Alda telur jöfnuð mikilvægan til að samfélagið dafni sem best, að fólk lifi góðu, innihaldsríku lífi og til að hagkerfið skili af sér gæðum sem allir geti notið góðs af. Jöfnuður er mikilvægur til að fólk geti lifað og starfað saman í sama samfélaginu, án mikilla árekstra. Félagið telur ljóst að mikill misbrestur sé á að þetta sé raunin á Íslandi, að samfélagið hafi vikið af braut jöfnuðar, líkt og á við um mörg önnur vestræn ríki undanfarna áratugi. Samfélagið þarf að móta í aðra átt en verið hefur — í átt að meiri jöfnuði.

Einkenni jöfnuðar og mikilvægi

Samfélag jöfnuðar einkennist af því að allir hafi aðgang að nauðsynjum til daglegs lífs og búi við mannsæmandi húsakost. En jöfnuður felur líka í sér jafnræði í aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu og lífeyri. Þetta þýðir, í reynd, að jöfnuður nær til eigna fólks og tekna, að bilið á milli þeirra sem hafa mest og minnst sé ekki of mikið — það er nauðsynlegt til að allir geti í reynd búið við heilbrigðisþjónustu og notið góðrar menntunar, að mati félagsins.

Jafnari samfélög ýta undir og auðvelda fólki að taka þátt í félagslegri starfsemi af öllu tagi sem og stjórnmálum. Þannig getur almenningur haft áhrif, látið gott af sér leiða og í leiðinni eykst samheldni samfélagsins. Starfsemi af þessu tagi er mikilvæg fyrir lýðræðið, framgang þess og tilvist.

Allt ofangreint — efnahagslegur jöfnuður, félagslegur jöfnuður, þátttaka í félagslegu starfi — eykur traust á meðal fólks, stuðlar að góðri líðan og betra lífi heilt yfir. Jöfnuður tryggir ekkert af þessu en stuðlar að því eftir ýmsum leiðum.

Ójöfnuður, á hinn bóginn, stuðlar að skorti hjá sumum samfélagshópum meðan aðrir hafa nóg — getur það átt við um daglegar nauðsynjar, húsnæði, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun. Fátækt, einmanleiki, félagsleg og stjórnmálaleg þátttaka og traust eru lakari í ójöfnum samfélögum. Samheldni er minni, samtakamáttur minnkar og lýðræðið verður kraftminna og grynnra eftir því sem ójöfnuður eykst. Fólk sem verður undir fer að upplifa sem það sé ekki þátttakendur í sama pólítíska verkefninu og aðrir. Gjá myndast á milli fólks í samfélaginu.

Alda telur mikilvægt að undið sé ofan af ójöfnuði á Íslandi til að styrkja lýðræðið, dýpka það sem og draga úr mismun lífsgæða á milli samfélagshópa, auka traust og samheldni. Þannig sé samfélaginu best borgið og það hafi getu til að takast á við framtíðina. Norræn ríki, þar á meðal Ísland, voru eitt sinn í fararbroddi hvað jöfnuð varðar og að auka jöfnuð — það er tími til kominn að auka jöfnuð á ný til að samfélagið sjálft dafni betur og lýðræðið líka.

Tillögur Öldu

Alda leggur til eftirfarandi aðgerðir til að auka jöfnuð á Íslandi:

  1. Fjármagnstekjur verði skattlagðar eins og launatekjur.
  2. Erfðafé verði skattlagt í þrepum. Upphæðir undir þrjátíu milljónum beri enga skatta, á meðan hærri upphæðir beri stigvaxandi skatt. Fyrirframgreiddur arfur geti að hámarki numið vissri upphæð yfir lífstíð, allt umfram það teljist launatekjur.
  3. Fyrirtæki greiði 25% skatt af hagnaði. Frádráttarreglur verði þrengdar.
  4. Opinberir aðilar betur styðji við frjáls félagasamtök — utan íþrótta –, svo sem með aðgengilegu húsnæði.
  5. Stjórnmálaflokkar fái fasta árlega styrki frá opinberum aðilum til að reka skrifstofu, óháð atkvæðamagni. Einstaklingar geti stutt þá um lágar uphæðir og fyrirtækjum og lögaðilum verði óheimilt að styrkja þá.

Efni frá Öldu um jöfnuð

Alda hefur í gegnum árin sent frá sér ýmislegt efni um jöfnuð.

Mynd: Pexels / Karolina