Lýðræðisfélagið Alda fordæmir málareksturinn gegn níumenningunum svokölluðu sem ákærðir eru fyrir brot á 100. grein hegningarlaga sem lýtur að „árás á Alþingi“ þannig að „sjálfræði þess hafi verið hætta búin“. Í umræddum mótmælum fór hópur fólks inn um opnar dyr Alþingishússins og upp á þingpalla þar sem lesin var upp yfirlýsing. Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja í samtímanum og mörg dæmi eru um það að valdhafar ákæri og fangelsi mótmælendur til þess að hræða fólk frá því að tjá hug sinn með aðgerðum. Með ákærunni eru níumenningarnir gerðir að blórabögglum á gerræðislegan hátt öðrum til viðvörunar. Alda krefst þess að málið verði fellt niður hið fyrsta og að Alþingi og aðrir valdhafar snúi sér að því að færa ákvarðanir nær fólkinu. 

Ályktunin var samþykkt á stjórnarfundi þann 14. desember 2010.