Grein um styttingu vinnudagsinsi eftir Guðmund D. Haraldsson
******
Við viljum helst halda í þá trú að við höfum öll, hvert og eitt, dómgreind
sem sé í lagi. Jú, einhverstaðar höfum við hana, en til þess að brúka hana
þarf góðan tíma í samfélagi sem slítur fólki út og gerir örþreytt þrátt fyrir
áratuga langa velmegun. – Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir.ii
Undir lok árs 2008 áttu sér stað atburðir sem voru upphaf mikilla breytinga fyrir Íslenskt samfélag. Þessum breytingum er ekki enn lokið. Jafnframt breyttust gildin, gildi eins og „græðum á daginn og grillum á kvöldin“ féllu í ónáð. Hámarki efnishyggjunnar var náð – í bili að minnsta kosti. Ýmis vandamál tóku við, sem öllum er kunnugt um.
Eitt breyttist ekki. Þeir sem höfðu atvinnu, héldu áfram að vinna mikið.iii Krafan um styttri vinnudag heyrist varla hérlendis og lítið sem ekkert hefur heyrst af henni undanfarin ár.iv Það er eins og Íslendingar líti á það sem kost, fremur en löst, að vinna mikið. Það er kominn tími á að þetta breytist.
Á næstu síðum verður gerð grein fyrir því hvers vegna það ætti að stytta vinnudaginn á Íslandi, hversu mikið er unnið hér miðað við nágrannalöndin, og í stuttu máli gerð grein fyrir reynslu í öðrum löndum af styttingu vinnudagsins.
En hversu mikið er unnið hérlendis? Skynsamlegast er að bera okkur saman við lönd sem eru álíka þróuð og á svipuðum slóðum í heiminum. Ef fjöldi árlegra vinnustunda á hvern vinnandi mann á Íslandi og í Evrópu er skoðaður, kemur í ljós að íbúar annarra Norðurlanda og íbúar ýmissa þróuðustu landa Evrópuv – t.d.. Belgíu og Frakkland – vinna að meðaltali minna en íbúar Íslands gera, en einna helst er það fólk í umskiptalöndum – þ.e. Póllandi, Slóveníu, Eistlandi o.s.frv. – sem vinnur meira.vi Svo dæmi séu tekin voru vinnustundir vinnandi fólks hérlendis (að meðaltali) árið 2010 um sex stundum fleiri á viku en vinnandi fólks í Þýskalandi – næstum heill vinnudagur! –, og þremur stundum fleiri en í Frakklandi.vii Í töflu 1 má sjá Ísland borið saman við önnur Norðurlönd með sama hætti.
Tafla 1: Meðalfjöldi vinnustunda á viku og vinnudaga á ári sem vinnandi fólk á Íslandi vann umfram það sem vinnandi fólk á öðrum Norðurlöndum gerði, árin 2008 og 2010.viii
Land |
Vinnustundir / viku |
Vinnudagar / ári (8 klst) |
||
---|---|---|---|---|
2008 |
2010 |
2008 |
2010 |
|
Noregur |
8 |
6 |
48,3 |
38,3 |
Svíþjóð |
4 |
2 |
23,9 |
14,1 |
Danmörk |
5,5 |
3 |
33,0 |
22,8 |
Finnland |
2,2 |
0 |
13,0 |
1,3 |
Þessi munur sést einnig á mynd 1 en hún sýnir meðalfjölda unninna árlegra vinnustunda í löndunum.ix Á myndinni sést greinilega að hérlendis vinnur fólk (að meðaltali) meira en íbúar nágrannalandanna sem og íbúar nefndra Evrópuríkja. Til samanburðar eru tölur fyrir umskiptalöndin líka birtar.
Einnig má sjá að langur vinnutími á Íslandi, miðað við sömu lönd, er engin nýlunda. Vinnutíminn hefur vissulega styst, en hérlendis hefur fólk unnið meira en íbúar annarra Norðurlanda að minnsta kosti frá 1958. Sama gildir um hin þróuðu Evrópulöndin. Svo má líka sjá að vinnutími hérlendis hefur styst undanfarin tvö ár, en ekki mikið. Þessi stytting er líklega tímabundin – hún er líkleg til að hverfa í næstu uppsveiflu, því að hér er trúlega aðeins um að ræða takmörkun á yfirvinnu (og öðrum ámóta aðgerðum) til að stemma stigu við kostnaði vegna efnahagsþrenginganna sem nú ganga yfir.
