I. kafli. Markmið og tilgangur
1. gr. Félagið skal heita Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði. Er varnarþing þess í Reykjavík.
2. gr. Félagið skal berjast fyrir lýðræði og sjálfbærni á innlendum og erlendum vettvangi, innan og utan fyrirtækja og hvar annars staðar sem þörf er talin á slíkum umbótum á hverjum tíma. Félagið skal einnig berjast fyrir efnahagslegum og félagslegum umbótum sem styrkja og styðja lýðræði og félagslega þátttöku. Félagið skal efna til samstarfs við ríkisvald, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til að koma markmiðum sínum áleiðis.
II. kafli. Félagsmenn
3. gr. Öllum skal heimil full félagsaðild sem þess óska enda fylgi þeir félaginu að málum. Stjórn félagsins skal meta það sérstaklega í hverju tilviki hvort rétt sé að samþykkja aðild barna yngri en 15 ára að félaginu.
III. kafli. Aðalfundur
4. gr. Reglulegan aðalfund skal halda árlega á tímabilinu 15. september til og með 15. október. Boðað skal til fundarins með 10 daga fyrirvara á vefsvæði félagsins og með tölvupósti til félagsmanna.
5. gr. Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera á þessa leið:
1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar
3. Framlagning reikninga
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
5. Lagabreytingar
6. Kosning kjörnefndar
7. Kosning stjórnar
8. Önnur mál
Kjörskrá á aðalfundi skal miðast við félagatal félagsins eins og það var þegar gengið er til kosninga. Kjörnefnd skal skipuð þremur mönnum sem hafa umsjón með framkvæmd kosningar til stjórnar. Gera má tillögu að kjörnefnd sem telst samþykkt ef enginn hreyfir andmælum. Sé hreyft við andmælum skal slembivelja í kjörnefnd úr félagsmönnum á aðalfundi.
Samþykki aðalfundar þarf til breytingar dagskrár. Lagabreytingatillögur skulu berast félaginu a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynntar á vefsvæði félagsins. Tillögur sem bornar eru fram á aðalfundi skal taka til umfjöllunar ef aðalfundur samþykkir eða ef sjö félagsmenn lýsa yfir stuðningi við tillöguna. Ákvæði þetta takmarkar ekki heimild aðalfundar til þess að breyta fram komnum tillögum.
Allar kosningar á aðalfundi skulu vera bundnar og skriflegar sé þess óskað. Jafnan skal kosið með handauppréttingum og ræður einfaldur meirihluti úrslitum. Framboð til stjórnar skulu berast stjórn félagsins a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynnt á vefsvæði félagsins a.m.k. fjórum dögum fyrir aðalfund.
IV. kafli. Stjórn
6. gr. Í stjórn félagsins skulu sitja 5 manns, kjörin úr hópi félagsmanna. Sé þess óskað á aðalfundi félagsins af hálfu að minnsta kosti 20 félagsmanna, þá bætast við tveir slembivaldir stjórnarmenn úr röðum félagsmanna, ellegar fer slembivalið ekki fram. Félagsmönnum býðst að óska þess að vera ekki með í slembivalinu áður en valið fer fram. Nýkjörin stjórn framkvæmir slembivalið að loknum aðalfundi. Slembival skal nota til jöfnunar á hlutfalli kynja sé þess þörf. Stjórnarmenn eru talsmenn félagsins og bera ábyrgð á starfsemi þess. Kosning stjórnar skal vera skriflega. Stjórnarmenn eru kjörnir úr hópi félagsmanna og stjórn skiptir með sér verkum. Hætti þrír stjórnarmenn eða fleiri stjórnarmenn milli aðalfunda skal boða til félagafundar þar sem kosnir eru jafn margir nýir stjórnarmenn og sagt höfðu af sér; nema 30 dagar eða skemmri tími séu þar til heimilt er að boða til aðalfundar.
