Fundur í málefnahópi um lýðræðisvæðingu hagkerfisins.

Mættir voru Guðmundur D., Júlíus Valdimarsson og Kristinn Már (er ritaði fundargerð).

1. Þingsályktunartillaga – staðan

Þingsályktunartillaga um lýðræðisleg fyrirtæki (endanlegt skjal væntanlegt á vefinn) er farin fyrir þingið. Það var Birgitta Jónsdóttir þingmaður sem átti frumkvæði að því að koma málinu inn í þingið. Hún er til vinnslu og skráningar á nefndarsviði Aþingis. Búið er að lesa hana yfir og gera orðalagsbreytingar svo frumvarpið sé þingtækt. Engar efnislegar breytingar voru gerðar á tillögunni eins og hún var send frá félaginu. Félagsmenn hafa leitað stuðnings þingmanna og hafa nú þegar fengist jákvæð viðbrögð frá óháðum þingmönnum og úr Samfylkingu og Framsóknarflokki. Þá kom í ljós að í gildi eru tveir lagarammar um samvinnufélög en ekki einn því 2006 voru innleidd lög í gegnum EES samninginn um evrópsk samvinnufélög, sem fáir hafa heyrt af. Vonast er til að málið fái afgreiðslu í þinginu í vetur svo breyta megi lögum sem fyrst. Enda er brýnt að fólki gefist færi á að stofna og starfa í lýðræðislegum fyrirtækjum hérlendis. Gaman er að geta þess að lýðræðisleg fyrirtæki eru 9. stærsta hagkerfi heims. Er þetta fyrsta þingmál að frumkvæði Öldu sem fer fyrir þingið.

Farið verður í kynningu á málinu á vegum félagsins á næstunni.

2. Ráðstefna næsta vor um lýðræðisleg fyrirtæki

Stefnt er að því að halda ráðstefnu um lýðræðisleg fyrirtæki næsta vor en erfitt var að fá fyrirlesara til landsins í haust þar sem nú stendur yfir ár SÞ um samvinnufyrirtæki. Mikilvægt sé að skipa verkefnisstjóra fyrir ráðstefnuna og er hér með auglýst eftir fólki sem hefur áhuga á því að koma að skipulagningu. Nánar rætt á næsta fundi.

3. Lýðræðislegt hagkerfi – verkefni vetrarins

Lagt er til að hópurinn muni á næstu mánuðum vinna tillögur að breytingum á hagkerfinu í átt að auknu lýðræði, sjálfbærni og jöfnuði. Leggja má til grundvallar tillögur sem birtust í New Internationalist -Road Map to a fair economy og tillögur New Economic Foundation sem birtust m.a. í bók Boyle og Simms: New Economics a Bigger Picture. Þar er mikilvægt að horfa til uppbyggingar fjármálakerfisins, gjaldeyrismála, aðgengis að fjármagni, húsnæðiskostnaði, samspili við skattkerfi og tekjudreifingu svo eitthvað sé nefnt.

4. Lýðræðisvæðing OR

Rætt var um skýrslu um OR. Drög samin að ályktun sem send voru til stjórnar til afgreiðslu:

Alda fagnar nýútkominni skýrslu um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur. Þar kemur fram að ábyrgð stjórnenda hafi verið óljós og að stjórnin hafi staðið í deilum en ekki leitað bestu niðurstöðu. Reksturinn var ósjálfbær og slæmar ákvarðanir teknar. Ljóst má vera af skýrslunni að stjórnendur hafi ekki haft hagsmuni eigenda OR, almennings, að leiðarljósi.

Alda telur rétt að OR verði lýðræðisvædd. Veitan verði gerð að lýðræðislegu fyrirtæki, þar sem hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Daglegur rekstur verði þannig á ábyrgð allra starfsmanna, sem hafa hvað besta þekkingu á OR. Auk þess sem slík breyting felur í sér umtalsverða valddreifingu og yfirsýn. Jafnframt eru starfsmenn breiður hópur notenda.

Alda hafnar því að OR verði hlutafélagavædd og telur rétt að nota fremur samvinnufélagalög eða væntanleg lög um lýðræðisleg fyrirtæki.

Þá verði yfirstjórn OR skipuð fulltrúum starfsmanna, fulltrúum almennings, sem mætti t.d. slembivelja, og fulltrúum kjörinna flokka í borgarstjórn. Alda telur að slík stjórn endurspegli vilja og gæti hagsmuna eigenda OR. Tryggt verði að stjórnin hafi greiðan aðgang að ráðgjöf sem þarf í stærri ákvörðunum. T.d. gæti verið starfandi fagráð til ráðgjafar fyrir stjórnina. Slíkt fyrirkomulag er þekkt í stærri stofnunum og fyrirtækjum.

Þá skuli allur rekstur vera gagnsær. Upplýsingar aðgengilegar almenningi öllum stundum. Auk þess skal almenningi boðið upp á að hafa aðkomu að ákvörðunum, s.s. með því að koma á framfæri athugasemdum og tillögum sem eru afgreiddar formlega. Þá mætti einnig hugsa sér að langtímastefnumótun sé unnin í opnu ferli með aukinni þátttöku eigenda, það er segja almennings og starfsmanna OR.

5. Önnur mál

Umræða: Úttekt á rekstri einkafyrirtækja. Samanburður á rekstrarformum. Alda kalli eftir opinberri úttekt. Sambærilegri á við þá sem fór fram hjá OR. Hugsanlega rannsókn á spillingu. Eru til rannsóknir erlendis frá þar sem lýðræðislegt rekstrarform er borið saman við opinberan og einkarekstur. Er hægt að koma þeim á framfæri.

Fundi slitið 21:43