Stjórnarfundur í Öldu 6. mars 2012 kl. 20:30 í Grasrótarmiðstöð.

Mætt voru Sólveig Alda, Guðmundur D., Björn, Júlíus, Kristinn Már,

Hjalti, Hulda Björg, Guðni Karl.

Guðmundur D. stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.

1. Ályktun um styttingu vinnudags.
Ályktunin lögð fram og rædd. Guðmundur D. lagði fram tillögu um

breytingu á orðalagi um kaupmátt og var hún samþykkt. Rætt um

tímamörkin sem koma fram í tillögunni og samþykkt að mikilvægt væri

að setja háleit markmið í því sambandi.
Nokkur umræða spannst um andann í ályktuninni, um mikilvægi vinnu

o.s.frv. Guðni Karl benti á að lífið snúist að einhveru leyti um

vinnu og tóku fundarmenn undir það. Samþykkt orðalagsbreyting á þá

leið að lífið eigi ekki EINGÖNGU að snúast um vinnu.
Rætt um yfirvinnu. Guðmundur D. talaði um vítahring

yfirvinnunnar á Íslandi og að hægt væri að losna út úr þeim

vítahring með því að stytta vinnuvikuna.
Júlíus talaði um mikilvægi þess að beina athygli

verkalýðsforystunnar að gæðum lífsins. Nauðsynlegt sé að knýja fram

breytingar. Ávinningurinn af þeim tækniframförum sem orðið hafi í

framleiðslu á síðustu áratugum hafi allur fallið í skaut

„vinnuveitenda“.
Björn minnti á mikilvægi styttri vinnudags fyrir lýðræðisvæðingu,

fólk verði að hafa tíma og orku aflögu til að sinna skyldum sínum

sem þeir virku borgarar í lýðræðissamfélagi sem nú er t.d. talað

opinskátt um í námsskrám grunn- og framhaldsskóla.
Júlíus talaði um nauðsyn þess að breyta grundvelli umræðunnar og ná

aftur frumkvæðinu í sögunni. Jafnframt um mikilvægi þess að þessum

breytingum sé komið á eftir lýðræðislegum leiðum.
Björn stakk upp á því að halda málþing um þetta málefni. Kristinn

Már lýsti þeirri skoðun sinni að rétt væri að fá fyrst viðbrögð

verkalýðsfélaga og annarra hlutaðeigandi, sjá hvernig landið liggur.
Guðmundur D. vakti að lokum máls á vaktavinnu sem mögulegu bakslagi

í vinnunni við styttingu vinnudagsins. Kristinn Már benti á að taka

mætti á þeim vanda þegar hann kemur upp.
Ályktunin að lokum samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

2. Lýðræðisleg fyrirtæki.
Sólveig Alda og Hjalti fóru á fund þingflokks Hreyfingarinnar og var

vel tekið. Til umræðu voru samvinnufélög og löggjöf um þau. Rætt

hvort notast ætti við gömlu samvinnufélagalögin eða semja ný lög frá

grunni. Fundarmönnum leist almennt betur á seinni kostinn. Hjalti

velti upp þeirri spurningu hvort tala ætti um lýðræðisleg fyrirtæki

fremur en samvinnufélög í þessu sambandi; almennt töldu fundarmenn

síðara heitið betri kost eins og málin standa. Rætt var hvort

félagið ætti að móta, ásamt Hreyfingunni, þingsályktunartillögu eða

lagafrumvarp. Í öllu falli töldu menn nauðsynlegt að gera drög að

löggjöf sem lögfróðir gætu síðan farið yfir og lagfært. Síðan þyrfti

að vinna málinu fylgi, ræða við þingmenn úr ýmsum áttum sem ætla má

að séu málinu hlynntir. Hjalti sagði frá lýsingu þingmanna

Hreyfingarinnar á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á þingi og í

ráðuneytum. Kristinn Már talaði fyrir því að Alda gerði drög að

löggjöf sem miðaðist við hvernig hlutirnir ÆTTU að vera, í stað þess

að taka þátt í því ferli málamiðlana og jafnvel hrossakaupa sem

tíðkast í þingheimum. Endanleg tillaga að löggjöf þyrfti helst að

liggja fyrir áður en málamiðlanir hefjast. Tillögunni megi fylgja

ítarleg greinargerð, enga lögfræðinga þurfi til að semja hana.
Júlíus benti á að áhugamál félagsins væri vitaskuld að semja lög um

starfsmannasamvinnufélög sem eru í reynd sértækari en hin almennu

samvinnufélagalög sem nú eru í gildi. Hann spurði jafnframt hvort

til væri löggjöf um breytingu hefðbundinna (kapítalískra) fyrirtækja

í samvinnufyrirtæki. Þar gæti verið ákveðinn vandi á ferð. José Luis

Montero de Burgos hefði aftur á móti mótað hugmyndir um þetta

atriði.
Sólveig sagði frá hugmynd Birgittu Jónsdóttur um að halda ráðstefnu

um samvinnufélög með þátttöku fulltrúa frá Mondragon-samsteypunni.
Rætt um það hvenær lagadrögin ættu að liggja fyrir. Kristinn Már

lýsti þeirri skoðun sinni að ekki lægi lífið á, aðalatriðið að út úr

vinnunni kæmi vandað og yfirvegað plagg og að kynningarstarfið yrði

öflugt. Júlíus sagði ekki nægan tíma til stefnu til að koma saman

heillegri, víðtækri löggjöf sem leggja mætti fram á yfirstandandi

þingi. Hjalti tók undir þetta, sem og aðrir fundarmenn. Málefnahópur um lýðræðislegt hagkerfi heldur áfram vinnu við málið.

