Við höfum vanrækt lýðræðið. Ákvarðanir eiga að vera teknar af almenningi með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Kjarni lýðræðisins er að hver og einn hafi jafn mikið um málefni samfélagsins að segja, jafn mikil áhrif. Það er ekkert annað í stöðunni en að færa valdið, sem þjappast hefur saman á fárra hendur, til almennings.

Eitt atkvæði á mann, flóknara er það ekki. Þessi regla þarf að gilda á öllum sviðum samfélagsins, í efnahagslífi jafnt sem stjórnmálum.

Valdið til fólksins
Á stjórnmálasviðinu þarf að draga úr flokksræði, en vald hefur þjappast saman í fámenna valdakjarna innan stjórnmálaflokkanna. Dreifa þarf valdinu, t.d. með því að innleiða þar persónukjör og slembival.

  • Sjá tillögur Öldu um umbætur í lýðræðismálum, hér.
  • Sjá einnig tillögur Öldu til Stjórnlagaráðs, varðandi nýja stjórnarskrá, hér.

Stórar ákvarðanir, eins og fjárhagsáætlunargerð sveitarfélaga, má taka á fulltrúaþingum almennings eins og gefist hafa vel erlendis. Jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og því þarf að tryggja að valdið dreifist jafnt til einstaklinga óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kynþætti, þjóðerni, líkamlegri getu o.s.frv.

Lýðræðisleg fyrirtæki
Í samtímanum eru flest fyrirtæki ólýðræðisleg — starfsmenn þeirra hafa lítið sem ekkert um rekstur þeirra að segja, og starfsmenn eiga yfirleitt ekki fyrirtækin nema mögulega að litlu leyti.

Til að tryggja fólki meiri lífsgæði, þarf það að hafa meira um líf sitt að segja. Lýðræðisleg fyrirtæki eru ein leið til þess að tryggja að svo sé.

Lýðræðisleg fyrirtæki er félagsskapur fólks sem vinnur saman af fúsum og frjálsum vilja að sameiginlegum efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum, en gerir það í gegnum fyrirtæki í þeirra sameiginlegri eigu.

Lýðræðisleg fyrirtæki eru að mestu leyti lík þeim fyrirtækjum sem við búum við á Íslandi, nema að stjórnun þeirra er lýðræðisleg og eignarhald er sameiginlegt. Aðal munurinn er sá að í lýðræðislegum fyrirtækjum eru eigendurnir starfsmenn fyrirtækisins og það eru jafnframt þeir sem taka allar stærstu ákvarðanir um framtíð og rekstur fyrirtækisins. Ákvarðanir eru teknar lýðræðislega og hver starfsmaður hefur eitt atkvæði á mann óháð því nákvæmlega hvaða starfi hann gegnir.

  • Meira um lýðræðisleg fyrirtæki hér.
  • Þingsályktunartillögu Öldu um lýðræðisleg fyrirtæki má finna hér.

Borgaraþing
Taka þarf upp borgaraþing (Citizens’ assembly) á Íslandi þar sem almennum borgurum gefst tækifæri til að ræða mál sín á milli, og taka ákvörðun um stefnu í þeim málum sem þingin ræða. Borgaraþing eru þing slembivaldra borgara, sem njóta leiðsagnar sérfræðinga og fá bæði aðstöðu og tíma til að ræða flókin og erfið viðfangsefni. Borgaraþing hafa meðal annars verið notuð með góðum árangri á Írlandi, til að ræða loftslagbreytingar og aðgerðir við þeim, öldrun þjóðarinnar og þjóðaratkvæðagreiðslur. Borgaraþingin hafa gengið vel fyrir sig og hafa skilað góðum og gildum niðurstöðum.

Menntamál
Í aðalnámsskrám leik-, grunn-, og framhaldsskóla er gert ráð fyrir því að börn „læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði“. Í anda þessara viðmiða er það stefna Öldu að beint lýðræði sé stundað innan íslenskra skóla, sem virkt afl í skipulagi og framkvæmd skólastarfsins.

Lýðræðislegt skólastarf getur tekið á sig margar ólíkar myndir og því er mjög mikilvægt að skapað sé rými og frelsi til að þróa og rækta starfið. Innan þeirra fjölmörgu skóla sem starfa á Íslandi ætti að vera rými fyrir margar mismunandi stefnur, mismunandi lausnir á vandamálum, og mismunandi stjórnarform. Megin atriðið er að allir sem koma að skólastarfinu hafi greiðann aðgang að lýðræðislegum ákvörðunar- og þátttökuferlum þegar taka á ákvarðanir um mál sem varða þeirra hagsmuni. Dæmi um hagsmunaaðila eru nemendur, kennarar, annað starfsfólk, foreldrar og fulltrúar úr nærsamfélaginu. Lýðræðislegu skólastarfi er ætlað til valdeflingar hópa og einstaklinga til aukins sjálfræðis sem og aukinnar lýðræðislegar þátttöku. Menntakerfið á að vera frá öllum til allra, fyrir alla.

Útgefið efni um lýðræði og stjórnmál

Efni um menntamál

Hér má nálgast allar færslur um stjórnmál og allar færslur um menntamál.

One Thought to “Lýðræði”

  1. […] og aðferðum sem hafa reynst vel annars staðar. Nánari upplýsingar má finna undir liðnum Stefna sem hangir t.d. efst í vinsta horninu á heimasíðunni. Allar fundargerðir eru aðgengilegar […]

Comments are closed.