Krafan um breytingar er hávær og birtist okkur með margvíslegum hætti. Fjöldamótmæli á Austurvelli, eggjakast og tunnusláttur, innan við 10% treysta Alþingi, fjöldi nýrra stjórnmálaflokka skýtur upp kollinum, Jón Gnarr er borgarstjórinn í Reykjavík (grínlaust), rannsóknarskýrslan, Hagsmunasamtök heimilanna, stjórnlagaþingið og svo mætti lengi telja. Segja má að þetta ástand komi engum á óvart í ljósi þess að allt fjármálakerfið hrundi, stjórnmálakerfið brást, eftirlitsstofnanir réðu ekki neitt við neitt og örfáir græddu stórkostlega en almenningur situr uppi með skuldirnar.

Mörg okkar höfðum ekki hugmynd um hversu slæmt ástandið var fyrr en skyndilega var lýst yfir neyðarástandi í landinu. Og það er í raun það furðulegasta við þetta allt saman, hversu fáir þekktu stöðuna og áttu aðild að þeim ákvörðunum sem leiddu til hrunsins. Deilt er um ábyrgð einstakra manna í ljósi þess að þeim var ekki boðið á fundi þar sem rætt var um yfirvofandi bankavá. Aðrir bera fyrir sig að þeir hafi ekkert rangt gert eða að utanaðkomandi aðstæður hafi verið óviðráðanlegar. Hver svo sem ábyrgð einstakra manna kann að vera ætti öllum að vera ljóst að kerfið brást. Stjórnendur fyrirtækjanna tóku ákvarðanir um það sem þeim bar og sömuleiðis stjórnmálamenn. Þannig er kerfið. Vandamálið er ekki að við vorum óheppin með stjórnmálamenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja. Með því er ekki sagt að þeir sem þekktu til og tóku ákvarðanirnar séu stikkfrí heldur að kerfi þar sem við þurfum að reiða okkur á örfáa einstaklinga sem hafa nær allir mikilla sérhagsmuna að gæta – eða, með öðrum orðum, kerfi þar sem við þurfum að reiða okkur á heppni – er einfaldlega vont kerfi.

Er það náttúrulögmál að allar veigamiklar ákvarðanir skuli teknar af örfáum bak við luktar dyr? Viljum við kalla það lýðræði þar sem völd og peningar þjappast á hendur örfárra einstaklinga? Þar sem sumir bíða í röð eftir mat meðan aðrir eiga snekkjur og milljarða? Þar sem almenningur fær að kjósa sér fulltrúa á fjögurra ára fresti en hefur svo ekkert meira um málin að segja þess á milli? Hvernig er það samfélag sem í raun og veru ætti að bera þann heiður að kallast lýðræði? Getum við ekki betur – er þetta allt og sumt?

Auðvitað getum við betur. Við ættum að leita logandi ljósi að leiðum til þess að bæta kerfið. Finna leiðir til þess að bæta samfélagsgerð okkar. Í þeim tilgangi hefur hópur fólks ákveðið að stofna félagsskap undir merkjum lýðræðis og sjálfbærni til þess að leita uppi, ræða og koma á framfæri hugmyndum sem gætu orðið notadrjúgar við að reisa hér betra samfélag. Við þurfum að horfa til þess hvernig aðrir hafa aukið hjá sér lýðræðið með góðum árangri og við þurfum líka að hafa þor til þess að prófa nýjar leiðir. Öll sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkri umræðu, lýðræðislegri umræðu, eru að sjálfsögðu velkomin í félagið.

Kristinn Már Ársælsson