Þetta þarf að breytast. Vinnutími á Íslandi ætti vel að geta verið svipaður og í Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi eða Frakklandi. Stytta ætti vinnudaginn á Íslandi. Margir hugsa eflaust með sér að hugmyndin sé galin – og einhverjir kunna að halda, að höfundur hafi hreinlega misst vitið. „Stytta vinnudaginn í miðri kreppu?“, hugsa þeir. En þvert á móti, þá má færa góð rök fyrir styttingu vinnudagsins hérlendis. Þau verða sett fram á næstu síðum.
Skoðum samt fyrst söguna, örstutt. Bæði hérlendis og annars staðar í Evrópu.
Mynd 1: Myndin sýnir meðalvinnustundir vinnandi manna á íslandi, og meðaltal fyrir það sama fyrir hin Norðurlöndin og tvo hópa Evrópulanda. Eins og sjá má eru vinnustundir fleiri hér en á öðrum Norðurlöndum og víða í Evrópu. „Önnur Norðurlönd“ eru Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk. „Ýmis þróuð evrópulönd“ eru hér Austurríki, Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía og Þýskaland. „Umskiptalönd“ eru hér Pólland, Slóvenía, Eistland, Lettland og Litháen.
Fordæmin og vinnutími
Vinnudagurinn hefur styst mikið í hinum iðnvædda heimi frá því í iðnbyltingunni.x Á Englandi um 1840, sem dæmi, vann meðalmaðurinn um 3.000 klukkustundir á ári og margir eflaust meira. Undir lok tuttugustu aldar var talan um 1.800 klukkutímar.xi Stytting vinnudagsins varð að veruleika með lagasetningu, samningum og átökum. Svipaða sögu má segja um önnur lönd. Gegnumgangandi, má segja, hefur vinnudagurinn styst í kjölfar átaka eða beinna aðgerða.
Í Evrópulöndum eins og Þýskalandi og Frakklandi hefur vinnudagurinn verið styttur með beinum aðgerðum á síðastliðnum áratugum. Í Þýskalandi á þremur síðustu áratugum tuttugustu aldar var vinnudagurinn styttur í áföngum. Almennt gekk styttingin vel fyrir sig og engin neikvæð áhrif urðu á hagkerfið – t.d. atvinnuleysi eða landsframleiðslu. Í Frakklandi var ráðist í aðgerðir til að stytta vinnudaginn og var árangurinn ágætur þar sömuleiðis. Styttingin hefur líka náð til landa eins og Bretlands, Belgíu og Hollands.xii Vinnudagurinn hefur líka verið styttur í öllu fjarlægari löndum, Chile og S-Kóreu.xiii
Markmiðið með styttingu vinnudagsins hefur verið misjafnt. Stundum hefur það verið að minnka atvinnuleysi, stundum að gera samfélagið fjölskylduvænna, stundum annað. Stytting vinnudagsins í S-Kóreu er dæmið um hið fyrra og hið seinna. Styttingin í Þýskalandi og Frakklandi eru dæmi um hið fyrra.xiv
Í gegnum söguna hefur stytting vinnudagsins almennt gengið vel fyrir sig. Áhrif á atvinnuleysi og framleiðslu hafa verið jákvæð og í flestum tilfellum hefur framleiðni tekið kippxv – þvert á það sem margir kunna að halda.
Undanfarna áratugi – á meðan ýmis Evrópulönd styttu vinnudaginn – hefur vinnudagurinn á Íslandi ekki styst að neinu ráði. Þetta má sjá á mynd 1. Árið 2008 vann meðalmaðurinn um 56 stundum minna árlega, en árið 1980. (Hins vegar, á árunum 1950 til 1980, fækkaði árlegum vinnustundum á mann um 620).xvi Vélvæðingin hérlendis hefur aukist frá 1980, á því leikur ekki vafi, en vinnustundum ekki fækkað að sama skapi.
