1. Fundur settur

Fundur settur kl. 14:19 þann 19. maí 2024 í Hafnarhúsi, Tryggvagötu 17, Reykjavík. Mætt voru: Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð), Sævar Finnbogason, Þorvarður B. Kjartansson, Jón T Unnarson Sveinsson, Alina Vilhjálmsdóttir og Laufey Þorvarðardóttir. Gundega Jaunlinina forfallaðist.

2. Kosning fundarstjóra

Guðmundur D. Haraldsson var kjörinn fundarstjóri.

3. Samþykkt um afbrigði

Þar eð fundurinn er haldinn utan hefðbundins tíma aðalfundar skv. 4. gr. laga félagsins er þess óskað að fundarmenn samþykki afbrigði við lögin til að fundurinn geti fram haldið.

4. Skýrsla stjórnar fyrir tímabilið 2020 til 2024

Undanfarin ár hefur stjórn félagsins lagt áherslu á verkefni um samfélagsbanka og skemmri vinnuviku, að leggja rækt við alþjóðlegt samstarf við erlend félög, og veita umsagnir um mál sem varða stefnumál félagsins til Alþingis og ráðuneyta.

Stjórn félagsins:

 Ný stjórn tók við 19. október 2020, og kom Anna Margrét Pétursdóttir þá inn í stjórnina í stað Snædísar Björnsdóttur, en aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér áfram. Að þessu sinni gefa Guðmundur D. Haraldsson, Sævar Finnbogason og Þorvarður B. Kjartansson kost á sér áfram en aðrir úr stjórn gefa ekki kost á sér.

Stjórnarfundir: 

  • Stjórn félagsins vinnur mikið saman að stefnumálum félagsins í gegnum síma og eftir öðrum leiðum, formlegir stjórnarfundir eru þó haldnir þegar þurfa þykir. Má reikna með að áframhald verði á þessu mynstri.

Vefur félagsins:

  • Vefsíða félagsins hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun. 
  • Efnissíður um lýðræði, sjálfbærni og hagkerfi, og um vinnutíma hafa verið endurskrifaðar að mestu. Ný efnissíða um samfélagsbanka hefur litið dagsins ljós. Efnissíðan um Öldu sjálfa hefur verið endurskrifuð. 
  • Flokkakerfið hefur verið yfirfarið með það fyrir augum að fækka flokkum og efnisorðum til einföldunar. 

Viðburðir:

  • Þann 12. febrúar 2020 stóðu Alda, Varða, ASÍ og BSRB fyrir opnum fundi um samfélagsbanka. Lydia Prieg,  aðalhagfræðingur bresku hugveitunnar New Economics Foundation, og Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum og fulltrúi í fjármálaráði, fluttu erindi.
  • Félagið hélt opna málstofu þann 22. júní 2022 í Veröld – húsi Vigdísar, um siðferðileg viðmið og gagnsæi í starfi félagasamtaka. Málstofan var haldin í samstarfi við aðrar stofnanir og félagasamtök (sjá neðar).
  • Haldin var opin framhaldsmálstofa þann 18. september 2022 á Teams  í samvinnu við samtökin Almannaheill þar sem áfram rætt var um siðareglur félagasamtaka.

Útgáfa:

  • Alda og breska hugveitan Autonomy gáfu í júlí 2021 út fyrstu greinargóðu skýrsluna á ensku um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar sem voru rekin á Íslandi á árunum 2015 til 2019. Um er að ræða tilraunaverkefni hjá bæði Reykjavíkurborg og ríkinu. Skýrslan vakti athygli fjölmiðla um allan heim.
  • Upptökur frá ráðstefnu um styttingu vinnuvikunnar árið 2020 voru birtar á vefnum.
  • Félagið hefur hægt og rólega tekið að mæla fyrir fjögurra daga vinnuviku og tengslum á milli vinnu og loftslagsbreytinga – sjá greinar á vef félagsins. Félagið hefur vakið athygli á þeim tilraunaverkefnum sem eru í gangi erlendis um fjögurra daga vinnuviku.
  • Alda hefur undanfarið vakið athygli á kostum samfélagsbanka í opinberri umræðu (sjá einnig hér).

Áskoranir: 

  • Í tengslum við stjórnarmyndun haustið 2021 hvatti Alda stjórnmálaflokka og ráðamenn til að koma upp þverfaglegum umræðuvettvangi fræðimanna, fulltrúa stéttarfélaga, atvinnulífsins og félagasamtaka, sem og alþjóðlegum sérfræðingum til að útfæra hvernig nýta megi sjálfvirknivæðingu framtíðarinnar til að stytta vinnutíma og tryggja að ávinningurinn af sjálfvirknivæðingunni renni ekki bara til fárra. Mikilvægt er að umskiptin sem fara í hönd á næstu árum og áratugum leiði til meiri sanngirni, meiri lífsgæða og aukins jöfnuðar. 
  • Í tengslum við Alþingiskosningar haustið 2021 hvatti Alda framboð til að gefa fyrirheit um að fara svonefnda lýðræðisleið í sjávarútvegsmálum að loknum kosningum, en í henni fælist vandað þátttökulýðræðisferli. Alda lét MMR vinna skoðanakönnun í tengslum við áskorunina.
  • Félagið tók þátt í sameiginlegri áskorun til íslenskra stjórnvalda að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum árið 2021.

