Í fyrri pistili var fjallað um vinnustundir á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin og önnur lönd í heiminum. Var þar minnst á að mikil vinna sé neikvæð. Hér verður fjallað stuttlega um rannsókn á áhrifum vinnunar á íslensk heimili og á vinnuálagi, og aðeins fjallað um styttingu vinnudags í öðrum löndum.
Áhrif langs vinnudags
Í alþjóðlegri rannsókn sem var gerð fyrir fáum árum kom tvennt afar áhugavert í ljós: Í engu öðru þátttökulandi rannsóknarinnar voru fleiri (hlutfallslega) sem sögðust koma of þreyttir úr vinnu nokkrum sinnum í mánuði (eða oftar) til að sinna heimilislífi, en einmitt á Íslandi. Í aðeins tveimur löndum voru fleiri sem játtu því að þeim gengi illa að klára öll verkefni í vinnunni, en hér á landi. Hér ber að hafa í huga að þátttökulöndin voru fjölmörg; öll Norðurlöndin, mörg önnur Evrópulönd, Bandaríkin, Ástralía, Nýja-Sjáland og fleiri til.1
Það er ábyggilega engin tilviljun að hér sé unnið mjög mikið – meira en í nágrannalöndunum og mikið á heimsvísu, og þess að fólk sé þreytt vegna vinnunnar, þreyttara en í fjölmörgum öðrum löndum. Orsakasamhengið er ekki baralíklegt, heldur næstum augljóst.
Hugum að því af hverju fólki gengur illa að klára verkefnin í vinnunni. Nú er það svo að framleiðni á Íslandi – þ.e., hversu mikið er framleitt á hverri unninni klukkustund – er öllu minni en á öðrum Norðurlöndum, minni en í mörgum öðrum Evrópulöndum og minni en í Bandaríkjunum. Þau lönd sem fylgja fast á eftir Íslandi í þessum efnum eru einkum lönd í Austur- og Suður-Evrópu.2 Getur verið að þetta tvennt – erfiðleikar við að klára verkefnin og léleg framleiðni – sé vegna þess að á Íslandi sé vinnuskipulag – hvernig vinnan er unnin – verra en á öðrum Norðurlöndum og verra en í ýmsum öðrum löndum, t.d. Þýskalandi og Frakklandi? Það er mjög líklegt.
Stytting – áhrif og fordæmi
Stytting vinnudags ætti að hafa mjög jákvæð áhrif á heimilislíf. Færri ættu að verða þreyttir eftir vinnudaginn og fleiri stundir ættu að vera til staðar fyrir fjölskyldu og vini.
Það yrðu líka önnur áhrif, áhrif á sjálfa vinnuna. Eitt af því sem gerist yfirleitt samhliða og/eða í kjölfar styttingar vinnudagsins er að skipulagi vinnunnar er breytt.3 Það sem gerist þá yfirleitt er að afköst aukast á hverri unninni klukkustund. Þetta er vel þekkt mynstur. Þetta myndi hafa þau áhrif að færri myndu vera í vandræðum með að klára verkefnin í vinnunni, en áður, sem myndi svo áreiðanlega auka starfsánægju.
Vinnudagurinn hefur lítið styst á Íslandi undanfarin 30 ár. Meðalmaðurinn vann um sjö vinnudögum minna (að meðatali) árið 2008 en árið 1980.4 Í ýmsum öðrum löndum hefur hins vegar verið gripið til aðgerða til að stytta vinnudaginn, á þessu sama tímabili. Þekkt dæmi eru Þýskaland og Frakkland. Önnur dæmi eru S-Kórea og Bretland.5
Í stuttu máli þá hefur reynslan af styttingu vinnudagsins yfirleitt alltaf verið jákvæð. Slík stytting hefur yfirleitt ekki haft neikvæð áhrif á atvinnu, viðskipti – hagkerfið almennt.6
Því má líka bæta við að ýmsir fortíðarmenn okkar sáu fyrir sér að vinnudagurinn sem við myndum vinna, væri gerólíkur þeim sem við vinnum í dag. Einn þessara manna var enski hagfræðingurinn John Maynard Keynes. Hann skrifaði ritgerð sem ber titilinn, upp á íslensku, „Möguleikar barnabarna okkar til lífsviðurværis“, en ritgerðin var skrifuð árið 1930 þegar kreppan mikla var byrjuð að herja á heimsbyggðina.7 Hann sá fyrir sér að vinnudagurinn myndi styttast smám saman, þar til, um það bil árið 2030, að hann yrði í hinum þróaða heimi, um það bil þrjár stundir. Við hér á Íslandi erum heldur betur langt frá því. Trúlega er þetta engu að síður mögulegt – en þá þarf líka mjög margt að breytast.
Hvað svo sem líður framtíðardraumum Keynes, er eitt víst: Við getum og ættum að stytta vinnudaginn, sjálfra okkar vegna – sem og afkomenda okkar vegna. Verkalýðsfélögin þurfa nú þegar að taka við sér og hefja baráttu fyrir skemmri vinnudegi. Er þitt verkalýðsfélag að gera eitthvað í málinu?
Þessi pistill birtist áður á vefnum Innihald.is.