Mikill stuðningur er við að almenningur fái að taka þátt í að ákveða framtíðarskipan bankakerfisins á lýðræðislegan hátt, t.d. með slembivöldu borgaraþingi, áður en ákvörðun um einkavæðingu bankanna verður tekin. Þetta kemur fram í könnun sem MMR vann fyrir Öldu, félag um sjálfbærni og lýðræði. Í könnuninni kemur einnig fram mikill stuðningur við stofnun samfélagsbanka á grunni Landsbankans og rík andstaða við einkavæðingu bankanna.

Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, sendi forsætisráðherra bréf síðastliðið haust þar sem stjórnvöld voru hvött til að hefja ekki sölu á hlut ríkisins í Landsbanka og Íslandsbanka fyrr en að loknu vönduðu lýðræðislegu ferli þar sem almenningi yrði gefið tækifæri til að ákveða framtíð bankakerfisins með slembivöldu borgaraþingi, skoðanakönnunum og þjóðaratkvæðagreiðslu. Í könnun MMR, sem var gerð í febrúar, segjast 65% vera fylgjandi slíku ferli.

Í sömu könnun segjast 62% aðspurðra vera andvíg einkavæðingu Landsbanka og Íslandsbanka en 19% fylgjandi. Þá eru 58% hlynnt því að Landsbankanum verði breytt í samfélagsbanka en 15% eru því andvíg.

Þetta er enn ein skoðanakönnunin sem bendir til að áform ríkisstjórnarinnar um sölu á hlut í bönkunum gangi þvert gegn vilja almennings, en að mati stjórnar Öldu er mikilvægt að sem ríkust sátt sé um bankakerfið nú þegar áratugur er liðinn frá hruni þess. Vegna efnahagsþrenginga í tengslum við COVID19 faraldurinn hefur Bankasýsla ríkisins afturkallað tillögu sína um að hefja sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar af leiðandi gefst ríkisstjórninni nú gott tækifæri til að endurskoða stefnu sína og hefja í hennar stað lýðræðislegt ferli um framtíð bankakerfisins sem meirihluti þjóðarinnar getur sameinast um.

Könnun MMR í heild sinni.