Umsagnir um þingmál:

Verkefni: 

  • Undirbúningsskýrsla um samfélagsbanka var unnin á vegum félagsins.
  • Frá ársbyrjun 2022 til sumars 2023 Alda vann að verkefninu Lighthouse Keepers, Business and Human Rights In CCE and Central Asia. Verkefnið var styrkt af Active Citizens fund. Samantekt um verkefnið má finna á vef Öldu.

Umsóknir um styrki:

  • Félaginu hlotnaðist styrkur upp á 120.000 krónur frá BSRB.
  • Í tengslum við Lighthouse Keepers verkefnið hlaut félagið styrk að upphæð 460.280 ISK. Styrknum var veitt í samræmi við skilmála verkefnisins.
  • Félagið fékk greiðslu frá Autonomy vegna skýrsluskrifa um styttri vinnuviku að upphæð 119.548 ISK.

Í undirbúningi:

  • Alda og Autonomy vinna nú að framhaldsskýrslu um árangurinn af skemmri vinnuviku. Skýrslan kemur vonandi út á næstu mánuðum.
  • Í undirbúningi er ritgerð sem fer yfir tildrög baráttunnar fyrir fjögurra daga vinnuviku, þeirri hugarfarsbreytingu sem er að eiga sér stað varðandi vinnu, og hvað það getur þýtt fyrir samfélög.

5. Framlagning reikninga fyrir starfsárið 2020 til 2024

Allar fjárhæðir eru í ISK

Neðangreindir reikningar miðast við 18. október 2020 til 17. maí 2024.

Staða fyrir: 933.928

                                                Tekjur                         Gjöld

Styrkir frá einstaklingum                       22.600        

Styrkir frá öðrum félögum og vegna verkefna     699.828

Vextir                                          1.450

Leiðrétting banka                               55

Kostnaður vegna 

- verkefnis um samfélagsbanka                                                 -300.000

- Lighthouse keepers verkefnis                                                -465.448

- ráðstefnu um styttingu vinnuvikunnar                                        -438.538

- skýrslu um styttri vinnuviku                                                -183.958

- skoðanakönnunar v/lýðræðisleiðar                                            -217.620

- léns félagsins (alda.is)                                                    -25.668

- bókhalds                                                                    -21.006

- þjónustugjalda banka (mótteknar símgreiðslur o.þ.h.)                        -2.005

- fundarherbergis v/aðalfundar 2024                                           -1.000

Fjármagnstekjuskattur                                                         -316

Samtals                                       723.933                         -1.655.559

Staða eftir: 2.302

Tap  var af rekstri félagsins á tímabilinu upp á 931.626 krónur, sem greiðist með hagnaði fyrra árs. Engar kröfur eru útistandandi frá félaginu eða á félagið sem stendur.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga 

Fundarmenn höfðu engar athugasemdir við skýrslu stjórnar né framlagða reikninga.

7. Lagabreytingatillögur

Fyrir fundinn voru lagðar tillögur til breytinga á lögum félagsins sem bárust innan frests til að leggja þær fram. Eftirfarandi tillögur að breytingum á lögum félagsins bárust frá Guðmundi D. Haraldssyni, stjórnarmanni í Öldu, en þær höfðu verið kynntar á vef félagsins:

Breytingar á 2. gr.

Við 2. gr. laganna bætist við eftirfarandi setning, beint á eftir fyrstu setningu: “Félagið skal einnig berjast fyrir efnahagslegum og félagslegum umbótum sem styrkja og styðja lýðræði og félagslega þátttöku”.

Rökstuðningur: Markmiðið með þessari breytingu er að kveða skýrar á um að félagið sé einnig um félagslegar og efnahagslegar umbætur, ekki aðeins um stjórnmálalegar umbætur er varða lýðræðið, enda um margt nátengd fyrirbæri að ræða. Félagið hefur frá upphafi einnig barist fyrir umbótum af þessu tagi.

Tillagan var samþykkt einróma af fundarmönnum.

Breytingar á 6. gr.

