Undanfarna daga hefur verið fjallað um skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið McKinsey skrifaði. Skýrslan fjallar að miklu leyti um lélega framleiðni á Íslandi og eru lagðar fram tillögur að breytingum í þeim efnum.

Markmið tillagna höfunda um aukna framleiðni eiga – segja höfundarnir – að auka lífsgæði á Íslandi, með auknum frítíma og aukinni neyslu. Þessi hugsun höfundanna er orðuð svona: „Higher labor productivity effectively creates scope for increased consumption and more leisure time.“ (bls. 96).

Þessi hugmynd er gamalkunnug þeim sem hafa lesið dálitla hagfræði. Aukin neysla ku skapa aukna ánægju; en aukin ánægja er auðvitað sama og aukin hamingja. Markmið allrar efnahagslegrar starfsemi almennt hlýtur að vera að gera fólk hamingjusamt. Því er um að gera að auka efnahagsleg starfsemi til að auka hamingju.

En þegar rýnt er nánar í hvað höfundarnir segja um vinnutíma vakna efasemdir. Þeir segja á einum stað og eiga þá við um Ísland: „Að vinna meira eykur varla framleiðslu svo nokkru nemi“ (á ensku: „Working more offers limited growth opportunities for Iceland“, bls. 30).

Þeir segja einnig: „Íslendingar standa sig mun betur en nágrannalöndin þegar kemur að fjölda vinnustunda og atvinnuþátttöku, en nýting atvinnutækja er í tæpu meðallagi.“ („Iceland significantly outperforms its peers in terms of both labor participation and hours worked, but capital intensity is slightly below average.“, bls. 28). Kannski er rétt að taka fram að á Íslandi er unnið talsvert meira en á hinum Norðurlöndunum, og viðurkenna höfundarnir það (bls. 29-39).

Það er ljóst af þessu að viðhorf höfunda gagnvart vinnu er heldur þversagnakennt: Annars vegar ræða þeir um að auka frítíma – og hins vegar er okkur hér á Íslandi hrósað fyrir langan vinnudag. Þá útiloka þeir aukna framleiðslu vegna þess að ekki sé á lengd vinnutíma bætandi – eins og það sé fýsilegur möguleiki að auka framleiðslu með meiri vinnu!

Annað vekur athygli í skýrslunni. Skýrsluhöfundar skrifa á einum stað að yrði vinnudagurinn á Íslandi styttur niður í eitthvað svipað og gengur og gerist á öðrum Norðurlöndum, myndi framleiðni á hvern einstakling hrapa niður á svipað stig og á Grikklandi og í Slóveníu. Á mannamáli þýðir það að tekjur landsmanna myndu minnka mjög mikið. Þeir orða þetta svona: „In fact, if the labor supply (measured as the total number of hours worked per inhabitant) in Iceland matched that of our selected peer group, Iceland’s production would illustratively drop by almost a quarter, leaving its per capita production level closer to that of Greece and Slovenia….“ (bls. 30).

Hér virðist hugsun höfundanna vera þessi: Klukkustundar vinna jafngildir klukkustundar vinnu, óháð því hvað fólk vinnur almennt mikið. Eða: Sú vinna sem fólk innir af hendi hefur engin áhrif á aðra vinnu sem það innir af hendi. Þessi hugsun stenst ekki.

Í fyrsta lagi hafa rannsóknir sýnt að afköst eru minni hjá fólki, sem vinnur langan vinnudag, yfir langt tímabil. Afköstin minnka eftir því sem yfirvinnan lengist. Þetta sýndi sig t.d. ágætlega í seinni heimsstyrjöldinni, þegar afköst í tilteknum verksmiðjum hríðféllu eftir að fárra mánaða yfirvinnuskeið hafði staðið yfir.

Í öðru lagi er þekkt úr rannsóknum að framleiðni eykst í fyrirtækjum eftir að vinnudagur hefur verið styttur. Þetta gerist einna helst vegna þess að þreyta fólks minnkar, andi á vinnustað batnar, skipulag vinnu er endurbætt og vegna þess að vélar eru endurbættar.

Höfundar skýrslunnar hefðu gjarnan mátt skoða áhrif langs vinnudags á heimilislíf og samfélag að öðru leyti. Fyrir nokkrum árum kom nefnilega í ljós í alþjóðlegri rannsókn að hérlendis var mest kvartað yfir því að vinnan truflaði heimilislíf. Þessi rannsókn náði til Norðurlandanna, fjölmargra landa í Evrópu og einnig fjarlægari landa eins og Japans og Ástralíu. Engin sérstök ástæða er til að ætla að þetta hafi breyst mikið þar sem vinnandi fólk vinnur lítið skemur nú en fyrir hrun. Í fyrrnefndri rannsókn kom einnig í ljós að um 42% fólks vildi vinna minna. Þá kom einnig í ljós að margir gátu alls ekki unnið minna, ýmist af fjárhagslegum ástæðum eða vegna ósveigjanlegra vinnustaða.

Tillögur McKinsey eru byggðar á meginstraumshagfræði – sömu hugmyndafræði og var ráðandi fram að hruni. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir gríðarlega aukna framleiðni á undanförnum áratugum hefur vinnutími lítið styst á Íslandi. Hin aukna framleiðni hefur farið í að auka framleiðslu enn frekar, framleiðslu sem knýr áfram neyslu. Og rannsóknir benda til þess að sú leið auki ekki lífsgæði og hamingju hjá ríkari löndum eins og okkur. Þar vegi þyngra aðrir þættir eins og aukinn frítími, þátttaka í samfélaginu og umhverfisgæði.

Stefna samfélagsins þegar kemur að vinnudegi og afköstum ætti að vera þessi: Vissulega skal auka afköst þar sem hægt er – þó án þess að fólki líði verr í vinnunni og með sjálfbærum hætti – og nýta aukna afkastagetu til að vinna minna, án þess að skerða lífsgæði. Með því nýtum við í raun og veru kraft vélvæðingarinnar til að njóta lífsins.

Um stefnu Öldu í málum er varða skemmri vinnutíma má skoða rit sem félagið gaf út fyrir skemmstu (hér). Þar má einnig finna nánari upplýsingar og tilvitnanir í heimildir.

Guðmundur D. Haraldsson