Við höfum misst sjónar á því hvers vegna við vinnum og stundum atvinnustarfsemi af ýmsu tagi. Í hugum flestra snýst vinna og atvinnustarfsemi um að afla sér tekna til að halda uppi lífsgæðum. Ný tækni sem eykur framleiðni gegni því hlutverki að auka lífsgæðin – og það sama gildi um nýja atvinnustarfsemi eins og álver og gagnaver. Þetta er þó talsvert flóknara en svo.

 

Á um það bil hundrað árum hefur íslenskt samfélag breyst úr bændasamfélagi í þjónustusamfélag. Í kringum 1900 voru um 75% vinnandi manna ýmist bændur eða sjómenn (eða hvort tveggja), en árið 2008 voru um 5% bændur eða sjómenn og yfir 70% unnu við þjónustu.1 Það sem gerðist í millitíðinni er að vélar tóku yfir stóran hluta vinnunnar. Í staðinn fyrir að róa á opnum bátum fara menn nú til sjós á stórum stálskipum. Í staðinn fyrir að slá með orfi og ljá eru stórar vinnuvélar sem slá túnin. Svona má lengi telja. Það þarf því mun færri hendur í þessum atvinnugreinum til að vinna verkin en fyrir um öld.

 

Á því leikur enginn vafi að vélarnar hjálpa okkur og gera okkur lífið betra. Lífsgæði hafa aukist mjög mikið með tilkomu vélanna. En samt er eitthvað að: Vinnutíminn á Íslandi er langur og er einn sá lengsti á Norðurlöndum. Og þrátt fyrir tæknibreytingar síðustu þrjátíu ára vinnum við enn þá álíka mikið og árið 1980.2

Vestmannaeyjar í upphafi 20. aldar

 Myndin er tekin í Vestmannaeyjum einhverntíma í upphafi 20. aldar. Myndin er fengin frá Heimaslóð.

Við könnumst líklega við frasann „sköpum störf“. Samhengið er oftast einhverjar framkvæmdir, álver eða virkjun. Kannski gagnaver. Fjölgun starfa er oft notuð sem réttlæting fyrir framkvæmdunum – frasinn gegnir því hlutverki.

 

Auðvitað verðum við að tryggja atvinnu. En bygging álvera og virkjana er ekki rétta leiðin. Hér er vandamálið: Tæknibreytingum fylgir oft að fólki er sagt upp – einhver vél hefur tekið yfir vinnuna og því þarf færra starfsfólk til að gera sömu hluti áfram. Þetta þykir eðlilegt – hvers vegna ættu eigendur fyrirtækja að vilja hafa fleira fólk í vinnu en þarf? Það er bæði dýrt og óhagkvæmt, segja eigendurnir. Þá þarf fólkið sem missti vinnuna að finna sér aðra, sem flestum tekst að gera. Stundum tekst fólki að finna sér vinnu í þeirri atvinnugrein sem það vann við áður og stundum ekki. Hægt og rólega breytist eðli vinnunnar sökum þessa og á ólíkum tímum eru mismunandi atvinnugreinar yfirgnæfaandi. Í dag er það þjónusta, fyrir hundrað árum sjómennska og landbúnaður. Stóriðja er ein atvinnugrein sem stjórnmálamenn hafa reynt að gera mikilvægari og veigameiri, sem þeim hefur tekist að vissu leyti.

 

En á sama tíma og vélar geta orðið leyst æ fleiri verkefni og æ hraðar, minnkar vinnan ekkert. Hún stendur í stað. Ástæðan fyrir því er að hagsmunir fyrirtækjanna felast ekki í því að minnka vinnu fólks þegar vélarnar batna – heldur í uppsögnum. Það er þeim í hag að borga fólki minni peninga en samt geta framleitt jafn mikið og kannski meira en áður. Það fyrirtækjunum í hag að láta þá starfsmenn sem eftir verða vinna jafn mikið og áður fyrir jafn mikinn pening en vinna þeirra er þó ábatameiri, þökk sé vélunum.³

 

Einu sinni var þetta kannski gott fyrirkomulag.4 Í það minnsta leiddi það til þess að meira er framleitt og fjölbreytni í vöruúrvali jókst. Í nútímanum hins vegar er þetta fyrirkomulag ekki gott. Við framleiðum of mikið – svo mikið að fyrirtækin þurfa að auglýsa í gríð og erg til að koma vörum úr hillum sínum.5 Og náttúran fær að gjalda þessa alls í formi mengunar vegna framleiðslu, umbúða og auðvitað förgunar á ónýtum vörum eða vörum sem voru aldrei nýttar; allt endar þetta í náttúrunni.

Svo mikil er framleiðslugetan orðin að innan nokkurra áratuga munu fágætar málmtegundir klárast; svo hröð er nýting þeirra. Ný álver og virkjanir þegar allsnægtin er alger og offramleiðsla er staðreynd, er út úr kortinu. Lífsgæði okkar hér á Íslandi aukast ekki við aukna framleiðslu og hafa ekki gert í nokkurn tíma.6

Það er kominn tími á að breyta því hvernig fyrirtækin virka. Í staðinn fyrir að það sé þeirra hagur að framleiða sífellt meira með æ færra starfsfólki, þá þurfum við að breyta þeim þannig að það sé þeim í hag að halda fólki í vinnu þrátt fyrir tæknibreytingar en geta jafnframt stytt vinnudag þess og haldið framleiðslugetu svipaðri.

 

Það sem við þurfum líka að gera er að dreifa vinnunni á fleiri hendur, og þannig fjölga störfum – en ekki byggja nýjar verksmiðjar sem framleiða meira af dóti. Við þurfum ekki að „skapa“ ný störf – heldur dreifa þeim sem eru til þegar á fleiri hendur.7 Þannig getum við dregið úr offramleiðslu, hægt á eyðileggingu náttúrunnar og unnið minna. Vandamál offramleiðslunnar verðum við að tækla líka auðvitað.

 

Það sem við þurfum eru lýðræðisleg fyrirtæki sem starfsmenn þeirra eiga, reka og hugsa um. Fyrirtæki sem hafa hag starfsmanna sinna að leiðarljósi, en ekki hag hluthafa. Fyrirtæki þar sem allir starfsmenn hafa jafnan atkvæðisrétt og jafnt vægi. Þannig getum við nýtt mátt tækninnar til að stytta vinnudaginn fyrir alvöru og án meiriháttar árekstra.

 

Athugasemdir:

1. Byggt á gögnum af vefsíðu Hagstofu Íslands og úr Hagskinnu.

2. Hagstofa Íslands. Vinnumarkaður 2010. Hagtíðindi: Laun, tekjur og vinnumarkaður. 2011 (3). Reykjavík: Hagstofa Íslands.

3. Sú mynd sem hér er reynt að draga upp er vissulega einfölduð, því það eru fleiri möguleikar fyrir fyrirtæki en að segja fólki upp og þeir eru stundum nýttir. Hins vegar eru uppsagnir í kjölfar vélvæðingar vel þekkt fyrirbæri – til dæmis skrifaði Karl Marx um það á 19. öld.

4. Ekki fyrir einstaklingana, heldur fyrir þróun hagkerfisins í heild.

5. Heimildarmyndir Adam Curtis fjalla meðal annars um þetta.

6. Sjá Prosperity without growth eftir Tim Jackson.

7. Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni; henni var haldið á lofti meðal annars af breska hagfræðingnum John Maynard Keynes á fjórða áratug síðustu aldar.