Alda auglýsir og heldur marga fundi, oft marga fundi í viku. Í flestum félögum eru aðeins haldnir nokkrir fundir á ári sem eru auglýstir opinberlega og öllum opnir en margir sem eru lokaðir eða þátttaka takmörkuð að einhverju leyti. Hjá Öldu eru hins vegar allir fundir opnir.

Að jafnaði er um þrjár tegundir funda að ræða hjá Öldu.

1.  Fundi í málefnahópum sem eru vinnufundir þar sem félagsmenn koma saman og ræða þau verkefni sem eru í vinnslu hjá félaginu. Á fundunum er verkefnum forgangsraðað, hugmyndir ræddar og farið yfir stöðuna á þeim verkefnum sem eru í vinnslu. Hópstjórar hafa umsjón með hópnum og yfirleitt þeim verkefnum sem eru í vinnslu. Öllum er hins vegar frjálst að taka þátt, jafnvel þeim sem ekki eru félagar í Öldu og hafa allir sama rétt á fundunum. Notast er við samhljóða ákvarðanatöku (e. consensus) en ef sú leið þrýtur er eitt atkvæði á mann. Hver sem er getur átt frumkvæði að málum og jafnvel tekið að sér að vinna að þeim, t.d. með því að safna gögnum, skrifa texta eða undirbúa viðburð.

2. Stjórnarfundir eru ákvarðanatökufundir þar sem tillögur og verkefni frá málefnahópum eru rædd til samþykktar eða synjunar. Þar eru öll mál sem varða skipulag og starfsemi félagsins rædd og leidd til lykta. Notast er við samhljóða ákvarðanatöku (e. consensus) en ef sú leið þrýtur er eitt atkvæði á mann. Fundirnir eru öllum opnir og eru alltaf haldnir fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði.

3. Kynningarfundir eru haldnir um þau verkefni sem félagið hefur lokið við og samþykkt á stjórnarfundi. Á þeim er haldin framsaga til kynningar og svo eru umræður og spurningar í kjölfarið. Engar ákvarðanir eru teknar á þessum fundum. Allir eru velkomnir.

Yfirleitt er gaman á fundum hjá Öldu, enda fólk að vinna saman að því að auka lífsgæði og bæta samfélagið sitt. Stundum eru teknar alvarlegar umræður um álitaefni, stundum mikið hlegið. Aðalatriðið er þó að allir mega og geta verið með, lagt sitt af mörkum, hversu mikið eða lítið sem það kann að vera.