Fundur settur 13.05

Mættir: Kristinn Már Ársælsson, Birgir Smári Ársælsson, Guðmundur D. Haraldsson, Sigrún Sigurðardóttir, Björn Þorsteinsson, Guðni Karl Harðarson, Hjalti Hrafn Hafþórsson, Hulda Björg Sigurðardóttir og Sólveig Alda Halldórsdóttir.
Júlíus Valdimarsson kom síðar inn á fundinn.

Kristinn Már bauð sig fram sem fundarstjóri og Sólveig sem fundarritari.

Kristinn Már las upp Skýrslu stjórnar 2011-2012. Sem verður birt í heild sinni á vef Öldu, alda.is.

Engir reikningar eru til að leggja fram. Félaginu hefur gengið illa að fá kennitölu vegna formreglna hjá Ríkisskattstjóra en til þess verður að fá undirskrift allra stjórnarmanna og tilnefna formann. Ný stjórn mun ganga frá því máli þegar slembivaldir stjórnarmenn hafa verið valdir og teknir til starfa.

Sólveig Alda og Kristinn hafa greitt fyrir kostnað vegna lénsins alda.is. Svo var þó nokkur kostnaður við prentun á bækling um styttingu vinnudagins. Stjórnarmenn auk Guðmundar D. sem stýrir málefnahópi um styttingu vinnutíma greiddu fyrir það með samskoti. Að öðru leyti hefur ekki verið um útlagðan kostnað að ræða hjá félaginu.

Rætt var um að Alda hefði valkvæð félagsgjöld en ákvörðun vísað til stjórnarfundar þegar fjármál eru komin á hreint. Þá var einnig nefnt að Alda ætti að taka hóflegt gjald fyrir fyrirlestra sem rynnu til starfsins.

Fundarmenn ræddu skýrslu stjórnar og reifuðu verkefni fyrir veturinn. Svona skýrslur er góðar til að sjá stöðu mála og til að forgangsraða fyrir áframhaldið. Mikil eftirvænting er meðal félagsmanna vegna þingsályktunartillögu um lýðræðisleg fyrirtæki sem fer fyrir þingið í vetur. Fjölmargir þingmenn hafa lýst sig áhugasama um að styðja við að ný lög verði samin fyrir lýðræðisleg fyrirtæki.

Ályktanir ræddar sérstaklega. Ályktunin frá 1. maí þykir sérstaklega góð og vert að minna á hana reglulega.

Ráðstefna um lýðræðisleg fyrirtæki. Finna fundartíma og fá fyrirlesara fyrir ráðstefnu um Lýðræðisleg fyrirtæki. Þarf að vera vel fyrir kosningar. Líklega í febrúar. Málefnahópur um LH þarf að henda í gang með það.

Hópar úti á landi: þarf að koma fólki á sama svæði í samband við hvort annað. Alda hefur fundið fyrir nokkrum áhuga á að komið verði á starfi Öldu á landsbyggðinni.

Sjávarútvegsmál hafa verið vanrækt hjá Öldu og áhugi fyrir því að hreyfa við þessum málum. Á fundi sem Húmanistar héldu og Sólveig og Björn sátu og voru með erindi á, komu þó nokkrir sem sáu ekki hvers vegna togarar og sjávarútvegsfyrirtæki væru ekki lýðræðislega rekin.

Nokkur umræða um rekstur fyrirtækja og lýðræðisleg fyrirtæki.

Hulda Björg: Ekki verið að reyna að efla samheldni og félagslega þáttinn. Eingöngu gróðinn er fyrir hendi. Fólk hrætt um sína stöðu og hrætt við að missa vinnuna.

Exeter City er lýðræðislega rekið fótboltafélag. Í þýskalandi er það í lögum að 51% fótboltafélaga séu í eigu almennings.
Samstarfið við Eva Joly foundation hefur farið hægt af stað en forsvarsmaður stofnunarinnar vill ekki gefa það upp á bátinn. Sumir góðir hlutir gerist hægt og vonandi sé þetta einn af þeim.

Rætt um slembival og bestu mögulegu aðferðir. Vilji er fyrir því að slembivelja á næsta stjórnarfundi. Hafa þarf í huga að í lögum félagins er kveðið á um kynjajöfnun.

