Hornsteinn stefnu Öldu er efling lýðræðis gegnum virka þátttöku almennings í stefnumótun og mikilvægum ákvörðunum, enda er það almenningur sem lýðræðið á að þjóna. Alda leggur einnig áherslu á gagnsæi sem er forsenda þess að stjórnmálin njóti trausts og að almenningur geti veitt valdhöfum aðhald.

Þátttökulýðræði og slembival

Meðal þeirra leiða sem Alda leggur til að efla lýðræðið eru borgaraþing (Citizens’ assembly) á Íslandi.  Þar gæfist almennum borgurum tækifæri til að ræða mál sín á milli, og móta tillögur í þeim málum sem þingin ræða. Borgaraþing eru þing slembivaldra borgara, sem njóta leiðsagnar sérfræðinga og fá bæði aðstöðu og tíma til að ræða flókin og erfið viðfangsefni. Borgaraþing hafa meðal annars verið notuð með góðum árangri á Írlandi til að ræða loftslagbreytingar og aðgerðir við þeim, öldrun þjóðarinnar og þjóðaratkvæðagreiðslur, og margt fleira. Borgaraþing hafa verið sett á stofn víða í Evrópu með góðum árangri.

Atvinnulýðræði

Í samtímanum eru flest stór fyrirtæki ólýðræðisleg — starfsmenn þeirra hafa lítið sem ekkert um stefnumörkun þeirra að segja, og starfsmenn eiga yfirleitt ekki fyrirtækin nema mögulega að litlu leyti. Við leiðum hugann sjaldnast að lýðræði í atvinnulífinu. Þó er vinnustaðalýðræði þekkt erlendis og jafnvel regla í sumum greinum. 

Í Evrópu er algengt að fulltrúar starfsfólks sitji í stjórnum fyrirtækja. Sumstaðar er slíkt lagaskylda. Á tímum hraðra tæknibreytinga og samþjöppunar vegna hnattvæðingar getur lýðræði af þessum toga skipt miklu. Það eykur getu launafólks til að hafa áhrif á framgang eigin lífs – enda vinnan mikilvægur hluti lífsins. Stefna Öldu er að auka lýðræði í atvinnulífinu með þátttöku starfsfólks í stjórnum fyrirtækja, slíkt auki lífsgæði og jöfnuð í samfélaginu og stuðli að gagnsæi um athafnir fyrirtækja.

Þá þekkjast einnig lýðræðisleg fyrirtæki, en þau eru félagsskapur fólks sem vinnur saman af fúsum og frjálsum vilja að sameiginlegum efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum, en gerir það í gegnum fyrirtæki í þeirra sameiginlegri eigu. Eignarhald slíkra fyrirtækja er þannig í höndum starfsfólksins og ákvarðanir eru teknar lýðræðislega (eitt atkvæði á mann óháð starfi). Alda vill að sett séu lög sem auðveldi að stofnsetja slík fyrirtæki á Íslandi og auki þannig valfrelsi í atvinnulífinu.

Meira um lýðræðisleg fyrirtæki hér. Þingsályktunartillögu Öldu um lýðræðisleg fyrirtæki má finna hér.

Gagnsæi

Án gagnsæis er ekkert lýðræði, því lýðræði byggir á upplýstum ákvörðunum út frá þeim gögnum sem eru aðgengileg hverju sinni. Almenningur og stofnanir hins opinbera verða að geta byggt ákvarðanir sínar og skoðanir á sömu upplýsingum. Skortur á gagnsæi stuðlar að því að spilling þrífist. Í dag er gagnsæi í stjórnkerfinu of lítið þótt árangur hafi náðst. Telur Alda mikilvægt að gagnsæi sé aukið í stjórnsýslunni og að það verði sjálfgefið nema að ríkir hagsmunir tiltekinna einstaklinga séu í húfi. 

Gagnsæi á einnig að ná út í atvinnulífið – til fyrirtækja, enda hafa ákvarðanir og athafnir þeirra mikil áhrif á líf okkar allra og þróun samfélagsins. Til að lýðræði geti þrifist og einkahagsmunir fyrirtækja hafi ekki óeðlileg áhrif á stjórnmál þarf meira gagnsæi í atvinnulífinu. Eðlilegt er því að fullt gagnsæi ríki um eignarhald fyrirtækja og sjóða af öllu tagi, um samninga þeirra við önnur fyrirtæki og hið opinbera, en jafnframt um fjárhagsstöðu þeirra. Fyrirtæki eiga sér enda ekki einkalíf, aðeins fólk.

Útgefið efni um lýðræði og stjórnmál

Frekara efni má nálgast á efnissíðum um stjórnmálin og lýðræði.