Hér á landi hafa menn ekki farið út í að stytta vinnudaginn undanfarna áratugi. Miðað við reynsluna annars staðar í Evrópu, er full ástæða til að ætla að styttingin myndi ganga vel fyrir sigxvii.
Ástæður og afleiðingar
Af hverju að stytta vinnudaginn hérlendis? Ýmiss konar rök má færa fyrir því, sum hagræn en önnur samfélagslegs eðlis. Skoðum rökin, hver fyrir sig.
(a) Landsframleiðsla (verg)xviii á hvern einstakling er meiri á Íslandi en í flestum öðrum Evrópulöndum, t.d. Þýskalandi, Frakklandi og Danmörku. Á sama tíma er (verg) landsframleiðsla á hvern unninn klukkutíma lítil í samanburði við sömu lönd. Raunar er það svo, að þróuðustu lönd Evrópu ásamt öðrum Norðurlöndum standa sig betur í þessum samanburði (þ.e. framleiðslu á klst). Lönd sem fylgja fast á hæla Íslands í þessum efnum eru Spánn, Grikkland, og Ungverjaland.xix Hafa ber í huga, að þetta er ekkert nýtt.xx
Samhliða þessu vinnum við langan vinnudag, miðað við ýmis Evrópulönd, líkt og sést á mynd 1. Sem sagt: Við framleiðum nokkuð mikið í samanburði við önnur Evrópulönd, en eyðum miklum tíma til þess.
Hvað veldur? Ástæðurnar geta verið margar. Það er til dæmis vel þekkt að langir vinnudagar yfir langt tímabil draga úr afköstum – þreyta byggist upp. Einnig má hugsa sér að skipulag vinnunnar komi niður á afköstum, t.d. ef vinnufyrirkomulag er óhentugt. Hugsanlega er lélegt skipulag framleiðslu og vinnu útbreitt hérlendis, en víða í Evrópu sé það betra. Samspil þessara tveggja þátta, þreytu og skipulags, er möguleg ástæða lengri vinnudags og lélegrar framleiðni á hverja vinnustund.xxi
Verði vinnudagurinn styttur, er líklegt að þetta breytist. Ef langverandi þreytu er um að kenna, er líklegt að fólk nái að hvílast betur samhliða styttri vinnudegi og að framleiðslan aukist (á hverja vinnustund og kannski á mann). Ef skipulag er óhagkvæmt, er líklegt að atvinnurekendur sjái sér hag í að bæta það, en með því myndu afköst aukast.xxii
(b) Áður var nefnd tilgátan um þreytu. Hún er ekki úr lausu lofti gripin, því til er rannsókn sem sýnir að hérlendis hefur atvinna margra slæm áhrif á heimilislíf.xxiii Rannsóknin náði til allnokkurra landa, þar á meðal voru Ísland og önnur Norðurlönd, Sviss, Ástralía, Bandaríkin, Austurríki, Þýskaland, Frakkland og Pólland.
Rannsóknin, sem var gerð 2005, leiddi í ljós að einn af hverjum fjórum hérlendis kemur of þreyttur heim úr vinnu, nokkrum sinnum í viku, til að geta sinnt heimilisstörfum, og einn af hverjum þremur nokkrum sinnum í mánuði. Samanburður var gerður milli þátttökulanda. Ísland kom illa út úr þeim samanburði: Af öllum þátttökulöndunum var mest kvartað undan þreytu hérlendis! Í engu öðru þátttökulandi mældist hærra hlutfall þeirra, sem sagðist koma of þreyttur heim til að sinna heimilisstörfum, nokkrum sinnum í mánuði eða oftar.xxiv
Svipaða sögu var að segja þegar fólk var spurt um hvort það næði að klára öll verkefni í vinnunni. Í aðeins tveimur þátttökulöndum voru fleiri (hlutfallslega) sem tóku undir það, að þeim gengi illa að ljúka öllum verkefnum vegna anna, en á Íslandi.
