Við lifum á tímum þar sem verður sífellt betur greinilegt að loftslagsbreytingar eru raunverulegar og af völdum athafna fólks og heilu samfélaganna. Vísindasamfélagið, með Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í fararbroddi, hefur lýst því yfir að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að loftslagsbreytingar eigi sér stað vegna síaukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda og losunin komi til vegna mannlegra athafna. Það sé okkar sjálfra að stöðva frekari loftslagsbreytingar. Meginspurning okkar tíma er: Hvernig förum við að því?
Vísindafólk leggur þráfaldlega áherslu á að hegðunarbreytingar séu nauðsynlegar sem og tækniþróun til að draga úr framtíðarlosun gróðurhúsalofttegunda. Í skýrslu frá Milliríkjanefndinni frá því fyrr á árinu segir: „Minni ójöfnuður og samdráttur á neyslu á þjónustu og varningi sem sýnir fram á félagslega stöðu og að beina þess í stað sjónum að velsæld styður við aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingar“. Tæknibreytingar eru líka nefndar: „Rafbílar, yfir heildarlíftíma þeirra, bjóða upp á hvað mesta möguleika til að draga úr losun loftslagsbreytandi lofttegunda í flutningum á landi, sé rafmagnið framleitt með lítilli losun [gróðurhúsalofttegunda]“. Stjórnmálaumræða á Vesturlöndum, meðal valhafa, snýst að miklu leyti um þetta síðarnefnda: Tæknilausnir, einkum orkuskipti í flutningum, jafnvel þótt flutningar séu aðeins uppspretta 15% heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Stefnt er að orkuskiptum í öðrum geirum einnig, en áherslan er minni. Umræða um breytingar á neyslumynstri er nokkur en hefur ekki náð því að verða trúverðug í stjórnmálunum, ólíkt orkuskiptum, og er síður til umræðu meðal valdhafa. Þó er augljóst af framangreindu að vísindasamfélagið tekur hegðunarbreytingar alvarlega, þær geti hjálpað okkur mikið.
Þá hafa fræðimenn bent á að tæknibreytingar einar og sér dugi varla til að stöðva loftslagsbreytingar. Þeir benda á að jafnvel þótt ný tækni komi fram sem hefur í för með sér minni losun gróðurhúsalofttegunda sé tilhneigingin sú að meiri neysla fylgi í kjölfarið, sem valdi því að losunin eykst og jafnvel svo mikið að áhrifin af tækninýjungunum þurrkist alveg út. Þetta á til dæmis við um flugiðnaðinn, þar sem hafa átt sér stað stórskrefa framfarir í orkunýtni, en stóraukin flugumferð hefur fylgt í kjölfarið sem orkunýtnin drífur að hluta til áfram og veldur aukinni losun í flugiðnaðnum í heild sinni. Tækni- og hegðunarbreytingar verði að fylgjast að til að stöðva loftslagsbreytingar.
Ástæður þess að breytt hegðunarmynstur er ekki tekið nægilega alvarlega er væntanlega af tvennum toga: Fólk áttar sig illa á hvernig það sé gerlegt og hver áhrifin geti orðið, en líka að hugsunin er fjarlæg okkur. Hér vil ég gera tilraun í stuttu máli til að varpa ljósi á hver ábatinn af hegðunarbreytingum geti orðið, bæði með tilliti til loftslagsbreytinga og okkar eigin líðan.
Hegðun og loftslagsbreytingar
Hegðun fólks er svo nátengd loftslagsbreytingum því nánast allt sem við gerum kallar á losun gróðurhúsalofttegunda. Ræktun og framleiðsla á matvælum, ferðalög, framleiðsluvarningur og flutningar og svo framvegis – nánast allt kallar á losun, jafnvel víðsfjarri neytandanum. Sumt hefur í för með sér mun meiri eða minni losun en annað. En takist heilu samfélögunum að skipta yfir í annað neyslumynstur, sem hefur í för með sér minni losun en hið fyrra, mun það hafa merkjanleg áhrif á hraða loftslagsbreytinga til bóta. Í bland við tæknibreytingar geta áhrifin verið enn stærri.
Hagfræðingar og félagsfræðingar hafa undanfarin ár lagt fram tillögur sem miða að annars konar hegðun samfélaga og eru í þeim anda sem birtist í tilvitnunni í skýrslu Milliríkjanefndarinnar að framan. Viðfangsefnið er langt í frá að vera einfalt, því mistök geta þýtt minni lífsgæði. Juliet Schor og Tim Jackson eru meðal þessa fræðafólks. Þau leggja til að heilu samfélögin muni verja aukinni afkastagetu hagkerfa þeirra – framleiðni sem kallað er og eykst almennt, ár frá ári – til að stytta vinnutíma og að þetta verði gert hægt og rólega yfir langan tíma, áratugi. Með þessu móti myndi neysla á hvern mann hætta að aukast sífellt og ná stöðugleikapunkti. Þetta þýðir jafnframt að losun gróðurhúsalofttegunda hættir að aukast af völdum meiri neyslu. Í bland við tækni sem losar minna af gróðurhúsalofttegundum væri samdráttur losunar mögulegur. Í stuttu máli: Í stað þess að neyta meira og vinna jafn mikið eða meira, myndum við neyta jafn mikið og vinna minna. Við eftirlétum tækninni meira af vinnunni, öðluðumst meiri frítíma, og fórnuðum til þess meiri neyslu framtíðar. Lífsmynstrið myndi breytast.
Hugsun Jackson og Schor er að nýtt lífsmynstur komi m.a. fram í gegnum kjarasamninga og ný gildi. Þetta kann að virðast fjarlægt okkur, því við erum svo vön sívaxandi neyslusamfélagi. Í reynd er nútíma neyslusamfélag aðeins um sjötugt og mótanlegt, og þá hefur aukin framleiðni oft verið nýtt til að stytta vinnutímann. Við höfum nú tækifæri til að gera enn meira af því að nýta aukna framleiðni til að stytta vinnutímann en við höfum gert síðastliðna áratugi, vinna þannig gegn loftalagsbreytingum og getum í leiðinni aukið lífsgæði okkar með meiri frítíma, hvort sem er í þágu fjölskyldulífs, vinskapar eða áhugamála.
Guðmundur D. Haraldsson, stjórnarmaður í Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði.
Greinin birtist fyrst í 4. tölublaði tímarits Sameykis 2022.