Innan við helmingur landsmanna bar traust til Alþingis fyrir hrun. Eftir hrun hefur traust til þingsins mælst í kringum 10%. Ástandið fyrir hrun kallaði á viðbrögð og breytingar. Núverandi aðstæður kalla á tafarlausar umbætur og endurnýjun á lýðræðinu. Málþóf og leiksýningar á Alþingi eru síst til þess að auka traustið. Allir sjá að í þinginu fer ekki fram málefnaleg umræða með hagsmuni landsmanna að leiðarljósi heldur nakin valdabarátta sem miðar að þröngri sérhagsmunagæslu.
Kreppa lýðræðisins hefur dýpkað á undanförnum áratugum. Dregið hefur úr virkri þátttöku almennings í stjórnmálaflokkum og hagsmunatengsl stjórnmála og fjármagns aukist. Fulltrúalýðræðið er komið út af sporinu.
Alda telur nauðsynlegt að gerðar verði róttækar breytingar á lýðræðinu sem miða að virkri þátttöku almennings, málefnalegri umræðu og bættu fulltrúalýðræði. Alda telur víst að slíkar breytingar muni leiða til aukins trausts í samfélaginu og bættra lífsgæða.
Félagið hefur nú þegar lagt fram fjölmargar tillögur að breytingum á grunngerð samfélagsins, sem eru aðgengilegar á alda.is. Tillögurnar miða að því að dýpka lýðræðið með auknu þátttöku- og umræðulýðræði samhliða breytingum á fulltrúalýðræðinu. Til dæmis má nefna:
- Innleiða beint lýðræði. Leiðir til þess að færa ákvarðanir í opin lýðræðisleg ferli á borð við slembivalsþing og þátttökuferli þurfa að standa almenningi til boða. Reynsla og rannsóknir benda til þess að slík ferli hafi jákvæð áhrif á virkni lýðræðisins. Almennar atkvæðagreiðslur séu notaðar sem síðasta úrræði til að höggva á hnúta. Almennar kosningar hvetja ekki til umræðu og sátta heldur átaka um fáa fyrirframákveðna valkosti, auk þess sem þekkt er að fjármagn geti haft áhrif á niðurstöðu.
- Lýðræðisvæða þarf hagkerfið. Við segjumst búa í lýðræði en stærstan hluta lífsins, í vinnunni, erum við undir einræði eða fámennisstjórn. Mikilvægt er að lýðræðisvæða fyrirtækin og stofnanir. Alda minnir á að nú er ár samvinnufyrirtækja hjá Sameinuðu þjóðunum og hefur félagið unnið þingsályktunartillögu að eflingu lýðræðislegra fyrirtækja og vonast til að tillagan fáist flutt og samþykkt á Alþingi á komandi þingi.
- Breytingar á fulltrúalýðræðinu. Auk flokkakjörinna fulltrúa þarf að nýta kosti þess að hafa persónukjörna og slembivalda fulltrúa. Lýðræðisvæða þarf skipulag stjórnmálaflokka þar sem vald hefur safnast fyrir í fámennum valdakjörnum. Girða þarf fyrir hagsmunatengsl fulltrúa við fjármagn. Gagnsæi þarf að stórauka og tryggja formlega aðkomu almennings að ákvarðanatöku. Tryggja þarf málefnalega umræðu.
- Aðskilja þarf milli framkvæmdar-, löggjafar- og dómsvalds. Löggjafarvaldið sé hinn eiginlegi stefnumótunaraðili og framkvæmdarvaldið sjái um framkvæmd stefnunnar. Auk almennra sjónarmiða um valddreifingu má benda á þá hættu að þegar mikið liggur við á þingi getur það haft lamandi áhrif á stjórnsýsluna þar sem ráðherra er hreinlega upptekinn við annað en að stýra ráðuneyti sínu. Og öfugt, að þegar mikið liggur við í ráðuneyti geti það haft lamandi áhrif á vinnu þingsins í viðkomandi málaflokki.
Ályktunin var afgreidd á stjórnarfundi í júní 2012.
Tengt efni
- Stefna félagsins um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna
- Stefna félagsins um lýðræðisvæðingu hagkerfisins
- Tillögur Öldu um breytingar á stjórnarskránni til Stjórnlagaráðs
- Tillaga Öldu að stjórnmálaflokki í anda alvöru lýðræðis
- Stefna í lýðræðismálum fyrir stjórnmálaflokka
- Tillaga að þingsályktun um lýðræðisleg fyrirtæki