3. Lýðræðislegir stjórnmálaflokkar.
Kristinn Már sagði frá því að lagarammi félagsins fyrir lýðræðislega

stjórnmálaflokka væri hér um bil kominn í þá mynd sem notuð verður

við kynningu. Gengið verði á fund stjórnmálaflokka, þeirri vinnu

skipt niður á milli þeirra félagsmanna sem hafa haft hönd í bagga

við vinnslu plaggsins. Byrjað verði á nýju flokkunum, vonandi strax

í næstu viku.
Rætt um lagadrög Breiðfylkingarinnar og hvernig tillögur Öldu hafa

skilað sér þangað inn. Kristinn Már lýsti efasemdum um að Alda ætti

að senda inn efnislegar athugasemdir við úrvinnslu einstakra flokka

á tillögunum, það væru afskipti af innra starfi þeirra. Aftur á móti

sé um að gera fyrir einstaka félagsmenn að gera slíkar athugasemdir.

4. Starfsemi málefnahópa.
(a) Lýðræðislegt hagkerfi: sjá lið 2.

(b) Lýðræðisvæðing stjórnmálanna: Kristinn Már sagði frá Real

Democracy User Guide, vinnan við verkefnið er hafin og einnig

fjáröflun á vegum Eva Joly Foundation. Jafnframt er hafin vinna við

að skrifa stefnu stjórnmálaflokks í lýðræðismálum sem hvaða flokkur

sem er getur síðan notað sem fyrirmynd eða hráefni. Sams konar skjal

mætti vinna um lýðræðisvæðingu efnahagslífsins. Kristinn Már bauðst til

að taka það að sér og var það samþykkt.

(c) Stytting vinnutíma: sjá lið 1.

(d) Lýðræðisvæðing menntakerfisins: ekki náðist að halda fund í

hópnum í febrúar vegna anna hjá umsjónarmönnum hópsins. Bætt verður

úr því fljótlega.
Hjalti sagði frá styrk til að vinna fjölmenningarverkefni sem

Múlaborg hlaut nýlega. Hjalti starfar á þeim leikskóla og bauðst til

að vinna tillögur um mannréttindi og lýðræði í leikskólum tengdar

verkefninu. Þessu vísað til næsta fundar í málefnahópnum.
Kristinn Már sagði frá þemahefti Menntamálaráðuneytis um lýðræði sem

hann var beðinn að gera athugsemdir við. Í athugasemdum hans sé að

finna efnivið sem málefnahópurinn getur moðað úr.

(e) Sjálfbærni: fundur í næstu viku. Þar verður rætt um málþing um

sjálfbærniþorp og/eða kynningu á því. Kristinn Már talaði um nauðsyn

þess að hópurinn veldi sér eitt viðráðanlegt verkefni og kallaði

eftir skýrri stefnumótun fyrir hópinn.
Guðni Karl sagði frá því að hann fengi mikið af jákvæðum viðbrögðum við hugmyndinni um sjálfbærniþorp. Mikilvægt sé að koma einhverju til leiðar sem byrjar í grasrótinni og vex síðan upp.

Undir þessum lið var þar að auki rætt um að stofna málefnahóp um félagsleg grunnlaun, eða félagslaun (e. social wage). Samþykkt að slíkur hópur yrði stofnaður, og að hann heyrði undir málefnahóp um lýðræðislegt hagkerfi.

5. Vefur Öldu á íslensku og ensku

Enski vefurinn er kominn í gagnið, og var því ákaft fagnað á fundinum. Rætt um ýmis tæknileg atriði og um innihald vefjarins, mikilvægi þess að efla þá hlið. Ritstjórn útbúi tímaáætlun um birtingu greina.
Sólveig sagði frá því að strax væri komin ein skráning í félagið í gegnum enska vefinn.

6. Þjóðaratkvæðagreiðsla um NATO

Kristinn Már og Hjalti fóru fyrir þingnefnd og skýrðu stefnu félagsins. Ekki voru allir sem viðstaddir voru þann fund hlynntir beinu lýðræði eða of mikilli lýðræðislegri þátttöku. Rætt um mikilvægi þess að skýra fyrir fólki að stefna Öldu sé sú að efla þátttökuferli, þjóðaratkvæðagreiðslur séu þrautarlending þegar þátttökuferlin duga ekki til. Fram kom að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hafi lýst áhuga á að hitta fulltrúa Öldu á fundi.

7. Umsögn um frumvarp til sveitarstjórnarlaga

Björn hefur tekið málið að sér og er að vinna að umsögninni. Henni þarf að skila til þingnefndar 15. mars.

8. Önnur mál

Júlíus sagði frá umkvörtunum ýmissa stjórnmálaleiðtoga í umræðum um frávísunartillögu í Landsdómsmáli: málið væri komið út í algjörar öfgar sem kæmi fram í því að almennir floksmenn og flokksfélög væru farin að reyna að hafa áhrif á þingmenn! Þessi forundran leiðtoganna vakti mikla kátínu á fundinum.

Hjalti sagði frá fundi Heimdallar þar sem hann ræddi um tillögur Öldu um lýðræðislega stjórnmálaflokka. Fundarmenn þar töldu tillögur þessar lýsa ástandinu eins og það sannarlega er í okkar „gömlu, góðu“ stjórnmálaflokkum.

Kristinn Már varpaði fram þeirri spurningu hvort Alda ætti að álykta um hið lokaða réttarhald Landsdóms í Þjóðmenningarhúsinu. Þarna væri mál sem varðaði embættisfærslur fulltrúa almennings og því væri sjálfsagt og eðlilegt að aðgangur almennings að því sem þarna fer fram væri sem greiðastur. Þessu vísað til frekari umræðu.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 22:30.