Niðurstaðan gæti vart verið skýrari. En hvað þýðir hún? Sé hún sett í samhengi við það sem hefur komið fram áður – langir vinnudagar, lág framleiðni á hvern unninn klukkutíma – bendir hún sterklega til þess að á Íslandi vinni fólk of mikið og að sennilega sé skipulagi vinnunnar ábótavant miðað við hin Norðurlöndin og ýmis Evrópuríki. Skipulagið kalli á lengri vinnudag – því illa gengur að klára verkefnin eins og rannsóknin sýndi – og langur vinnudagur kalli fram þá þreytu, sem svo berlega kom fram í rannsókninni. Eitthvað frekara samspil er líklegt hér á milli, og er það trúlegast flókið. Niðurstaðan styður sem sagt þá hugmynd að hér sé margt fólk þreytt vegna vinnu, en líka að skipulagi sé trúlega áfátt.xxv
Stytting vinnudagsins gæti orðið til þess að bæta úr þessu, eins og áður sagði. Stytting vinnudagsins gæti orðið til að skipulagi vinnunnar hérlendis yrði breytt, og líka til að fólk hvílist betur.
Einhverjir kunna að hafa tekið eftir því að rannsóknin er frá árinu 2005 – nokkrum árum fyrir hrun. Á niðurstaðan enn við í dag? Ef ástæðan fyrir svöruninni 2005 var of mikil vinna – þá, já. Þeir sem hafa vinnu á Íslandi, vinna enn mikið, líkt og kom fram áður. Sama gildir líklegast um skipulag vinnunnar – skipulagið almennt hefur trúlega ekki breyst mikið.
Ef vinnudagurinn verður styttur, þarf sérstaklega að gæta að þreytu fólks. Styttingin þarf að hvetja til að skipulagi vinnunnar verði breytt þannig að fólki líði betur – ekki verr. Ekki má hrófla þannig við skipulagi að fólki líði verr. Stéttarfélög þyrftu að hafa eftirlit með því – og gera ráð fyrir að geta hlutast til um vinnufyrirkomulag (í samráði við atvinnurekendur) í samningum.
(c) Eins og vel er þekkt hefur atvinnuleysi á Íslandi aukist frá árinu 2008. Atvinnuleysi fór úr um 3% 2008 í 10% árið 2010.xxvi Hugsum okkur að vinnudagurinn yrði styttur um eina stund, þannig að í staðinn fyrir að hver sá sem er í fullu starfi, myndi vinna um 35 stundir á viku í stað 40 stunda.xxvii Aðrir sem vinna meira eða minna, myndu minnka sína vinnu í réttu hlutfalli við styttinguna (t.d. myndi sá sem ynni 60 stundir á viku fyrir styttingu vinna 53 stundir eftir hana).
Það er vel mögulegt að slík stytting vinnudagsins geti dregið úr atvinnuleysi, til dæmis með þessum hætti: Þegar styttingin á sér stað í hagkerfinu, er líklegt að starfsfólk og atvinnurekendur finni nýjar leiðir til að afkasta jafn miklu á styttri vinnudegi og var fyrir styttinguna – en styttingin myndi gera það að verkum að ekki væri hægt að afkasta jafn miklu og áður með sama vinnuskipulagi, því tíminn til þess væri skemmri. Nýjar leiðir væru því nauðsynlegar. Þetta er næstum öruggt, m.a. vegna þess að fyrirtækjaeigendur myndu vilja halda veltu og mögulegum hagnaði óbreyttu – þeir myndu ekki sætta sig við minni framleiðni, veltu og hagnað að gefinni óbreyttri eftirspurn. Með þessu móti – með því að breyta skipulagi vinnunnar – gætu mörg fyrirtæki afkastað álíka miklu eftir styttingu og þau gerðu fyrir styttingu (sumum jafnvel mun meiru) og það án þess að fjölga starfsmönnum.xxviii Einhverjum fyrirtækjum myndi hins vegar ekki takast þetta – en þyrftu samt að hafa undan eftirspurn. Þau myndu þurfa að fjölga starfsfólki – atvinnulaust fólk væri líklegast til að verða ráðið og atvinnulausum myndi þannig fækka. Þessi fyrirtæki væru með þessu vitanlega að taka á sig aukinn kostnað, en flest fyrirtæki ættu að ráða við það í einhverjum mæli.
