Hætt skal við fyrirhugaðan niðurskurð og fjöldauppsagnir dregnar til baka. Tryggja þarf sjálfstæði Ríkisútvarpsins og jafnframt skapa sátt og traust innan stofnunar sem utan. Lýðræðisvæða skal stofnunina, eitt atkvæði á starfsmann, til að draga úr miðstýringu og áhrifum stjórnmálamanna. Allar stærri breytingar á rekstri og lögum um Ríkisútvarpið skulu aðeins gerðar með aðkomu almennings, s.s. með þátttökuferlum.
Alda gerir þá kröfu að hætt verði við fyrirhugaðan niðurskurð á Ríkisútvarpinu og að þær fjöldauppsagnir sem komu til framkvæmda nú á dögunum verði tafarlaust dregnar til baka. Yfir 100 starfsmönnum hefur verið sagt upp frá hruni, haustið 2008, í janúar 2010 og undir lok árs 2013 og fleiri uppsagna að vænta. Að langstærstum hluta er um að ræða starfsfólk er framleiðir efni og fréttir. Nú síðast var um helmingi starfsmanna Rásar 1 sagt upp.
Í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er fyrsta markmið laganna, og þar með stofnunarinnar, að stuðla að lýðræðislegri umræðu. Ríkisútvarpið er í eign almennings sem það starfar í þágu og þjónustu við. Eitt mikilvægasta hlutverk þess er að veita eigendum sínum áreiðanlegar upplýsingar, s.s. um stjórnmál, vísindi, heilsu, efnahagsmál, menningu og umhverfi. Enda er þess krafist í lögum um útvarpið að það veiti víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu.
Ríkisútvarpið hefur í gegnum tíðina verið bitbein stjórnmálaflokka og -manna sem hafa hagsmuni af því hvernig umfjöllun þess er háttað. Alda telur nýleg ummæli valdhafa, um að stofnunin sé þeim ekki nægilega samstíga, algjörlega ólíðandi. Slíkar yfirlýsingar sem svo er fylgt eftir með niðurskurði eru skoðanakúgun sem hafa áhrif á tækifæri starfsmanna til þess að sinna starfi sínu af fagmennsku og hlutleysi.
Ennfremur virðist, af umfjöllun undanfarinna daga, gæta mikillar óánægju meðal starfsmanna stofnunarinnar um forgangsröðun sem og framkvæmd niðurskurðarins og uppsagna.
Ljóst má vera að verulega hefur dregið úr bolmagni Ríkisútvarpsins til þess að rækja lýðræðislegt hlutverk sitt. Aðgerðir valdhafa og yfirlýsingar eru til þess fallnar að grafa undan trausti á stofnuninni. Það má ekki gerast heldur þarf þvert á móti að efla og bæta Ríkisútvarpið. Alda leggur því til að lög um Ríkisútvarpið verði endurskoðuð með það að markmiði að tryggja sjálfstæði þess og tækifæri til að sinna lýðræðislegri og menningarlegri skyldu sinni. Það má gera með ýmsum hætti en félagið leggur áherslu á tvö atriði sem eru líkleg til að auka traust og sátt jafnt innan stofnunar sem utan.
Í fyrra lagi að stærri ákvarðanir um breytingar á rekstri eða lögum um Ríkisútvarpið verði aðeins gerðar með aðkomu almennings, t.d. í lýðræðislegu þátttökuferli.
Í seinna lagi að Ríkisútvarpið verði lýðræðisvætt þannig að hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Þannig verði dregið úr miðstýringu og áhrifum valdhafa eða utanaðkomandi aðila í gegnum allsráðandi stjórnendur. Almennt er launamunur í lýðræðislega reknum fyrirtækjum minni en í sambærilegum fyrirtækjum og reynt í lengstu lög að verja störf, s.s. með styttingu vinnutíma. Í síðasta niðurskurði hjá Ríkisútvarpinu virðist yfirstjórn hlíft með öllu. Í stjórn Ríkisútvarpsins er rétt að auk kjörinna starfsmanna sitji slembivaldir fulltrúar almennings. Fyrsta verk starfsmanna á lýðræðislega reknu Ríkisútvarpi yrði að endurskoða rekstur og forgangsröðun.
Samþykkt á stjórnarfundi 4. desember 2013.