandi fólki.
  3. Fyrrgreindum markmiðum skal náð þannig að kaupmáttur standist í stað eða aukist.

Ísland, vinnustundir og nágrannalöndin

Íslendingar vinna að jafnaði meira heldur en aðrir Norðurlandabúar, og raunar meira en flestir íbúar Evrópu gera. Að auki er þátttaka á vinnumarkaði – það, hve stórt hlutfall fólks á aldrinum 15-64 ára er vinnandi – í hæstu hæðum á Íslandi, um 86%. Þessir löngu vinnudagar hafa ýmis slæm áhrif á samfélagið, sem má uppræta með því að stytta vinnudaginn, en mikil vinnuþátttaka er í sjálfu sér jákvæð, enda skapar hún í sjálfu sér ákveðið jafnræði meðal borgaranna.

Á myndinni má sjá betur samanburð vinnustunda milli Íslands og nokkura landa Evrópu.
Myndin sýnir hvernig vinnustundir eru og hafa verið lengri á Íslandi, miðað við ýmis önnur lönd Evrópu. Myndin sýnir meðalfjölda vinnustunda á hvern vinnandi mann. Gögnin sem liggja myndinni til grundvallar eru úr Total Economy Database, nóvember 2016.

Þessi lengri vinnudagar þýða að á Íslandi er að meðaltali unnið 34 vinnudögum meira árlega en í Svíþjóð, og 59 dögum meira en í Danmörku, sé miðað við átta tíma vinnudag, en tímafjöldinn jafnast á við gott sumarleyfi, eða tvö. Í töflunni fyrir neðan má sjá nánara yfirlit um hvernig þessum mun var háttað milli Íslands og nokkurra annarra landa árið 2015.

Land 8 tíma vinnudagar
Danmörk 59
Noregur 57
Belgía 41
Austurríki 34
Svíþjóð 34
Finnland 30
Bretland 26
Bandaríkin 12

Byggt á gögnum frá OECD.

Rétt er að taka fram að jafnvel þótt vinnustundum hafi fækkað eitthvað á undanförnum 37 árum á Íslandi (frá um 1980), þá myndi það taka um 56 ár fyrir íslenskt samfélag að ná sama fjölda vinnustunda og tíðkaðist í Svíþjóð árið 2015, að því gefnu að vinnustundum haldi áfram að fækka jafn hratt og hefur verið á þessu tímabili. Þetta er vegna þess að á Íslandi hefur vinnustundum fækkað mjög hægt.

Önnur leið til að meta unna vinnu: Umfang vinnunnar

Vinnustundir á hvern vinnandi mann er ein leið til að mæla hversu mikið er unnið í samfélagi, en sú leið er bara ein af nokkrum mögulegum. Önnur leið er að skoða nokkurs konar heildarumfang vinnunnar í samfélagi, sem gefur frekari vísbendingu um hversu miklu er tilfórnað í vinnu af hálfu samfélagsins. Til að geta reiknað út umfangið er byrjað á að kanna hve mikil atvinnuþátttaka viðkomandi samfélags er, en svo þarf að huga að meðalvinnustundum á hvern vinnandi mann. Því næst er atvinnuþátttaka margföldið
með meðalfjölda vinnustunda á hvern vinnandi mann í viðkomandi samfélagi og loks deilt með 100.

Útkoman er eins konar vísitala, sem má túlka sem meðalfjölda vinnustunda allra sem eru á aldrinum 15-64 ára. Sé þetta gert fyrir nærri öll Evrópulönd, auk Bandaríkjanna, þá kemur í ljós að umfangið er hvergi meira en á Íslandi.

Umfang vinnunnar 2015

Land Umfang vinnunnar
Ísland 1653
Lettland 1445
Eistland 1419
Grikkland 1378
Litháen 1378
Portúgal 1372
Pólland 1337
Sviss 1324
Svíþjóð 1316
Tékkland 1299
Bretland 1299
Bandaríkin 1297
Spánn 1284
Írland 1276
Finnland 1150
Slóvakía 1244
Austurríki 1214
Slóvenía 1212
Ungverjaland 1198
Holland 1132
Noregur 1116
Danmörk 1108
Ítalía 1103
Lúxemborg 1074
Þýskaland 1062
Frakkland 1060
Belgía 1048

Gögn um atvinnuþátttöku eru fengin frá OCED og gögn um vinnustundir eru sömuleiðis frá OECD.