Fyrsta setning 6. gr. laganna skal hljóma þannig: “Í stjórn félagsins skulu sitja 5 manns, kjörin úr hópi félagsmanna.” Síðasta setning í sömu lagagrein skal hljóma svona: “Hætti þrír stjórnarmenn eða fleiri stjórnarmenn milli aðalfunda skal boða til félagafundar þar sem kosnir eru jafn margir nýir stjórnarmenn og sagt höfðu af sér; nema 30 dagar eða skemmri tími séu þar til heimilt er að boða til aðalfundar.”

Rökstuðningur: Með þessum breytingum er fjölda fólks í stjórn félagsins breytt, og til samræmis er þeim fjölda breytt sem þarf að hverfa úr stjórninni til að knýja á um félagsfund til að kjósa nýja stjórnarmenn.

Tillagan var samþykkt einróma af fundarmönnum.

Breytingar á 7. gr. 

7. gr. a. hljómi svo:

Stjórn félagsins fer með málefni og stjórn félagsins á milli aðalfunda og félagafunda. Er stjórn félagsins bundin af lögum félagsins, samþykktum aðalfundar og almennra félagsfunda eftir atvikum. Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Stjórnarfundi skal boða með tveggja sólarhringa fyrirvara. Óski tveir stjórnarmenn eða fleiri eftir því skal boða til stjórnarfundar. Allir stjórnarfundir félagsins skulu opnir félagsmönnum og skulu allir félagsmenn njóta málfrelsis og tillöguréttar á stjórnarfundum. Geta félagsmenn óskað eftir að mæta á stjórnarfund með einfaldri beiðni. Á stjórnarfundum hafa allir viðstaddir félagsmenn atkvæðisrétt og ræður einfaldur meirihluti. Stjórn félagsins skal jafnframt tryggja að haldin sé fundargerð fyrir stjórnarfundi sem greinir frá öllu því sem þar fer fram. Skal félagsmönnum heimilt að kynna sér efni fundargerða stjórnar.

7. gr. b. hljómi svo:

Viðstöddum stjórnarmanni á stjórnarfundi er heimilt að vísa ákvörðunum stjórnarfundar, sem hann telur stangast á við samþykktir félagsins, til félagafundar og tekur ákvörðunin þá ekki gildi fyrr en með staðfestingu félagafundar en fellur annars úr gildi. Halda skal félagafund innan tveggja vikna. Óski fimm eða fleiri félagsmenn eftir að stjórnarfundur sé haldinn skal það gert. Geta félagsmenn jafnframt krafist þess að tiltekið málefni verði tekið fyrir á stjórnarfundi. 

Rökstuðningur: Þessi lagagrein er brotin upp í tvennt til að hún verði einfaldari aflesturs – önnur nýja greinin fjallar um stjórn og stjórnarfundi, en hin fjallar um hvernig má vísa málum til félagafundar og hvernig félagsmenn geta knúið á um stjórnarfund. Þá er kveðið á um í fyrri greininni að stjórn almennt rekið félagið á milli félags- og aðalfunda. Allir félagsmenn hafi þó aðgang að fundum stjórnar.

Tillagan var samþykkt einróma af fundarmönnum.

Ný lagagrein

Við lögin bætist ný lagagrein, nr. 17, sem hljómi svo: „Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Skal prókúruhafi félagsins hafa samráð við aðra í stjórn um greiðslur reikninga. Prókúruhafi varðveitir bókhald félagsins. Á stjórnarfundum skal greint frá greiðslum til og frá félaginu.“

Rökstuðningur: Í núverandi lögum félagsins er hvergi tilgreint hver ber ábyrgð á fjárreiðum og bókhaldi. Með þessari viðbót er bætt úr.

Tillagan var samþykkt einróma af fundarmönnum.

8. Kosning kjörnefndar

Ekki var þörf á kjörnefnd að þessu sinni þar sem framboð til stjórnar voru jafnmörg og áskilinn fjöldi stjórnarmanna.

9. Kosning stjórnar

Eftirfarandi höfðu boðið sig fram til stjórnar Öldu fyrir næsta starfsár og framboð þeirra kynnt á vef félagsins:

  • Gundega Jaunlinina, varaformaður Hlífar
  • Sævar Finnbogason, doktorsnemi í heimspeki og lýðræðisfræðum
  • Þorvarður B. Kjartansson, tölvunarfræðingur
  • Guðmundur D. Haraldsson, MSc í Cognitive & Decision Sciences, BS í sálfræði
  • Jón T Unnarson Sveinsson, meistaranemi í menningarstjórnun

Þar sem fjöldi frambjóðenda er sami og fjöldi stjórnarmanna er sjálfkjörið í stjórnina.

10. Önnur mál

Þorvarður reifaði hugmyndir um að Alda taki upp umræðu um eflingu atvinnulýðræðis og efni til samstarfs við áhugasöm stéttarfélög og sambönd þeirra.

Fundi slitið kl. 15:30.