7. gr. a. Stjórn félagsins fer með málefni og stjórn félagsins á milli aðalfunda og félagafunda. Er stjórn félagsins bundin af lögum félagsins, samþykktum aðalfundar og almennra félagsfunda eftir atvikum. Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Stjórnarfundi skal boða með tveggja sólarhringa fyrirvara. Óski tveir stjórnarmenn eða fleiri eftir því skal boða til stjórnarfundar. Allir stjórnarfundir félagsins skulu opnir félagsmönnum og skulu allir félagsmenn njóta málfrelsis og tillöguréttar á stjórnarfundum. Geta félagsmenn óskað eftir að mæta á stjórnarfund með einfaldri beiðni. Á stjórnarfundum hafa allir viðstaddir félagsmenn atkvæðisrétt og ræður einfaldur meirihluti. Stjórn félagsins skal jafnframt tryggja að haldin sé fundargerð fyrir stjórnarfundi sem greinir frá öllu því sem þar fer fram. Skal félagsmönnum heimilt að kynna sér efni fundargerða stjórnar.
7. gr. b. Viðstöddum stjórnarmanni á stjórnarfundi er heimilt að vísa ákvörðunum stjórnarfundar, sem hann telur stangast á við samþykktir félagsins, til félagafundar og tekur ákvörðunin þá ekki gildi fyrr en með staðfestingu félagafundar en fellur annars úr gildi. Halda skal félagafund innan tveggja vikna. Óski fimm eða fleiri félagsmenn eftir að stjórnarfundur sé haldinn skal það gert. Geta félagsmenn jafnframt krafist þess að tiltekið málefni verði tekið fyrir á stjórnarfundi.
8. gr. Stjórn félagsins skal kappkosta að rækja hvers konar starfsemi sem líkleg er til þess að efla félagið og styrkja málsstað þess. Í þessu skyni er stjórn félagsins er heimilt að ráða til félagsins einstaklinga eða lögaðila, gegn greiðslu, til að leysa af hendi verk, hvort sem er til skamms tíma eða langs tíma, stakt verk eða mörg verk. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um ráðningu og slit á samstarfi við slíka samstarfsaðila.
V. kafli. Almennir félagafundir
9. gr. Nú óska átta félagsmenn þess að haldinn sé almennur félagafundur og skal stjórn félagsins þá boða til slíks fundar innan tveggja vikna. Til að óskin teljist gild þurfa meðlimirnir að hafa verið félagar í að minnsta kosti sex vikur. Í beiðni félagsmanna skal koma fram hvaða málefni taka skal fyrir og óskir þeirra um mögulega framsögumenn, staðsetningu eða önnur atriði sem máli skipta. Er stjórn félagsins bundin af fyrirmælum félagsmanna nema á þeim séu augljósir annmarkar eða ómögulegt sé að verða við þeim. Getur stjórn ákveðið eða aðrir félagsmenn en þeir sem eftir fundinum óskuðu farið fram á að fleiri málefni verði tekin á dagskrá almenns félagafundar. Skal það gert með hæfilegum fyrirvara.
10. gr. Félagafundir skulu hefjast á því að valinn sé fundarstjóri og eftir atvikum fundarritari. Skal reyna eftir megni að fela ólíkum félagsmönnum fundarstjórn.
VI. kafli. Aðgengi að fundum
11. gr. Allir fundir félagsins skulu vera aðgengilegir sem flestum. Sérstaklega skal taka tillit til hvers kyns fötlunar, veikinda og tungumáls. Þeim stjórnarmanni eða hópstjóra sem boðar fundinn ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að auka aðgengi að fundinum. Sjá til þess að fundurinn sé á stað sem er aðgengilegur hreyfihömluðum, að viðunandi aðstoð sé í boði fyrir þá sem slíkt þurfa. Í upphafi hvers fundar skal kosið um hvaða tungumál skuli nota og þá skal það haft til hliðsjónar að sem flestir geti tekið þátt í samræðu og ákvarðanatöku. Fundinn ber að túlka ef þess er óskað og möguleiki er að verða við því.