Afleiðing vinnutímans: Árekstrar vinnu og einkalífs

Áhrifin af löngum vinnustundum eru ekki alltaf augljós, ekki síst í samfélagi þar sem vaninn er að vinna mjög mikið, þess vegna er nauðsynlegt að skoða sérstaklega hver áhrifin eru á samfélagið.

Áhrifin á samfélagið af vinnudögunum löngu eru ýmisleg. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu hefur kannað lífsgæði í 38 aðildarlöndum sínum frá 2011, en í þeirri athugun var Ísland meðal þeirra landa sem komu einna verst út hvað varðar árekstra vinnu og einkalífs, en einnig kom Ísland mjög illa út hvað varðar þann tíma sem fólk hefur til að sinna sjálfsrækt og áhugamálum. Ísland vermdi neðstu sætin hvað varðar tíma fyrir sjálfsrækt og áhugamál ásamt Tyrklandi, Mexíkó, Lettland og Ísrael, en á toppnum tróndu Frakkland, Spánn, Holland og Danmörk.

Í alþjóðlegri könnun, sem varð gerð um 2005, var niðurstaðan í svipuðum dúr; hún sýndi að hvergi var kvartað meira undan því að fólk kæmi of þreytt úr vinnu til að sinna heimilisstörfum en á Íslandi. Í sömu könnun var spurt um hvernig gengi að klára verkefni í vinnunni, og þar lenti Ísland í þriðja neðsta sæti.

Í sömu könnun og spurt var um þreytu var líka kannað hvort fólk vildi vinna minna, meira eða jafn mikið og það gerði. Í ljós kom að mjög margir vildu vinna minna (42%), en gátu það ekki af hverjum ástæðum; trúlega fjárhagslegum og/eða vegna ósveigjanlegra vinnustaða. Einnig voru fjölmargir sem vildu eyða meiri tíma með vinum og fjölskyldu en þeir gerðu.

Stytting vinnudagsins gæti haft þau áhrif að fólk yrði minna þreytt eftir vinnu, auk þess sem skemmri vinnudagur gæti dregið úr árekstrum einkalífs og vinnu.

Önnur afleiðing vinnutímans: Slök framleiðni

Skemmri vinnudagur kann að hafa jákvæð áhrif á framleiðni, en hún er í lægri kantinum á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd og ýmis önnur ríki í Evrópu, eins og sjá má af myndinni. Stytting vinnudagsins gæti hér hjálpað til við að auka framleiðni, en endurskipulagning vinnufyrirkomulags fylgir gjarnan styttingu vinnudags, ekki síst til að bæta vinnufyrirkomulagið.Myndin sýnir samhengi vinnustunda og framleiðni á meðal nokkurra landa Evrópu. Sjá má hvernig vinnustundir og framleiðni haldast í hendur: Eftir því sem framleiðni er meiri, því minna vinnur fólk alla jafna. Myndin sýnir jafnframt hvernig framleiðni á Íslandi er lakari en í samanburðarlöndunum, sem stemmir vel við að á Íslandi er mikið unnið. Gögnin að baki myndinni koma fá OECD (gögn um vinnustundir, gögn um framleiðni)

Framleiðni á Íslandi á vel að geta verið hærri, sérstaklega ef vinnuferlar eru endurskipulagðir, og hugað er betur að vinnumenningu á alla kanta, en nokkur atriði benda til þess að þetta gæti orðið raunin. Því til stuðnings má aftur benda á myndina að ofan, sem sýnir samhengi milli vinnustunda og framleiðni, en myndina má hæglega túlka sem svo að með skemmri vinnudegi verði fólk minna þreytt, hafi betra úthald til að sinna vinnunni og eyði vinnutímanum á skynsamari hátt. Þetta þýðir þó ekki að þetta gildi alltaf, að það sé einfaldlega hægt að stytta vinnudaginn út í hið óendanlega til að fá fram meiri framleiðni, það er ekki það sem átt er við, heldur það að á Íslandi séu aðstæður til að auka framleiðni sem megi nýta með því að stytta vinnudaginn.