Þetta er auðvitað ekki tryggt. Ýmislegt gæti farið á annan veg en hér var lýst, með þeim afleiðingum að atvinnuleysi myndi ekki minnka. Og ef hlutirnir fara á annan veg? Þá, í það minnsta, hefur vinnudagurinn verið styttur, og framleiðsluferli endurbætt. Í öllu falli er ósennilegt með meiru að atvinnuleysi aukist.
Einhverjum lesendum (einkum hagfræðingum) gæti þótt að hér hafi verið fallið í gryfju ákveðinnar rökvillu sem á ensku er nefnd lump-of-labor fallacy. Þeir hinir sömu eru eindregið hvattir til að lesa neðanmálsgrein þar sem þetta er rætt nánar.xxix
Enn aðrir kunna að spyrja sig hvort atvinnuleysi hafi nokkurn tímann minnkað í kjölfar styttingar vinnudagsins. Svarið er já, en til að það gerist þarf að vanda til verka við framkvæmdina.xxx
Einhverjum gæti dottið í hug, að framleiðendur muni setja meiri þrýsting á starfsfólk til að afkasta meiru, og þannig slíta fólki frekar út. Aukin framleiðni yrði þannig raunin, en á kostnað starfsfólksins. Þetta er möguleiki. Verkfæri starfsfólksins til að hamla gegn því eru auðvitað stéttarfélög og verkföll. Og þau þarf fólk að virkja, ef álagið verður, almennt, óásættanlegt.
(d) Í sömu könnun og spurt var um þreytu, var líka spurt um hvort fólki vildi auka við sig vinnu, minnka eða engu breyta. Í ljós kom að um 71% vildi vinna sömu vinnu fyrir sömu tekjur, 10% vildu vinna meira fyrir meiri tekjur og 19% vildu vinna minna fyrir lægri tekjur. Samkvæmt þessu mætti ætla að um 70% fólks sé sátt við sitt og um 30% vilji minni eða meiri vinnu. En önnur mynd kom í ljós þegar spurt var um vinnuna, óháð tekjum. Kom þá í ljós að 42% vildu vinna minna, um 18% meira, en 47% vildu óbreyttan vinnutíma (ætla má að hlutföllin hafi breyst, en ekki endilega svo mikið, sbr. það sem kemur fram síðar).xxxiHér er mikið misræmi. Þetta bendir til þess að mjög margir geti ekki unnið minna, þótt þeir vilji það. Ástæðurnar geta verið margar; fjárhagsleg skuldbinding, ósveigjanlegur vinnustaður eða annað.
Og hvað um þá fjölmörgu (19%) sem vildu vinna minna, þótt þeir fengju minni tekjur fyrir. Af hverju unnu þeir þá ekki minna? Vegna þess að vinnustaðurinn leyfði það ekki, væntanlega.
Í sömu könnun kom líka í ljós að margir vildu verja meiri tíma með vinum (65%) og fjölskyldu (66%), en þeir gerðu.xxxii
Hér myndi stytting vinnudagsins hafa jákvæð áhrif. Óskir margra, sem vilja vinna minna, en geta það ekki, yrðu uppfylltar, að hluta til í það minnsta. Og líka óskir þeirra sem vilja eyða meiri tíma með vinum og fjölskyldu.
Aftur kann fólk að spyrja sig hvort þetta hafi ekki breyst eftir hrun. Eðlilega. En trúlega á það sama við og kom fram áður; þeir sem hafa vinnu, vinna enn mikið.
(e) Og loks mjög mikilvægt atriði. Atriði sem svo margir – t.d. hagfræðingar og stjórnmálamenn – gleyma í allri talna- og slagorðaflórunni sem umvefur okkur alla daga: Lífið er ekki eltingaleikur við launaseðla, vísitölur og hagkvæmni. Lífið snýst fyrst og síðast um að njóta frístunda, áhugamála og fjölskyldulífs.
