Fundargerð frá fundi málefnahóps um sjálfbært hagkerfi sem haldinn var 9. desember síðastliðinn. 

Málefnafundur sjálfbærni og lýðræði

Fundur hefst kl. 20:30 og lýkur kl. 21:30.

Dóra Ísleifsdóttir stýrði fundi og ritaði fundargerð.

Mættir:
Sigríður Guðmarsdóttir, Sigurður Eyberg, Sveinn Már Jóhannesson, Dóra Ísleifsdóttir, Þórarinn Einarsson, Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, Ragna Benedikta Garðarsdóttir, Sara Sigurbjörns Öldudóttir, Hörður Kristinsson og Guðmundur Ásgeirsson.

Efni fundarins:

1. Tillaga um að leggja fram drög að sjálfbæru Íslandi eftir sex mánuði?
Sigurður leggur til að lögð verði drög að tillögum um „draumalandið“ sem væru hugsaðar til nánari útfærslu –– stóru drættirnir. Sigríður leggur til að gefa þjóðinni þær tillögur 17. júní n.k. Gústav stingur upp á að halda málþing um sjálfbært hagkerfi. Þórarinn leggur til að setja tillögurnar fram með blaðamannafundi, vefsíðu o.s.frv. Þórarinn: Atvinnulýðræðishópurinn er til og tillögur frá honum myndu nýtast okkur (segir aðeins frá). Þórarinn segir frá IFRI (Icelandic Financial Reform Initiative) sem mun gera tillögur að breytingum á fjármálakerfi Íslands. Hagvöxtur og óraunhæf ávöxtunarkrafa sé rótin að vandanum.

Dóra leggur til að skoða grunnþætti í samfélaginu sem gera sjálfbæra þróun mögulega: t.d. samgöngur, fjármálakerfið, leiðir til fræðslu, sorphirðumál.

Ragna Benedikta talar um endurvinnslu, lagaramma (varðandi innflutning, merkingar, umbúðir o.s.frv.) og stoðkerfi í borgum og bæjum — fram kemur að samkeppnislög komi í veg fyrir að opinberir aðilar geti stofnað fyrirtæki í samkeppni við fyrirtæki í einkarekstri um t.d. endurvinnslu. Sara talar um eiturefni í matvælum og vanrækslu í merkingarmálum.

Þórarinn varar við EES vegna þess að þar sé tregðulögmálið á móti öllum slíkum breytingum og leggur til að félagið beiti sér fyrir því að Ísland fari úr EES.

Sigríður talar um að öll mál smá og stór þurfi að vera með í pakkanum — að Alda eigi og geti skoðað málin frá micro og macro sjónarhorni.

Gústav talar um að skoða þurfi framleiðsluferli frá upphafi og t.d. eigi plastpökkuð matvæli ekki að vera i boði. Frauðplast og annað plast sé stór hluti landfyllinga og valdi skaða en þó séu til efni sem gætu komið í staðinn. Sara talar um að byrja á byrjuninni og hluti af því sé að vekja fólk til umhugsunar um óhóflega og óþarfa neyslu. Gústav segir neysluhyggjuna rót vandans og í vegi fyrir sjálfbærni.

Þórarinn segir frá höfundi evrunnar — mismunandi gjaldmiðlar séu fyrir hluta hagkerfis: t.d. sér gjaldmiðil fyrir nauðsynjar (mat), menntun … einnig að tími sé í raun gjaldmiðill, vinnuframlag sé gjaldmiðill. Þetta sé hægt að útfæra og breyta neyslumynstri fólks. Dæmi er að finna í Vermont í USA, Damanhur á Ítalíu, Auroville á Indlandi eru öll með „local“ gjaldmiðla. Hugmyndin er að nýta krafta allra og sóa ekki fólki. Sveinn tekur undir þetta og minnir á að leiðir eins og þessar muni styrkja stöðu þeirra sem eiga minna af fé en e.t.v. meiri tíma.

Sigríður vill bæta við dagskránna kynjaðri hagstjórn og sjálfbærri þróun.