Félagatala. Búa til heildarfélagatal með ítarlegri upplýsingum, s.s. búsetu, Sólveig tekur það að sér. Kynjahlutföll, dreifing á landsbyggðinni, osfrv. Skoða facebook síðuna að sama skapi. Rýna í tölfræði Öldu. Sérstaklega til þess að athuga hvort hægt sé að koma fólki saman úti á landi til að taka upp starf Öldu.

Breytingar í Grasrótarmiðstöð. Nýting á efri hæði í Grasrótarmiðstöð hefur verið lítil og rekstrarfélag hússins ætlar að segja upp samningi vegna efri hæðar.

Herja á borg og bæ um að fá húsnæði undir grasrótarfélög. Við erum með traust húsnæði í vetur en ættum að endurvekja hvatningu okkar til bæjar og sveitastjórna um að tryggja húsnæði fyrir grasrótarfélög.

Kosningavetur. Nokkrar umræður voru um að nú rynni í hönd kosningavetur. Rætt var um áherslumál flokka sem eru fram komnir, og ljóst að margir leggja áherslu á lýðræði. Talað um að Alda geti haft áhrif á umræðu og þau mál sem verða á dagskrá kosninganna.

Málefnahópar. Þrír fastir hópar frá byrjun. Þrjú stór málefnasvið. Kristinn Már lagði til að við myndum breyta hópunum, gera þá fókuseraðri, verkefnamiðaðri – að þeir verði sniðnir að ákveðnum verkefnum fyrir hvert skipti. Hjalti tók undir: að hóparnir hafi verkefni og geti klárað þau. Ef allar stefnur eru komnar í þessum þrem málefnahópum þá er í boði að gera slíkt. Sjálfbærnin á enn eftir að klára stefnuna.

Menntahópurinn á eftir að klára stefnuna. Á dagskrá hjá honum er t.d. að skrifa menntamálaráðuneytinu um tillögur öldu í menntamálum og svo er stefnan tekin á fleiri fundi með kennurum í skólum á öllum skólastigum. Háskólinn er til dæmis staður sem þarf að endur-lýðræðisvæða en hann hefur glatað jafningjaræði sínu eftir að rekstrarformið breyttist í viðskiptamódel.

Hugmynd að verkefni: Hvað er lýðræðislegur skóli? Sigrún benti á að slíkt verkefni er tvíþætt. Hvernig er hægt að lýðræðisvæða skólann sem stofnum og hvernig er hægt að innleiða lýðræði í menntun. Hjalti lagði til að menntahópurinn fengi nafnið Málefnahópur um menntamál.

Skipulag funda rætt. Reyna að hafa þá verkefnamiðaðri án þess þó að gleyma umræðunni. Það má t.d. flokka fundi niður í umræðufundi og vinnufundi eða aðgerðafundi.

Björn talaði um mikilvægi þess að stofna alþjóðahóp. Slíkan hóp vantar í Öldu.

Fundarmenn ræddu nýliðun og hve mikilvægt það er að fá fleira fólk á fundi. Stöðnun er ekki í boði og því verður að hreyfa við fólki. Hvetja til þátttöku. Alda er aðgengileg og fyrir alla.
Einnig var rætt að gera eitthvað skemmtilegt saman, halda fjölskyldudag, útivist, eða hvað svo sem er. Helst að vera úti við og leika sér.

Sú hugmynd kom upp að taka saman Öldu í tölum – eða tölulegar upplýsingar um félagið og setja upp í fallegt graf. Guðmundur D. ætlar að kíkja á það.

Næsti stjórnarfundur er 2. október. Það er afmælisdagur Ghandi og alþjóðlegur dagur án ofbeldis. Fundarmönnum þótti góð hugmynd að flýta fundi og taka þátt í því að mynda mannlegt friðarmerki á Klambratúni. Sá atburður hefst klukkan átta. Það var samþykkt að byrja stjórnarfund á þriðjudag klukkan 18.00.

Umræður fóru út um víðan völl. Stjórnmálaástandið í landinu rætt og kosningaveturinn. Alda ætlar að koma málum í umræðu og á dagskrá hjá stjórnmálaflokkum. Nú er margt nýtt fólk að stíga inn á stjórnmálasviðið og skiptir máli að þrýsta á alla að vera vakandi yfir forgangsröðun málaflokka.

Engar lagabreytingar höfðu verið lagðar til fyrir fundinn og engar ályktanir að afgreiða.

Fundi slitið 15.15