Þeir sem á annað borð geta lesið þessa ritgerð á frummálinu hafa náð mjög langt í lífinu, miðað við annað fólk á jörðinni, svo ekki sé minnst á aðrar tegundir lífvera – bæði fyrr og nú. Sama hvað líður hruni og samdrætti. Staðreyndin er sú að langsamlega flestir sem búa á Íslandi hafa það frábært miðað við flesta aðra íbúa jarðar.xxxiii Öruggt húsaskjól, næg fæða – of mikil meira að segja fyrir marga – og trygg heilbrigðisþjónusta fyrir öll helstu vandamál sem að tegundinni homo sapiens steðja. Næstum öll njótum við þessa.xxxiv
Við sem búum á Íslandi höfum það flestöll stórfínt – og nú er kominn tími til að vinna minna en við gerum. Í öllu falli ættum við, sem höfum vélvæðst jafn mikið og raun ber vitni, ekki að þurfa að vinna vinnudag sem var mótaður á nítjándu öldxxxv. Átta tíma vinnudagur eða meira í samfélagi, sem er jafn iðnvætt og okkar, ætti að vera löngu liðin tíð hjá hinum almenna borgara.xxxvi
Vinnan er vissulega forsenda tilveru okkar – án hennar fengjum við ekki að éta, né hefðum við húsnæði. En meginhluti vinnandi fólks á Íslandi (70%) vinnur ekki við framleiðslu á mat eða nauðsynjum – heldur þjónustu;xxxvii t.d. selja öðrum dekk á dekkjaverkstæðum eða varaliti í verslunum. Það er ekki síst í ljósi þess, sem við ættum að stytta vinnudaginn og njóta lífsins dásemda – frítímans, enn frekar.
Hér að framan hafa ýmis rök verið sett fram til að rökstyðja styttri vinnudag. Ekkert eitt af þessu eru meginrösksemdir. Öll rökin vega álíka þungt.
Það verður að undirstrika það að stytting vinnudagsins þarf ekki að hafa þær afleiðingar sem taldar voru upp að framan. Heimurinn er flókinn og ýmislegt gæti farið á annan veg (þó hæpið sé að afleiðingarnar verði slæmar). Hins vegar er áhættan lítil og það er til mikils að vinna. Það yrði vitanlega á ábyrgð atvinnurekenda og stéttarfélaga að sjá til þess að stytting vinnudagsins heppnist vel. Til að svo gerist þyrftu þessir aðilar að vinna saman og nýta sér reynslu Evrópulanda sem hafa reynt þetta. Í heimildaskrá má finna lesefni, sem nota má sem upphafsreit til að finna fleiri heimildir um það.
Varnaglar, efasemdir og framtíðin
Margir spyrja sig vafalaust eftir lesninguna: „Á fólk að halda sömu launum, þrátt fyrir minni vinnu? Fyrirtækin hafa ekki efni á því.“ Laun hafa einmitt verið helsta bitbein manna í gegnum tíðina þegar hefur átt að stytta vinnudaginn. Atvinnurekendur hafa viljað að launin standi í stað í „skiptum“ fyrir styttri vinnudag, en launafólk hefur auðvitað viljað fá sína vanalegu launahækkun að auki við skemmri vinnudag. Þetta mál hefur verið leyst á ýmsa vegu í samningum. Þegar menn hafa hins vegar litið til baka, eftir að styttingunni er lokið, kemur í ljós að engin ástæða var til að deila, vegna þess að aukning á framleiðni var það mikil – vegna styttingarinnar og endurskipulagningar framleiðslu í kjölfarið – að hún dugði til að vega á móti auknum launakostnaði. Þetta er endurtekið mynstur.xxxviii Í ljósi þessa er eðlilegast að laun standi í það minnsta í stað, en helst að launahækkun verði veitt þó svo að vinnudagurinn sé styttur.
