Aðgengi að upplýsingum skiptir miklu máli. Upplýsingar eru undirstaða upplýstrar umræðu. Án þeirra er engin vitneskja um stöðu mála. Engin umræða. Það er því mjög brýnt að aðgengi að upplýsingum um starfsemi hins opinbera sé tryggt. Svo er ekki í dag.

Í raun er það ótrúlegt að aðgengið sé ekki tryggt fyrir almenning. Í lýðræðisríkjum er almenningur valdhafinn. Hið opinbera starfar fyrir almenning og í umboði hans. Fulltrúar almennings eru fulltrúar sem sinna verkum fyrir almenning. Almenningur á því skýlausan rétt á aðgengi að öllum upplýsingum hins opinbera nema brýnni hagsmunir komi þar til sem vegi þyngra, t.d. hagsmunir sem snerta mannréttindi einstaklinga eða aðrir hagsmunir almennings (s.s. vegna opinna rannsókna lögreglu).

Það er vel þekkt að margsinnis hefur beiðnum um aðgang að upplýsingum verið synjað á annars konar forsendum en þeim sem hér voru raktar. T.d. hvað varðar ákvarðanir í stórum málum eins og einkavæðingu bankanna. Og þá er almenna reglan sú að hvað varðar t.d. fundargerðir ráðuneyta og stofnana á almenningur ekki rétt á þeim þótt stjórnvöldum sé heimilt að veita aðgang, en þeim er það í sjálfsvald sett. Í slíkum fundargerðum má vænta að sé að finna mikilvægar upplýsingar um framkvæmd laga og reglna.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp að nýjum upplýsingalögum. Í því frumvarpi er réttur almennings til aðgengis að upplýsingum ekki tryggður. Þar eru enn undanþegin fjölmörg gögn sem eru mikilvæg almenningi og engin ástæða til að takmarka aðgengi að. Alda sendi inn umsögn þar sem þess var krafist að aðgengið yrði tryggt, og fulltrúar Öldu fóru fyrir þingnefnd vegna málsins.

Á fundi þingnefndar voru Öldu og Blaðamannafélagi Íslands gefnar 15 mínútur saman til umræðu um málið. Á fundinum kom skýrt fram af hálfu þingmanna  að ekki var vilji til þess að ganga alla leið í því að tryggja aðgengi að upplýsingum. Það sem kom á óvart var að þingmenn töldu að t.d. sjónarmið stjórnsýslunnar hefðu sérstakt vægi gagnvart sjónarmiðum og hagmunum almennings. Það er einfaldlega rangt. Stjórnsýslan starfar fyrir almenning og sjónarmið hennar þarf að meta í því ljósi hvort þau séu í takti við hagsmuni almennings. Stangist hagsmunir almennings og stjórnsýslu á vega hagsmunir almennings alltaf þyngra.

Á fundi þingnefndar kom m.a. fram hjá þingmönnum að verið væri með frumvarpinu að stytta heimild til að loka aðgangi að gögnum í ákveðnum tilvikum úr 30 árum í átta. Og töldu þingmenn að með því væri verið að taka skref í rétta átt. Fulltrúar Öldu á fundinum töldu þetta ranga nálgun. Það er engin ástæða til þess að hafa núverandi lög sem núllpunkt og semja sig frá honum í átt að því sem er rétt. Fulltrúum almennings ber einfaldlega að gera rétt og gæta þess að upplýsingalög tryggi skýlausan rétt almennings.

Vissulega er mikilvægt að vanda til verka hvað lögin varðar. Það þarf að skýra vel og nákvæmlega hvaða undantekningartilfelli kunni að vera málefnaleg og í þeim tilvikum takmarka aðgengi almennings eins lítið og mögulegt er. Þá þarf að tryggja að skráningarskylda hins opinbera sé fullnægjandi þannig að mikilvægar upplýsingar séu vel og vandlega skráðar. Þetta skiptir miklu máli og engin ástæða til annars en að vanda vel til verka. Það er hins vegar ástæðulaust að gera breytingar á upplýsingalögum með önnur markmið í huga en að gæta að fullu hagsmuna almennings.

Kristinn Már Ársælsson og Björn Þorsteinsson.