Sara spyr hver ástæðan er fyrir aðgreiningu málefnahópa og Þórarinn (sem hefur setið þrjá af fjórum málefnafundum) tekur að sér að svara þeirri fyrirspurn. Ástæður fyrir skiptingu í málefnahópa helstar að þannig vinnist hraðar úr og samræður gangi betur fyrir sig. En allir telja samráð milli hópa nauðsyn.

Ragna Benedikta varar við pólitískri tengingu og því að bendla sig sérstaklega við ákveðna þingmenn eða flokka. Að betra sé að tala við þingnefndir eða ráðherra / ráðuneytisstjóra. Þetta kemur fram í framhaldi af frásögn af fundi málefnahóps um lýðræði í atvinnulífi

Sigríður: Lýðbærni er tillagan. Lýðræði og sjálfbærni fari saman. Sigurður segir aðgreininguna í málefnahópa ekki þurfa að takmarka umræðu þessa hóps.

Ragna Benedikta vill að hafist sé handa við að tala við einstaklinga og skoða raunverulegar aðstæður fólks og sýna fram á leiðir til að neita að neyta. Sigurður segir að það sé leiðin til að kerfin sem ekki virka sé að stöðva óhóflega neyslu. Sigurður segir að til að þetta sé hægt þá þurfi fólk að keyra neyslu alveg niður í nauðsynjar — og að við gætum tekið Kúbu okkur til fyrirmyndar sjálfviljug. Sara talar um að sjálfbærni (orðið segi að sjálfbærni vilji viðhalda sjálfri sér — sjálfstæði, ég get ég séð um mig). „Sustainability“ þýði annað. Sjálfbær þróun sé betra vegna þess að orðasambandið lýsi ferli. Sara ber fram spurninguna hvert er hlutverk alþjóðaviðskipta í sjálfbærum heimi. Þórarinn segir dreifing og jöfnun. Sigurður segir að það geti ekki verið sjálfbært á meðan þarf olíu til að koma vörum/þjónustu á milli landa. Þórarinn segir jafna og dreifa og sleppa því að senda vörur á milli landa sem er óþarfi (eru til á staðnum). Guðmundur talar um vatnsinnflutning til landsins sem er óþarfi og væri hægt að flytja inn vatnslaust og vinna hér (vatnsblanda).

Sigurður veltir upp kjarnaspurningum: á hvaða gildum á sjálfbært hagkerfi að byggja. Þjónusta við samfélagið sé verðmæti og að við eigum e.t.v. ekki að leyfa neitt það sem er samfélaginu (sjálfbæru) ekki til góðs. Að við þurfum nýtt verðmætamat. Þórarinn segir gróða undirrót vandans sem við stöndum frammi fyrir.

Tilaga: að setja saman gildapakka.

2. Lesefni, fyrirlesarar í heimsókn, og annað efni til að skoða; tillögur:
Samþykkt að byrja leshringinn á kynningu Rögnu Benediktu á rannsókn á gildum á fimmtudegi eftir viku.
Að öðru leyti er samþykkt að safna efni með rafpósti og setja á heimasíðu Öldunnar.
Sigurður leggur til að allir fundir séu þannig að opið sé fyrir að kynna lesefni undir liðnum önnur mál. Sigríður minnir á hugmynd um að alltaf sé einn sem beri ábyrgð á því að lesa ákveðið efni og kynna á fundinum.

Fram komnar tillögur að fyrirlesurum:
Grímur Björnsson, jarðfræðingur (v. Kárahnjúkar).
Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði (neyslusaga Íslendinga).
Páll Skúlason og Ævar Kjartansson (pod-cast hjá RÚV), Heimur hugmyndanna.

3. Tillaga um að senda lesefni (útdrætti úr greinum) um sjálfbært hagkerfi inn á stjórnlagaþing?
Samþykkt að finna leið til að mata Stjórnlagaþingshópinn á efni um sjálfbæra þróun.

4. Önnur mál:
Næsti fundur ákveðinn n.k. fimmtudag, 16. desember, kl. 20:00. Byrjum á slaginu.
Framsögu hefur Ragna Benedikta Garðarsdóttir.