En aukin framleiðni á ekki eingöngu að þýða skemmri vinnudag til skamms tíma, heldur ætti aukin framleiðni að leiða til skemmri vinnudags almennt, sökum þess hve mikið lífsgæði aukast við skemmri vinnudag. Sjálfvirknivæðing, vélvæðing og aukin framleiðni, allt á þetta að skila sér beint í minni vinnu, og því að þeirri vinnu sem þarf að vinna, sé dreift á fleiri hendur. Stytting vinnudagsins er fyrir löngu tímabær aðgerð í þessu samhengi.

Fordæmi

Mörg fordæmi eru fyrir styttingu vinnudagsins.

Árið 2015-2016 var reynt að stytta vinnudaginn hjá tveimur af stofnunum Reykjavíkurborgar, með mjög góðum árangri. Prófað var að skerða vinnudaginn á annarri stofnunni um klukkustund á dag, fimm daga vikunnar, á meðan á hinni var hætt að vinna á hádegi á föstudögum, en hvort tveggja var gert án þess að skerða laun starfsfólksins. Í báðum tilvikum gekk skerðingin vel fyrir sig: öll verkefni voru leyst sem áður, notendur stofnunarinnar voru ámóta ánægðir og áður, starfsfólkinu leið betur og þá dró bæði úr líkamlegum og andlegum einkennum álags meðal starfsfólksins.

Lykilinn að þessum breytingum hjá stofnunum Reykjavíkurborgar var að bæta fundamenningu, draga úr því að fólk sinnti einkaerindum á vinnutíma, ásamt því að rýna í verkferla almennt. Tilraun Reykjavíkurborgar heldur nú áfram, og nú með þátttöku fleiri vinnustaða (sjá hér).

Í Þýskalandi á níunda áratugnum, til að nefna annað dæmi, var gripið til samræmdra aðgerða vinnuveitenda og samtaka launþega, um skemmri vinnudag. Gerðar voru breytingar á vinnufyrirkomulagi og vaktaplönum, með þeim afleiðingum að ekki aðeins gat fólk unnið skemur ásamt því að fólk fékk launahækkanir, heldur högnuðust atvinnurekendur á breytingunum — fyrir breytingarnar bjuggust atvinnurekendur við því að tapa á breytingunni, en vegna þess að framleiðni stórjókst, högnuðust þeir. Þetta dæmi er mikilvæg lexía fyrir Ísland, þar sem eru góð tækifæri til að auka framleiðnina (sjá hér).

Hvernig yrði vinnudagurinn styttur?

Margar leiðir eru til að stytta vinnudaginn, og raunar er hægt að vinna að styttingunni samtímis eftir ólíkum leiðum.

Í fyrsta lagi geta atvinnurekendur tekið það upp hjá sér sjálfum að leyfa fólki að vinna minna, fyrir sama kaup — þetta er raunar það sem Reykjavíkurborg gerði í stofnununum tveimur, þar sem vinnudagurinn var skertur. Atvinnurekendur hafa það í hendi sér að leyfa fólki að vinna skemur; þeir, í samvinnu við starfsfólk sitt, geta samið um að vinnudagurinn verði styttur, en að verkferlar yrðu bættir, vinnulag bætt, líkt og gert var í Þýskalandi.

Alþingi getur líka sett lög sem skyldar atvinnurekendur til að stytta reglulegan vinnudag. Á Íslandi eru í gildi lög frá 1971, um 40 stunda vinnuviku, sem hæglega væri hægt að breyta, til að kalla fram skemmri vinnuviku. Raunar var lagt fram frumvarp um breytingu á þessum lögum árið 2014 og aftur árið 2015, en hvorugt frumvarpið náði að verða að lögum.

Sveitarfélög landsins geta leyft fólki að vinna skemur. Sveitarfélögin eru öflugur atvinnuveitandi í landinu, sem veita nærsamfélagi sínu mikilvæga þjónustu, en þau geta líka sett fordæmi fyrir aðra atvinnurekendur í landinu með því að stytta vinnuvikuna hjá sínu starfsfólki.

Einnig er mikilvægt að tryggja þeim sem vilja vinna hlutastörf ríkuleg réttindi til þess, meðal annars til að tryggja að ekki sé hægt að neyða fólk til að flytjast yfir í fullt starf. Tryggja þarf að fólk sem vinnur hlutastörf hafi jöfn réttindi á við aðra, hvort sem er innan vinnustaðarins eða í samfélaginu almennt. Einnig þarf að tryggja að fólk geti valið að vinna hlutastörf, slíkt séu réttindi.

Ýmislegt efni um styttingu vinnudags