Alda fagnar nýútkominni skýrslu um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur. Þar kemur fram að ábyrgð stjórnenda hafi verið óljós og að stjórnin hafi staðið í deilum en ekki leitað bestu niðurstöðu. Reksturinn var ósjálfbær og slæmar ákvarðanir teknar. Ljóst má vera af skýrslunni að stjórnendur hafi ekki haft hagsmuni eigenda OR, almennings, að leiðarljósi.

Alda telur rétt að OR verði lýðræðisvædd. Veitan verði gerð að lýðræðislegu fyrirtæki, þar sem hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Daglegur rekstur verði þannig á ábyrgð allra starfsmanna, sem hafa hvað besta þekkingu á OR. Auk þess felur slík breyting umtalsverða valddreifingu og yfirsýn. Jafnframt ber að hafa í huga að starfsmenn OR eru einnig notendur þjónustu fyrirtækisins.

Alda hafnar því að OR verði hlutafélagavædd og telur rétt að frekar verði notast við samvinnufélagalög eða væntanleg lög um lýðræðisleg fyrirtæki þegar skipulag OR verður tekið til endurskoðunar.

Þá verði yfirstjórn OR skipuð fulltrúum starfsmanna, fulltrúum almennings, sem mætti t.d. slembivelja, og fulltrúum kjörinna flokka í borgarstjórn. Alda telur að slík stjórn endurspegli vilja og gæti hagsmuna eigenda OR. Tryggt verði að stjórnin hafi greiðan aðgang að ráðgjöf sem þarf í stærri ákvörðunum. T.d. gæti verið starfandi fagráð til ráðgjafar fyrir stjórnina. Slíkt fyrirkomulag er þekkt í stærri stofnunum og fyrirtækjum.

Þá skuli allur rekstur vera gagnsær. Upplýsingar aðgengilegar almenningi öllum  stundum. Auk þess skal almenningi boðið upp á að hafa aðkomu að ákvörðunum, s.s.  með því að koma á framfæri athugasemdum og tillögum sem eru afgreiddar formlega. Þá  mætti einnig hugsa sér að langtímastefnumótun sé unnin í opnu ferli með aukinni  þátttöku eigenda, það er segja almennings og starfsmanna OR.

Örstutt um lýðræðisleg fyrirtæki

Sameinuðu Þjóðirnar hafa lýst árið 2012 sem ár lýðræðislegra fyrirtækja (International year of Cooperatives). Það er ekki tilviljun að Sameinuðu þjóðirnar telji lýðræðisleg fyrirtæki góð og vinni að framgöngu þeirra. Rannsóknir sýna að ekki aðeins séu lýðræðislega rekin fyrirtæki betur í stakk búin til að takast á við efnahagslega erfiðleika, heldur einnig að ánægja fólks í slíkum fyrirtækjum sé meiri. Meðlimum lýðræðislega rekinna fyrirtækja líður þannig betur í vinnu og í einkalífi. Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) segir í skýrslu sinni frá 2009 (sjá áwww.ilo.org) að lýðræðisleg fyrirtæki séu líklegri til að standa af sér kreppur og aðrar sveiflur í hagkerfinu og auki við stöðugleika og sjálfbærni hagkerfis.