Annars konar mótmæli yrðu kannski á þessa leið: „Hagkerfið er of viðkvæmt til að þola breytingar sem þessar, nú nýlega fóru ekki bara nokkrir bankar á hausinn, heldur næstum því líka Seðlabankinn og sjálfur ríkissjóður. Hugmyndir um að vinna minna eru galnar, það er allra síst það, sem þarf nú að gerast“. Forsendurnar eru réttar, en ekki niðurstaðan. Vinnudagurinn hefur margoft verið styttur og það við ýmsar efnahagslegar aðstæður. Engin ástæða er til að halda að stytting myndi setja hagkerfið á hliðina, því ekki yrði hróflað við neinum grundvallarþáttum hagkerfisins. Aðeins yrði hróflað við lengd vinnudagsins og sennilega skipulagi vinnunnar – en hagkerfið yrði í grundvallaratriðum óbreytt. Ef stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja, ásamt verkalýðsfélögum, vanda sig, verður allt í lagi.
Aðrir kunna að segja: „Já, en bíðum með þetta þar til uppsveiflan er komin í fullan gang.“xxxix Það væru mistök – nema ef styttingin ætti sér stað í blábyrjun uppsveiflunnar. Ástæðan er sú að í uppsveiflu er mikil eftirspurn eftir vinnuafli og þá er tilhneiging til að auka við vinnuna. Það væri því erfitt að stytta vinnudaginn þá. Heppilegast er sennilega að stytta vinnudaginn sem fyrst. Helst innan tveggja eða þriggja ára, og svo sannarlega áður en næsta þensluskeið hefst.
Svo er líklegt að eigendur fyrirtækja og forsvarsmenn hagsmunasamtaka muni segja eitthvað á þessa leið: „Styttingin gæti kallað á fjölgun starfsfólks í hlutastörfum, en fyrirtækin hafa ekki efni á því vegna þess að með hverjum starfsmanni fylgja (föst) opinber gjöld sem fyrirtækin hafa ekki á að greiða, eins og til dæmis tryggingagjald og lífeyrissjóðsgjöld. Fyrirtækin eru of aðþrengd fyrir.“ Það er rétt að ýmiss kostnaður fylgir því að bæta við starfsfólki. En helsta vandamálið yrði ekki opinber gjöld. Ástæðan fyrir því er sú að opinber gjöld eru nær öll hlutfall af launum, en ekki föst upphæð. Þar af leiðir að ef starfsmaður er ráðinn í fyrirtæki, kostar það fyrirtækið launin hans auk ákveðinnar prósentu ofan á þau. Kostnaðurinn er ekki fastur, heldur fylgir hann launum viðkomandi.
Einhverjir kunna að hafa áhyggjur af því að í kjölfar styttingar vinnudagsins myndi yfirvinna aukast og stytting yrði lítil í reynd. Við þessu er ekkert einhlítt svar – en ýmislegt er mögulegt til að koma í veg fyrir slíkt, t.d. að atvinnurekendur og verkalýðsfélög hreinlega semji um hömlur á yfirvinnu.xl Bent skal á að menn hafa rekið sig á þetta vandamál og til eru lausnir.xli
Þá eru það stóru spurningarnar: Hve mikið skal stytta vinnudaginn? Og hver skal koma því í framkvæmd? Við fyrri spurningunni verður ekki gefið neitt ákveðið svar, en ein uppástunga þó: ein og hálf stund, um sjö til átta stundir á viku – í þrepum (yfir kannski tveggja ára tímabil). Venjuleg vinnuvika yrði þannig stytt úr 40 stundum í 32-33 stundir. Seinni spurningunni er auðsvarað: Verkalýðsfélögin, í næstu kjarasamningum eða með sérstökum samningumxlii. Þau ein geta komið þessu til leiðar. Atvinnurekendur munu að öllum líkindum sjá sér lítinn hag í þessu – enda illa við breytingar. Stytting vinnudagsins hefur í gegnum söguna, frá því verkalýðsfélög urðu til, verið eitt helsta baráttumál verkalýðsfélaga og launafólks. Það er kominn tími til að koma því máli á dagskrána hérlendis.
