Ályktun samþykkt á stjórnarfundi Öldu, 2. október 2012.

Í ljósi umræðu um stofnun Þjóðhagsstofnunar (http://www.althingi.is/altext/138/s/1537.html) er ástæða til að koma eftirfarandi á framfæri:

Alda telur nauðsynlegt að hugað verði að fleiri þáttum en efnahagslegum hjá fyrirhugaðri Þjóðhagsstofnun. Á undanförnum áratugum hefur í alltof miklum mæli verið einblínt á mælikvarða hagfræðinnar þegar hugað er að hag, lífsgæðum og heilsu almennings. Þar fyrir utan hefur lítið sem ekkert verið horft til hags og ástands umhverfisins.

Alda mun senda stjórnvöldum erindi þar sem óskað er eftir upplýsingum um undirbúning að stofnun nýrrar Þjóðhagsstofnunar. Þar er einnig farið fram á að sú stofnun muni grundvalla sínar mælingar á breiðum grunni mælikvarða á ástand og hag lands og þjóðar.

Erindi Öldu um Þjóðhagsstofnun

Forsætisráðherra, forseti þingsins.

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, vill hér með koma á framfæri ábendingum hvað varðar fyrirhugaða stofnun nýrrar Þjóðhagsstofnunar í samræmi við þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010.

Félagið óskar eftir upplýsingum um stöðu þeirrar vinnu sem lýtur að stofnun Þjóðhagsstofnunar. Hver fari með þá vinnu, hvar hún sé stödd og hvaða hugmyndir/sjónarmið séu uppi hvað varðar afmörkun á hlutverki og umfangi hennar.

Þá vill félagið koma á framfæri þeirri afstöðu að nauðsynlegt sé að slík stofnun, sem hafi það að markmiði að mæla hag þjóðarinnar og greina frá stöðu mála hvað það varðar, taki tillit til fleiri mælikvarða en efnahagslegra og/eða hagfræðilegra. Hagur, heilsa, velsæld og lífsgæði almennings sem og náttúru landsins felast í mun víðtækari og fleiri þáttum en koma fram í efnahagslegum mælikvörðum. Mælikvarðar á borð við hagvöxt, landsframleiðslu, erlenda fjárfestingu og fleiri eru ekki nægilega góðir til þess að gefa skýra mynd af stöðu lífsgæða almennings né ástandi umhverfisins.

Félagið telur nauðsynlegt að slík stofnun hafi það hlutverk að fylgjast með fleiri mælikvörðum á lífsgæði almennings, s.s. um vinnutíma, heilsufar, lyfjanotkun, hamingju, áhyggjur, jöfnuð, lýðræðislega þátttöku og fleira. Þá er einnig mikilvægt að slík stofnun fylgist með ástandi umhverfisins og sjálfbærri þróun.

Á undanförnum áratugum hefur verið einblínt á efnahagslega mælikvarða í umræðum um þróun og stöðu samfélagsins. Mikilvægt er að horfa til fleiri þátta. Verði það hlutverk Þjóðhagsstofnunar að horfa aðeins til efnahagslegra þátta er hætt við að áfram verði einblínt á efnahagslega stöðu samfélagsins í opinberri umræðu, ákvarðanatöku af hálfu hins opinbera og ýmissa annarra aðila. Grundvöllur upplýstrar umræðu eru vandaðar og viðeigandi upplýsingar. Ný Þjóðhagsstofnun ætti að gegna leiðandi hlutverki í upplýstari og markvissari umræðu um þjóðarhag.