Nú er aðalfundur yfirstaðinn og fyrsti stjórnarfundur nýrrar stjórnar verður venju samkvæmt næstkomandi þriðjudag. Sama dag, þann 2. október, er alþjóðlegur dagur án ofbeldis. Undanfarin ár hefur fólk safnast saman á Klambratúni og myndað mannlegt friðarmerki. Þetta á sér stað á sama tíma víðs vegar um allan heim og á aðalfundinum var stungið upp á því að stjórnarfundi yrði flýtt svo hægt væri að taka þátt í viðburðinum. Það var samþykkt einróma.

Það auglýsist því hér með að stjórnarfundur þriðjudagskvöldsins 2. okt. hefst klukkan 18.00 og stendur til 20.00.

Þar munum við ræða útfærslur og aðferðir við slembivalið, en slembivelja þarf tvo félaga til stjórnarsetu.

Tvær tillögur eru þegar fram komnar að útfærslu á slembivali.

1. Að draga miða úr skál (jafnstórir miðar á sams konar pappír).

2. Að nota gagnavinnslu/gagnagrunnsforrit til að slembivelja tölur fyrir alla félagsmenn.

Báðar leiðirnar má útfæra með ýmsum hætti. Tillaga er um að slembivalið verði framkvæmt á opnum fundi þar sem hver sem er geti fylgst með framkvæmdinni.

Dagskrá

  1. Slembival – útfærslur
  2. Forgangsverkefni í vetur
  3. Málefnahópar og umsjón með þeim
  4. Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs
  5. Önnur mál

Ályktanir

Þjóðhagsstofnun

Borist hefur tillaga að ályktun/erindi fyrir fundinn til umræðu. Nokkuð hefur komið til tals innan Öldu að mikilvægt sé að safnað sé saman víðtækum upplýsingum um stöðu mála í samfélaginu og um ástand umhverfisins. Í ljósi umræðu um stofnun Þjóðhagsstofnunar (http://www.althingi.is/altext/138/s/1537.html) kann að vera ástæða til að koma eftirfarandi á framfæri:

Alda telur nauðsynlegt að hugað verði að fleiri þáttum en efnahagslegum hjá fyrirhugaðri Þjóðhagsstofnun. Á undanförnum áratugum hefur í alltof miklum mæli verið einblínt á mælikvarða hagfræðinnar þegar hugað er að hag, lífsgæðum og heilsu almennings. Þar fyrir utan hefur lítið sem ekkert verið horft til hags og ástands umhverfisins.

Alda mun senda stjórnvöldum erindi þar sem óskað er eftir upplýsingum um undirbúning að stofnun nýrrar Þjóðhagsstofnunar. Þar er einnig farið fram á að sú stofnun muni grundvalla sínar mælingar á breiðum grunni mælikvarða á ástand og hag lands og þjóðar.

Erindi Öldu um Þjóðhagsstofnun

Forsætisráðherra, forseti þingsins.

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, vill hér með koma á framfæri ábendingum hvað varðar fyrirhugaða stofnun nýrrar Þjóðhagsstofnunar í samræmi við þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010.

Félagið óskar eftir upplýsingum um stöðu þeirrar vinnu sem lýtur að stofnun Þjóðhagsstofnunar. Hver fari með þá vinnu, hvar hún sé stödd og hvaða hugmyndir/sjónarmið séu uppi hvað varðar afmörkun á hlutverki og umfangi hennar.

Þá vill félagið koma á framfæri þeirri afstöðu að nauðsynlegt sé að slík stofnun, sem hafi það að markmiði að mæla hag þjóðarinnar og greina frá stöðu mála hvað það varðar, taki tillit til fleiri mælikvarða en efnahagslegra og/eða hagfræðilegra. Hagur, heilsa, velsæld og lífsgæði almennings sem og náttúru landsins felast í mun víðtækari og fleiri þáttum en koma fram í efnahagslegum mælikvörðum. Mælikvarðar á borð við hagvöxt, landsframleiðslu, erlenda fjárfestingu og fleiri eru ekki nægilega góðir til þess að gefa skýra mynd af stöðu lífsgæða almennings né ástandi umhverfisins.

Félagið telur nauðsynlegt að slík stofnun hafi það hlutverk að fylgjast með fleiri mælikvörðum á lífsgæði almennings, s.s. um vinnutíma, heilsufar, lyfjanotkun, hamingju, áhyggjur, jöfnuð, lýðræðislega þátttöku og fleira. Þá er einnig mikilvægt að slík stofnun fylgist með ástandi umhverfisins og sjálfbærri þróun.

Á undanförnum áratugum hefur verið einblínt á efnahagslega mælikvarða í umræðum um þróun og stöðu samfélagsins. Mikilvægt er að horfa til fleiri þátta. Verði það hlutverk Þjóðhagsstofnunar að horfa aðeins til efnahagslegra þátta er hætt við að áfram verði einblínt á efnahagslega stöðu samfélagsins í opinberri umræðu, ákvarðanatöku af hálfu hins opinbera og ýmissa annarra aðila. Grundvöllur upplýstrar umræðu eru vandaðar og viðeigandi upplýsingar. Ný Þjóðhagsstofnun ætti að gegna leiðandi hlutverki í upplýstari og markvissari umræðu um þjóðarhag.

Loftslagbreytingar – 50 mánuðir

Samkvæmt útreikningum New Economic Foundation í Bretlandi eru nú 50 mánuðir þar til styrkleiki gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti Jarðar fer yfir þau mörk þannig að ólíklegt sé að hægt verði að koma í veg fyrir veruleg áhrif loftslagsbreytinga. Takist ekki að draga verulega úr losun fyrir þann tíma er stutt í að meðalhitastig á Jörðinni hækki um 2°C sem mun hafa alvarleg áhrif á lífríkið.

Því miður hafa stjórnmálamenn á Vesturlöndum ekki tekið málið nægilega föstum tökum en mikil vakning er meðal almennings. Alda skorar á íslensk stjórnvöld að láta til sín taka í þessum efnum.

Nauðsynlegt er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og ósjálfbærri framleiðslu og neyslu. Gríðarleg tækifæri felast í því að byggja upp heilbrigðari samfélög sem grundvallast á auknum lífsgæðum í stað síaukinnar neyslu á vörum. Þeir þættir sem eru líklegastir til að auka lífsgæði, s.s. aukinn tími með fjölskyldu og vinum, þátttaka í samfélaginu, ósnortin náttúra, heilnæmt umhverfi og aukinn jöfnuðu eru einmitt líklegir til þess að draga sömuleiðis úr álagi á umhverfið.

Skýrsla New Economic Foundation

Grein eftir Andrew Simms (NEF)

Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur Stjórnlagaráðs

Almenningi gefst færi á því að kjósa um tillögur Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá þann 20. október næstkomandi. Alda hvetur alla til þess að kynna sér tillögurnar ítarlega og taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Í tillögum að nýrri stjórnarskrá eru m.a. ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði álíka þeim sem Alda lagði til að yrðu í stjórnarskrá.

Alda hefur áður komið á framfæri ábendingum um að ýmislegt hefði betur mátt fara við endurskoðun stjórnarskrárinnar (http://alda.is/?p=977).

Tillögur Öldu til Stjórnlagaráðs