Stjórnarfundur í Öldu, 3. janúar 2012 kl. 20:30 í Grasrótarmiðstöð.

Mætt voru Ámundi Loftsson, Andrea Ólafsdóttir, Valgerður Pálmadóttir, Hjalti Hrafn Hafþórsson, Skúli Guðbjarnarson, Sigrún Birgisdóttir, Kristinn Már Ársælsson, Dóra Ísleifsdóttir, Björn Þorsteinsson, Hulda Björg Sigurðardóttir, Júlíus Valdimarsson, Sólveig Alda Halldórsdóttir og Haraldur Ægir.

Kristinn Már stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.

1. Ámundi og Andrea kynntu fyrir fundinum hugmyndir sínar um að fá erlendan fræðimann til að gera úttekt á gömlu stjórnarskránni. Meginhugmynd þeirra sé sú að bókstafur gömlu stjórnarskrárinnar hafi týnst undir öllum þeim túlkunarhefðum sem myndast hafa út frá henni. Dæmi um þetta séu ákvæði stjórnarskrárinnar um forsetaembættið og þrískiptingu valds. Andrea lýsti áhyggjum sínum af því að ný stjórnarskrá verði varla tekin alvarlega úr því að aldrei var borin virðing fyrir orðanna hljóðan í þeirri gömlu. Fáir hafi lesið gömlu stjórnarskrána, enda tali stjórnmálamenn og fleiri hana stanslaust niður í því augnamiði að tryggja völd sín. Andrea vakti máls á því að í frumvarpi Stjórnlagaráðs sé talað um að á Íslandi sé „þingræðisstjórn“ sem sé allt annað en sú þingbundna stjórn sem talað er um í gildandi stjórnarskrá. Þarna sé verið að færa valdið lengra frá þjóðinni. Þrískipting valdsins sé fullkomin í gömlu stjórnarskránni. Andrea og Ámundi óskuðu eftir áliti fundarins á því hvort Alda vildi taka þátt í þessu verkefni.

Hulda Björg benti á Stjórnarskrárfélagið og Andrea og Ámundi töldu upplagt að fá það með í verkefnið. Hjalti minnti á tillögur Öldu um stjórnarskrána sem sendar voru Stjórnlagaráði og að þær tillögur eru í mörgum meginatriðum býsna ósamhljóða gömlu stjórnarskránni. Kristinn Már ræddi um afstöðu Öldu til forsetaembættisins sem ræðst af meginreglunni um valddreifingu. Heimildarákvæðin sem nú séu hjá forseta eigi að vera hjá almenningi. Kristinn minnti líka á tillögur Öldu um skipan dómara og á slembivalshugmyndina.

Andrea kvaðst mjög hlynnt umræddum tillögum Öldu. Kristinn Már benti á að Alda hefði ekki yfir fjármunum að ráða til að leggja í verkefni sem þetta. Hjalti benti á að ekki væri tryggt að umsögn hins erlenda fræðimanns yrði jákvæð. Skúli tók undir þá grunnhugmynd að mikilvægt sé að fara eftir bókstaf stjórnarskrárinnar, hvort heldur gamallar eða nýrrar. Dóra talaði um málfundi Lagadeildar HÍ um frumvarp Stjórnlagaráðs andspænis gömlu stjórnarskránni. Þar væri mikið rætt um túlkunarhefðir og réttlætingar sóttar til þeirra. Mikilvægt væri að fá nýjar hefðir. Stjórnarskráin verði að vera skýrt og skorinort plagg, en frumvarp Stjórnlagaráðs sé því miður ekki með því lagi gert.

Ámundi talaði um hversu erfitt væri að koma umræðunni af stað. Kristinn Már benti á hvernig frumvarp Stjórnlagaráðs festir í sessi hefðir sem komnar eru á, t.d. hvað varðar val á forsætisráðherra. Andrea tók undir þetta og sagði þetta helsta áhyggjuefnið, að verið væri að festa fyrirkomulag sem gengur ekki upp.

Andrea talaði um að bera saman gömlu stjórnarskrána, frumvarpið og tillögur Öldu. Hér væru sóknarfæri fyrir Öldu. Umræðan þyrfti að verða mun meiri og dýpri. Sólveig Alda tók undir þetta. Kristinn Már lagði til að málinu yrði vísað til málefnahóps um lýðræði á sviði stjórnmálanna (LS-hóps) og var það samþykkt.

2. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Nató. Alþingi leitaði álits félagsins á þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram um þetta mál. Hjalti reifaði málið. Kristinn Már lagði til að félagið styddi tillöguna. Haraldur benti á að við yrðum að finna okkur nýtt varnarbandalag ef við göngum úr Nató, eða a.m.k. leysa varnarmálin einhvern veginn. Samþykkt að Hjalti skrifi umsögn þar sem lýst er stuðningi við tillöguna.

3. Aðgerðir lögreglu gegn Occupy-mótmælendum. Kristinn Már las upp drög að ályktun um málið. Nokkrar umræður urðu um málið. Fram kom að hugsanlega muni starf Occupy Reykjavíkur fara aftur af stað á næstunni. Samþykkt að ganga endanlega frá ályktuninni á næstunni í gegnum tölvupóst.

4. Fjárhagsreglur Öldu. Kristinn Már fór yfir tillögu að reglunum. Málið rætt og tillögurnar samþykktar einróma.

5. Ný sveitarstjórnarlög. Kristinn Már las drög að ályktun um lögin. Nokkrar orðalagsbreytingar gerðar. Endanlegri gerð ályktunarinnar verður dreift til stjórnarmanna í tölvupósti til endanlegrar samþykktar.

6. Borgarafundir. Rakel Sigurgeirsdóttir, Ásta Hafberg o.fl. leituðu til Öldu varðandi það að halda borgarafundi, í þjóðfundarformi. Áhugi var fyrir því meðal fundarmanna og samþykkt að auglýsa eftir fólki til að taka þátt í þessu verkefni á vefsíðu Öldu.

7. Lífeyrissjóðir, mikið rætt um þá þessa dagana og mikilvægt að Alda láti í sér heyra hvað það varðar. Meðal annars rætt um að auka þurfi lýðræði í lífeyrissjóðum. Vísað til málefnahóps um lýðræðislegt hagkerfi (LH-hóps).

8. Rafrænt lýðræði. Gunnar Grímsson bauð Öldu að setja upp vefkerfi þar sem ákvarðanir eru teknar á lýðræðislegan hátt skv. „consensus“-aðferð. Alda þarf einungis að leggja fram drög að slíku kerfi. Málinu vísað til LS-hóps.

9. Hópastarf. Sólveig Alda sagði frá starfsemi LH-hóps. Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lýst áhuga á að leggja fram tillögu um ný samvinnufélagalög. Þórður Björn kemur á fundi með þingmönnunum. Kristinn Már sagði frá starfsemi sjálfbærnihóps og LS-hóps.

10. Efling félagsins. Sólveig Alda greindi frá því að um margir skráðu sig í félagið í viku hverri. Félagið á 481 „vini“ á Facebook – þarf að fjölga þeim og sömuleiðis skráðum félögum í Öldu. Fundarmenn og félagsmenn eru hvattir til þess að halda merkjum félagsins á lofti og hvetja fólk til að skrá sig eða fylgjast með starfinu á Facebook og á vefsíðu félagsins, alda.is.

Fundi slitið um kl. 22:30.