Tvennt einkennir allt sem snertir vinnutíma á Íslandi.
Annað er stöðnun: Vinnutími hefur lítið haggast undanfarna áratugi, ef horft er fram hjá tímabundinni styttingu á vinnutíma í kjölfar hrunsins. Sú tímabundna stytting var gerð til að spara peninga (yfirvinnubann og svo framvegis). Hitt er að umræða um vinnutíma er í skötulíki. Yfirleitt er rætt um vinnutíma eins og það sé ómögulegt að stytta hann, eða þá að það sé óheppilegt að hann hafi styst frá hruni! Einstaka raddir heyrast sem vilja styttingu, eins og til dæmis BSRB.
Núna nýlega bættist Seðlabanki Íslands í hópinn sem telur óheppilegt að vinnutíminn hafi styst. Aðalhagfræðingur bankans gerðist svo frakkur að segja, að það væri veikleikamerki á vinnumarkaðnum að vinnutími hafi styst. Átti hann við örstyttingu sem kom fram á þessu ári. Hann sagði í útvarpsviðtali á RÚV: „… miðað við nýjustu tölur .. er eins og [vinnumarkaðurinn] sé heldur að veikjast. Reyndar er fjöldi þeirra sem eru í vinnu að aukast, sem er jákvætt. En meðalvinnutíminn er að styttast, þannig að heildarvinnutíminn hefur minnkað. …“
Sú stytting sem hagfræðingurinn á þarna við er upp á 1-2%, sem jafngildir eitthvað um 20-30 vinnustundum yfir heilt ár (sjá hér). Vandamálið er í sjálfu sér ekki að vinnutími hafi styst, því það er gott að vinnutími hafi styst og við eigum að stytta vinnutímann enn meira. Vandamálið er að laun duga ekki fyrir útgjöldum. Þar liggur vandinn og á þann vanda þarf að ráðast. Það þarf að ráðast á báðar hliða þess vanda. Annars vegar draga úr útgjöldum, t.d. hvað varðar aukna skuldabyrði sem hefur aukist gríðarlega á undanförnum áratugum. Og hins vegar þarf að tækla misskiptinguna í kjörum sem viðgengst í landinu. Það mætti til dæmis gera með langtímasamningum sem hljóða upp á launahækkun og vinnutímaskerðingu.
Þá var sagt frá því í fréttum RÚV í gær að vinnudagurinn „sé oft langur og gott að þurfa ekki að sitja á skrifstofunni fram á kvöld.“ Það sé því kostur að geta tekið vinnuna með sér heim, en vandinn sé að fólki hætti til að kluna út í starfi vegna þess. En hvað um að stytta bara vinnutímann? Væri það ekki ráð? Þá þarf fólk ekki að taka vinnuna með sér heim.
Þetta er mjög einfalt mál: Vinnum minna og þá leysast þessi vandamál og fjölmörg önnur.
-Guðmundur D. Haraldsson