Ársþing Alþýðusambands Íslands var haldið á dögunum. Á þinginu voru samþykktar ýmsar ályktanir, m.a. um atvinnumál og verðtryggingu. Engin ályktun fjallar hins vegar um vinnutíma og er hvergi minnst á vinnutíma í ályktunum þingsins.

Alda harmar að ekkert aðildarfélag ASÍ og ekki heldur miðstjórn þess hafi séð ástæðu til að leggja fram ályktun um styttingu vinnudags. Þó sendi Alda þessum aðilum tillögur sínar fyrr á árinu ásamt því að fulltrúar Öldu mættu á fund hjá ASÍ um tillögurnar. Jafnframt sendi Alda hvatningu til nær allra aðildarfélaga ASÍ um að leggja fram ályktun um styttingu vinnudags á þinginu.

Legið hefur ljóst fyrir í langan tíma að vinnudagurinn á Íslandi er of langur og að hann hefur skaðleg áhrif á lífsgæði. Í alþjóðlegri rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum kom í ljós að hérlendis var mest kvartað yfir því að vinnan truflaði heimilislíf. Þess ber að geta að þessi rannsókn náði til Norðurlandanna, fjölmargra landa í Evrópu og einnig fjarlægari landa eins og Japans og Ástralíu. Engin sérstök ástæða er til að ætla að þetta hafi breyst mikið þar sem vinnandi fólk vinnur lítið skemur nú en fyrir hrun.

Í fyrrnefndri rannsókn kom einnig í ljós að um 42% fólks vildi vinna minna. Þá kom einnig í ljós að margir gátu alls ekki unnið minna, ýmist af fjárhagslegum ástæðum eða vegna ósveigjanlegra vinnustaða.

Alda skorar á ASÍ og aðildarfélög þess að taka höndum saman sérstaklega um styttingu vinnudags án tafar.
Tillögur Öldu um styttingu vinnudags má finna hér.