Fundur settur 20.30 í fundarherbergi á efri hæðinni í Grasrótarmiðstöðinni.
Mættir eru Hulda Björg, Hjalti Hrafn, Sólveig Alda, Guðmundur D., Júlíus Valdimarsson, Geir Guðmundsson og Haraldur Ægir. Guðmundur stýrði fundi og Sólveig ritaði.

Auglýst dagskrá tekin í óformlegri röð.

Lýðræðisleg fyrirtæki:
Samvinnufélagalög / lög um lýðræðisleg fyrirtæki.
Nokkrir þingmenn hafa lýst áhuga á að vinna með okkur að samvinnufélagalögum. Næsta mál á dagskrá er því að halda fund með þeim og hefja vinnuna við að breyta samvinnufélagalögum svo þau verði almennileg. Brýnt er að fulltrúar málefnahópsins komi vel undirbúnir á þann fund, með öll gögn er varða lagabreytingarnar og nauðsynlegan grunn. Við munum sækja upplýsingar til ICA (ica.coop) varðandi þetta.
Einnig þarf að ræða við þingmenn um mögulega aðkomu lögfræðinga að vinnunni.

Rætt var um nafn á lögunum og hvort betra sé að halda í samvinnufélaganafnið í stað þess að breyta titlinum í „lög um lýðræðisleg fyrirtæki“. Fundarmenn almennt sammála um að gott sé að taka nafnið aftur og losa það við vísanir í sambandið sáluga, en hugmyndin um nafnabreytingu kom einmitt til vegna þeirra vísana, vegna þeirrar neikvæðu ímyndar sem margir hafa um samvinnufélögin gömlu.
Orðið samvinna er gott og vel lýsandi. Öll fyrirtæki eiga hins vegar að vera lýðræðisleg og ágætt að hefja skrefin í átt að fullri lýðræðisvæðingu þeirra með því að semja ný samvinnufélagalög.

Geir benti á möguleikann að útbúa samþykktir sem hlutafélög gætu nýtt sér til að lýðræðisvæðast, þannig gætu þeir sem áhuga hefðu á slíku gert það strax í stað þess að bíða nýrra laga frá Alþingi. Samþykktir hlutafélaga þurfa ekki afgreiðslu þingsins og því væri þetta skref sem hægt væri að taka strax.

Rætt um þætti sem skipta máli fyrir samvinnufélög/lýðræðisleg fyrirtæki, sérstaklega þegar þau hefja starfsemi. Þættir eins og þolinmótt fjármagn, almennilegur lagarammi sem ver fyrirtækið „hákörlum“ og sjóðir eins og Share Levy Funds. Umræða spannst um Samfélagsbankann sem staðið hefur til að stofna.

Einnig þurfum við að horfa til raunhæfra möguleika í íslensku samfélagi fyrir slík fyritæki og finna raunveruleg dæmi, sem nóg er af, sem mætti heimfæra.

Öll vinna í Öldu þessa dagana miðast að því að sanka að sér gögnum sem síðar verða notuð í gagnagrunn fyrir verkefni tengdu Eva Joly Foundation. Það verkefni er þriggja laga; hið efsta er lýsinga á efninu (t.d. á eðli lýðræðislegra fyrirtækja), miðjulagið lýsir raunverulegum dæmum og hvernig er hægt að koma viðfanginu á fót, koma því á (t.d. stofna lýðræðisleg fyrirtæki) og hið neðsta felur í sér lærðar greinar, rannsóknir eða fleira tengt efninu. Lögin semsagt dýpka niður á við.

Ákveðin er aðgerðaáætlun fram í febrúar. Stefnt er á fund í kringum tíunda janúar. Sá fundur verður vinnufundur og snýst eingöngu um að fara yfir nauðsynlega þætti er varða samvinnufélagalögin og undirbúa fundinn með þingmönnum . Stefnt er á að halda þann fund um miðjan janúar.
Málefnafundur í febrúar mun fjalla um þau atriði síðustu tveggja funda sem ekki snerta sérstaklega á lagavinnunni (sjá hér að neðan).

Dýpkun stefnu: rætt um að vinnan við lögin sé hluti af því. Halda þarf öllu efni til haga og vinna við dýpkun er meðfram öðrum málefnum.
Bæta við stefnu lið um grunnframfærslu (Universal basic income) við hana. Og lið um raunhæfa möguleika – Spurning hvort sá liður gæti verið einskonar greinargerð við stefnuna.

Rætt um Grunnframfærsluna. Hjalti lýsti þeirri hugmynd lauslega og ákveðið að hann komi með frekari kynningu á efninu á fund í febrúar. Hulda benti á að tryggð grunnframfærsla flokkist undir mannréttindi, matur og grunnþarfir alls fólks eiga að vera tryggðar.

Rætt um hlutabréfaskatt. Hugmynd komin frá Meidner, sá hinn sami og hannaði sænska velferðarkerfið. Sjóður sem stækkar innan fyrirtækisins. Nokkrir gallar á en finna þarf lausnir og mögulegar útfærslur sem myndu gera fyrirkomulagið lýðræðislegt. T.d. væri hægt að setja sjóðnum reglur og hann yrði styrktaraðlili fyrir lýðræðislega rekin fyrirtæki. Einnig gæti stækkandi sjóðurinn breyst yfir í eignarhald starfsmanna. Meira um það síðar.

Verkalýðsfélögin. Við munum kynna okkur og þau málefni sem unnið hefur verið að í vetur fyrir verkalýðsfélögunum eftir febrúar fund. Athuga með þá verkalýðsleiðtoga sem virðast hafa áhuga á að vinna fyrir verkalýðinn. Vilhjálmur á Akranesi og Aðalsteinn á Húsavík nefndir.

VERKEFNI FYRIR NÆSTA FUND SEM VERÐUR C.A 10. JANÚAR.
Lög fyrir gjaldþrota fyrirtæki, sjóðir, hlutabréfaskattur – Hjalti tekur saman upplýsingar um þessa þætti og kemur með á fund í janúar.
Sólveig sendir póst á ICA og óskar eftir upplýsingum/aðstoð við lagarammann. Tala við Þórð Björn og þingmenn, boða fund með þeim. Athuga með lögfræðinga. Óska eftir aðstoð.
Geir og Júlíus – Skoða mismunandi útgáfur af lýðræðislegum hlutafélagasamþykktum
Júlíus hefur samband við Sigfús og athugar stöðuna með samfélagsbankann. Og Júlíus ætlar einnig að athuga dæmi um starfsmannalýðræði í Argentínu, hvernig því er háttað þar og hvaða módelum er unnið eftir í því samhengi.

Helstu verkefni fram á sumarið
Samvinnufélagalög.
Teikna upp lýðræðisleg fyrirtæki.
Dýpka stefnuna og bæta við:
– raunhæfir möguleikar – sem greinargerð við samvinnufélagalögin.
– Universal basic income.
Ýta við verkalýðsfélögum

Góður fundur!
Fundi slitið 22.28