Mætt voru: Björn Þorsteinsson, Júlíus Valdimarsson, Kristinn Már Ársælsson, Sólveig Alda Halldórsdóttir (er stjórnaði fundi), Anna Rún Tryggvadóttir og Guðmundur D. Haraldsson (er ritar fundargerð).

Fundur hófst kl. 20:15.

1. Stytting vinnutíma:

a) Spurning hvað eigi að gera varðandi stéttarfélögin úti á landi. Stungið upp á því að halda fundi í gegnum Skype; Guðmundur fer í það mál.

b) Greinin sem Guðmundur skrifaði um McKinsey-skýrsluna (http://alda.is/?p=2013) vakti nokkra eftirtekt. Heimasíðan fékk margar heimsóknir. Fjölmiðlar sem haft var samband við vegna greinarinnar – DV, Eyjan, RÚV og Stöð 2 – brugðust ekki við.

c) Strætóbílstjórar í BSRB ályktuðu nýlega um styttingu vinnutíma. Guðmundur ætlar að grafast betur fyrir um það.

d) Róbert Marshall lagði fram frumvarp á Alþingi um breytingar á frídögum (http://www.althingi.is/altext/141/s/0371.html). Frumvarpið felur í sér m.a. breytingar á lögum um 40 stunda vinnuviku. Frumvarpið gengur út á að vissir frídagar séu færðir til, þannig að þeir færist sjálfvirkt yfir á föstudag. Einnig er lagt til að ef aðrir frídagar beri upp á helgar, þá séu veitt frí næsta virkan dag á eftir. Er einnig lagt til að fyrsti maí færist til.

Var samþykkt á fundinum að Guðmundur skrifi drög að umsögn um frumvarpið og að umsögnin muni fela í sér eftirfarandi: Alda muni styðja að beri frídag upp á helgi, að næsti virki dagur á eftir verði frídagur en taki ekki afstöðu að öðru leyti; Alda mun leggja það til við Alþingi að vinnuvikan verði stytt úr 40 stundum í 32 stundir; mun Alda einnig leggja til að 20. desember til 2. janúar ár hvert verði frídagar.

2. Umsögn um ný upplýsingalög: Kristinn Már skrifaði umsögn fyrir hönd Öldu um frumvarp til nýrra upplýsingalaga. Nokkrir gallar við frumvarpið eru: Fundargerðir í stofnunum eru enn undanþegar frá upplýsingaskyldu, almenn vinnugögn eru það einnig o.fl. Í umsögninni er lagt til að allar slíkar undanþágur verði felldar burt. Drög Kristins Más voru samþykkt. Sjá umsögnina hér: http://alda.is/?p=2021
Mótbárur heyrast oft gegn því að allar fundargerðir séu opinberar. Felast þær í því að fundir munu þá færast í reykfyllt bakherbergi og allir fundir verði eingöngu til að opinbera ákvarðanatökur. Helstu mótrök gegn þessu eru að fundargerðir munu þá upplýsa um þá stöðu mála og að leiða í ljós að taka þurfi á því.

3. Staða framkvæmdavaldsins: Rætt var um stöðu framkvæmdavaldsins á Íslandi. Rakti Kristinn Már hvernig ráðuneyti ríkisins eru undirlagðar í því að semja lagafrumvörp en vanrækja eftirlitsskyldur sínar gagnvart stofnunum sínum. Þetta hafi opinberast á undanförnum árum, þar sem kemur æ oftar í ljós að lélegt eftirlit er með stofnunum af hálfu ráðuneytanna. Hver sem er getur svo skoðað hvaðan frumvörp koma, með því að líta á vef Alþingis. Alþingi er innan þessa skipulags afgreiðslustofnun ráðuneytanna. Þeir þingflokkar sem eru í meirihluta á Alþingi, skipa sína menn innan ráðuneytanna, sem sjá svo til að þau mál sem þingflokkarnir í meirihluta hafa áhuga á komist áfram innan ráðuneytanna. Alþingi sér svo um að afgreiða málin.

Þingmenn sem hafa komið að máli við félagsmenn í Öldu hafa enn fremur bent á að þingmenn minnihlutans hafa ekki aðgang að lögfræðingum, en það séu lögfræðingar sem semja flest frumvörp. Lögfræðingar á vegum Alþingis eru fáir og lítt aðgengilegir þingmönnum minnihlutans. Mun fleiri lögfræðingar séu hins vegar í ráðuneytunum.

Var rætt um að Alda þurfi að vekja athygli á þessu og einhvernveginn ýta á eftir að þetta breytist.

4. Greinar fyrir vefinn hafa verið heldur fáar. Allir félagsmenn eru hvattir til að skrifa. Guðmundur mun ýta á eftir stjórnarmeðlimum um að skrifa greinar.

5. Ráðstefna um lýðræði: Á vegum Öldu munu mæta tveir gestir á ráðstefnu um lýðræði sem fer fram 10. nóvember á vegum Innanríkisráðuneytisins. Yfirskrift ráðstefnunar er “Lýðræði á 21. öld” (sjá: http://alda.is/?p=1998). Mun athygli fjölmiðla verða sérstaklega vakin á gestum Öldu. Ásta Hafbert mun mæta í viðtal á Útvarpi Sögu.

Kristinn Már og Sólveig Alda munu fylgja gestunum og vera þeim innan handar á meðan á dvöl þeirra stendur. Hefur Sólveigu, Kristni Má og gestunum tveimur verið boðið að mæta á matarboð á vegum Innanríksráðuneytisins. Umræða fór fram almennt um hvort ætti að þiggja slík boð. Settu fundargestir sig ekki á móti því í þetta sinnið.

6. Þjóðfundur: Það mál er munaðarlaust. Ætlar Kristinn Már að kanna hvort hann viti um einhverja sem eru tilbúnir til að taka málið að sér.

7. Önnur mál:

a) Kristinn Már mun fylgja eftir ályktun um lýðræðisvæðingu Orkuveitu Reykjavíkur.

b) Vinnumálastofnun er með í gangi tilraunaverkefni um að áhugasamir atvinnuleitendur gti stofnað til samvinnureksturs í kringum nýsköpunarhugmyndir (http://www.vinnumalastofnun.is/vinnumalastofnun/frettir/nr/2462/samvinnufelog-fyrir-atvinnuleitendur/). Hagkerfishópur mun funda um þetta fljótlega.
c) Rætt var um að halda kvikmyndakvöld, t.d. sýna The Take eftir Naomi Klein. Einnig um að halda almennan félagsfund. Verður ýtt á eftir að það gerist sem fyrst.

d) Snögg umræða var tekin um vefsíðu félagsins. Voru fundargestir á því máli að nokkrar breytingar þyrfti að gera á henni, aðallega að gera aflestur þægilegri og nýta betur pláss sem er fyrir miðri síðu.

e) Rætt var um að Alda myndi halda fundi um ýmis málefni eftir áramót með fulltrúum stjórnmálaflokka. T.d um styttingu vinnutíma, lýðræðismál ofl. Verður rætt nánar síðar.

Fundi lauk kl 22:30.