Hér að framan var bent á að þrátt fyrir aukna vélvæðingu og sjálfvirkni frá því um 1980, hefur vinnutími lítið styst hérlendis. Vinnumarkaðssaga kennir okkur að í hvert sinn sem framleiðni eykst (t.d. með nýrri vél), á fólk á hættu að missa vinnuna, því fyrirtæki leitast eilíft við að spara í starfsmannahaldi. Vélar eða aðferðir koma þannig í stað starfsfólks, vélar sem spara fyrirtækjunum peninga. Hefur þetta verið svo allt frá því í iðnbyltingunni. Til að sporna við því þarf að sífellt að auka neyslu, m.a. svo þeir sem missa vinnuna geti fengið aðra. En þetta þarf ekki að vera svona. Í reynd ætti það að vera svo – ef hagkerfi heimsins væri skynsamlega uppbyggt – að í hvert sinn sem framleiðni ykist, myndi vinnudagurinn styttast. Fyrirtæki sem myndi finna leið til að auka framleiðini – kannski með nýrri vél – ætti í raun að stytta vinnudag sinna starfsmanna og endurútdeila þannig vinnunni til þeirra sem myndu annars missa vinnuna. Þetta myndi stuðla að auknum stöðugleika hagkerfisins – því þessi ráðstöfun myndi hjálpa til við að halda atvinnuleysi í lágmarki. Þetta er eitthvað sem hagkerfi framtíðarinnar þyrfti að fela í sér.
Að lokum: Atvinnurekendur munu taka illa í þessa hugmynd, komist hún til umræðu. Það hafa þeir alltaf gert þegar styttingu vinnudagsins ber á góma. Ekki láta það koma á óvart.xliii
En nú er mál að linni. Styttum vinnudaginn og njótum ávaxtanna – frítímans, áhugamála, og samvista með vinum og fjölskyldu – í meiri mæli en við gerum. Og hugsanlega minnkum við í leiðinni atvinnuleysi.
Heimildir
Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (2011, 13. janúar). BSRB vill fjöskylduvænna samfélag. Sótt 16. júní 2011 af slóðinni http://www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/1853/
Bosch, G. og Lehndorff, S. (2001). Working-time reduction and employment: Experiences in Europe and economic policy recommendations. Cambridge Journal of Economics, 25, 209-243.
Eyþór Ívar Jónsson (2002). Ríkidæmi Íslands. Vísbending, 20 (41), bls. 2, 4.
Gorz, A. (1978/1980). Gullöld atvinnuleysisins. Svart á hvítu 4 (1), 2–7. [Ívar Jónsson og Sonja Jónsdóttir þýddu úr Tímaritinu Le Nouvel Observateur.]
Guðmundur D. Haraldsson og Smári McCarthy (2010, 16. desember). Sköpum atvinnu – eða hvað? Morgunblaðið.
Gylfi Arnbjörnsson (2010). Við viljum vinna. Vinnan. Tímarit Alþýðusambands Íslands, 59 (1), 3.
Hagstofa Íslands (2010). Laun, tekjur og vinnumarkaður: Vinnumarkaður 1991–2009. Hagtíðindi, 95 (8).
Kalecki, M. (1943). Political aspects of full employment. The Political Quarterly, 14, 322-330.
Kolbeinn H. Stefánsson (2008). Samspil vinnu og heimilis: Álag og árekstrar. Rannsóknarstöð þjóðmála: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Óútgefið handrit.
Lee, S, McCann D. og Messenger, J. C. (2007). Working time around the world. New York: Routledge.
Schor, J. (1991). The overworked American. New York: Basic Books.
Smári McCarthy og Guðmundur D. Haraldsson (2010, 4. desember). Vinna Íslendingar of mikið? Fréttablaðið, bls. 18.
Stefán Ólafsson og Kolbeinn Stefánsson (2005). Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
The Conference Board (2011). Total Economy Database. Sótt af http://www.conference-board.org/data/economydatabase/ þann 8. júní 2011.
Þorvaldur Gylfason (2007, vor). Evrópa: Minni vinna, meiri vöxtur. Skírnir, 181, 61-81.
Walker, T. (2000). The “Lump-of-Labor” Case Against Work-Sharing: Populist Fallacy or Marginalist Throwback? Í L. Golden og D. Figart (ritstj.), Working Time: International trends, theory and policy perspectives (bls. 196–211). New York og London: Routledge.
Walker, T. (2007). Why Economists Dislike a Lump of Labor. Review of Social Economy, LXV (3), 279–291.