VII. kafli. Samþykkt um fjárhagsmálefni
12. gr. Öldu skal heimilt að taka við fjárframlögum frá innlendum og erlendum aðilum til starfsemi félagsins. Berist Öldu framlag frá óþekktum aðila skal gefa styrkinn til líknarsamtaka skv. ákvörðun stjórnar enda sé hann hærri en 10.000 krónur og ómögulegt að komast að því hver gefandinn sé. Hið sama á við ef samanlögð fjárhæð styrkja frá óþekktum aðilum fer yfir 10.000 krónur á hverju almanaksári.
13. gr. a. Heimilt skal að taka við sértækum styrkjum sem nema allt að 750.000 krónum á ári frá einstaklingum og lögaðilum eða sem nemur jafngildi þess. Móttaka hærri framlaga skal þá og því aðeins heimil að gefandinn deili markmiðum Öldu eða að með öðrum hætti sé ljóst að styrkurinn muni ekki hafa áhrif á stefnu eða markmið félagsins. Skal stjórn fjalla sérstaklega um móttöku slíkra styrkja eða boða til almenns félagsfundar til þess að ræða styrkveitinguna. Móttaka framlaga yfir 2.500.000 krónum skal ætíð hljóta samþykki félagsfundar. Þegar metin er hámarksupphæð skal telja saman einstaklinga og hlutafélög sem hann tengist. Telja skal veitta afslætti, eftirgjöf krafna og allan annan tilflutning á verðmætum sem styrk í þessu samhengi.
13. gr. b. Heimilt skal að taka við almennum framlögum frá almenningi og lögaðilum sem nemur samtals allt að 2.500.000 krónum á ári í heildarframlögum til Öldu. Fjárframlög teljast eingöngu almenn ef almennir borgarar sem og félagsmenn Öldu geta veitt fjárframlögin með aðgengilegum hætti, svo sem í gegnum vefsíðu félagsins. Hámarksupphæð á hvern og einn einstakling sem veitir slíka styrki skal vera 500.000 krónur á ári eða jafngildi þess. Stjórn Öldu er ekki skylt að fjalla um framlög sem þessi í hvert sinn.
13. gr. c. Heimilt skal að taka við fjárframlögum sem greiðslu fyrir tiltekin verkefni sem félagið leysir af hendi, sem og styrkjum sem stjórn félagsins hefur samþykkt að sækja um úr styrktarsjóðum. Ekkert hámark er á slíkum fjárframlögum, en stjórn félagsins metur hverju sinni hvort fjárframlag teljist eðlilegt fyrir hvert og eitt verkefni eða styrk.
14. gr. Félagsmenn skulu ávallt hafa aðgang að upplýsingum um styrktarmenn félagsins, form styrksins og verðmæti hans. Alda skal jafnframt birta opinberlega lista yfir styrktaraðila og verðmæti styrkja.
15. gr. Reikningar Öldu skulu útbúnir með skýrum og greinargóðum hætti. Í þeim skal getið um samtölu styrkja. Skal jafnframt getið um styrki sem ekki hafa áhrif á reikninga félagsins svo sem notað lausafé eða aðrar gjafir sem erfitt er að telja sem fjárhagsleg verðmæti. Skal fylgja ársreikning listi yfir styrkveitendur.
16. gr. Verði rekstrarafgangur af starfsemi Öldu skal hann færður í sjóði félagsins. Skal við slit félagsins gefa þá fjármuni sem Alda kann að eiga til líknarfélaga. Endurvinnanlegu lausafé skal koma til endurvinnslu.
17. gr. Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Skal prókúruhafi félagsins hafa samráð við aðra í stjórn um greiðslur reikninga. Prókúruhafi varðveitir bókhald félagsins. Á stjórnarfundum skal greint frá greiðslum til og frá félaginu.
Ofangreind lög voru samþykkt á aðalfundi Öldu, 19. maí 2024.
[…] ATH. Vert er að vekja sérstaklega athygli á að í stjórn eru kjörnir sjö manns og tveir slembivaldir eftir aðalfundinn. *Allir félagsmenn eru með í slembivalinu*, nema að þeir óski þess sérstaklega að segja sig frá því (með því að senda póst þess efnis með nafni og kennitölu á aldademocracy@gmail.com. Dagskrá fundar er skv. lögum félagsins <http://alda.is/?page_id=17> […]