Alda telur mikilvægt að komið verði á fót samfélagsbönkum á Íslandi sem hafi það markmið að þjónusta notendur þeirra fyrir sem lægst þjónustugjöld og vaxtagjöld, en hafi einnig ábyrgð, skilvirkni og stöðugleika að leiðarljósi í sínum rekstri. Einsleitt bankakerfi, eins og íslenskt samfélag býr við, er hættulegt stöðugleika og er neytendum dýrt.

Hvað eru samfélagsbankar?

Samfélagsbankar eru bankar reknir í þágu notenda bankanna fremur en hluthafa – þeir greiða því ekki arð. Samfélagsbankar stilla hagnaði í hóf og nýta hagnað sinn til að bæta bankann og styrkja. Þeir leitast við að veita sem besta þjónustu fyrir sem lægst þjónustugjöld og fyrir sem lægstu vaxtaþóknun. Þeir stilla áhættu í hóf. Þetta er kjarninn í samfélagsbönkum.

Einkavæddir bankar og bankar sem bíða einkavæðingar, hins vegar, er ætlað að hámarka hagnað, greiða arð, greiða bónusa til stjórnenda og standa sig vel á hlutabréfamarkaði (séu þeir skráðir). Annað skiptir ekki máli, líkt og gæði þjónustunnar eða lágmörkun áhættu. Reynslan er sú að einkavæddir bankar skerða þjónustu sína.

Að öðru leyti eru samfélagsbankar eins og aðrir bankar: Þeir keppa á markaði og veita sams konar þjónustu og aðrir bankar og greiða samkeppnishæf laun.

Samfélagsbankar erlendis

Í fjármálakrísunni 2008–2010 voru samfélagsbankar erlendis ólíklegri en hagnaðardrifnir einkabankar til að lenda í vandræðum. Ástæðan er að samfélagsbankar taka síður áhættu í von um skjótfenginn hagnað, heldur einblína á þjónustuhlutverk sitt við notendur sína og að verja hag þeirra. Þeir hafa jafnframt sýnt sig til að vera ódýrari kostur fyrir notendurna.

Fjölmargir samfélagsbankar eru til í heiminum. Í Þýskalandi er rekið net banka sem eru nefndir Sparkasse og teljast vera um 40% af bankakerfi landsins. Í Bretlandi er rekinn öflugur samfélagsbanki, Nationwide að nafni. Þessir bankar veita öðrum bönkum samkeppni í verði og gæðum.

Hættur einkavæðingar og vegurinn áfram

Alda telur að stöðva eigi einkavæðingu þeirra banka sem íslenska ríkið á hlutdeild í. Reynslan af tveimur einkavæðingarskeiðum – eftir aldamótin 2000 og eftir 2020 – er slæm: Hærri þjónustugjöld og vaxtagjöld, ofsahagnaður banka og drjúgar arðgreiðslur til hluthafa þeirra á meðan þjónusta til notenda er skert. Í ljós hefur komið að einkavæðing á báðum skeiðum var á skjön við landslög. Fall bankanna 2008, eftir fyrra einkavæðingarskeiðið, reyndist samfélaginu dýrt og falli einkabanki mun ríkissjóður ávallt þurfa að bera kostnað af slíku falli. Einkavæðing banka felur í sér hvata til áhættusækni og áhætusams rekstrar – það leiddi til hruns bankakerfisins 2008. Einkavæðing banka hefur þannig, heilt yfir, reynst illa. 

Félagið telur að umbreyta eigi Landsbankanum í samfélagsbanka og hann verði þá mótvægi við hina tvo stóru viðskiptabankana – hann myndi veita þeim viðnám með samkeppni í verði og gæðum, sem myndi fá hina til að lækka verðið og gera betur. Áhætta samfélagsins af bönkunum í heild myndi minnka. Með þessari leið virkjum við markaðsöflin í þágu notenda bankanna og samfélagsins alls. 

Myndir í færslu eru af Sparkasse í Berlín (Wikipedia), útibúi NationWide í Southampton (Wikipedia) og svo af Landsbankanum (Wikimedia).

Efni um samfélagsbanka