Fundur er í málefnahópi um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna á miðvikudag kl. 20.30 í Grasrótarmiðstöðinni, Brautarholti 4. Allir velkomnir.

Rætt verður um tillögu að stefnu stjórnmálaflokka í anda alvöru lýðræðis en nokkur þörf er á slíkri stefnu nú um mundir. Einnig um önnur verkefni hópsins, meðal annars um gagnagrunn með dæmum um lýðræðisleg þátttökuferli, s.s. eins og þátttökufjárhagsáætlunargerð og slembivalsþing.

Dagskrá

  • Tillaga að stefnu stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis (sjá drög að neðan)
  • Real democracy – a user guide
  • Önnur mál

Allir fundir hjá Öldu eru öllum opnir. Notast er við samhljóða ákvarðanatöku (e. consensus) en að öðrum kosti eitt atkvæði á mann. Allir geta tekið þátt, allir geta lagt hönd á plóg. Umsjónarmenn hópsins eru Björn Þorsteinsson og Kristinn Már Ársælsson.

Drög að stefnu stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis

Lýðræði

Markmið

  • Að almenningur geti tekið ákvarðanir beint og milliliðalaust – lýðræðisleg ákvarðanatökuferli, s.s. þátttökuferli, borgarafundir eða þjóðaratkvæðagreiðslur.
  • Allar ákvarðanir séu teknar fyrir opnum tjöldum nema í algjörum undantekningatilfellum.
  • Allar upplýsingar sem varða almenning séu aðgengilegar, sérstaklega þær sem sem varða vinnu fulltrúa almennings, s.s. þingmanna og ráðherra.
  • Allir hópar samfélagsins séu þátttakendur í umræðu og ákvarðanatöku um málefni samfélagsins.
  • Leikreglur lýðræðisins verði tryggðar í sessi og að þær gildi á öllum sviðum samfélagsins.
  • Almenningur geti átt frumkvæði að málum í gegnum formlega farvegi.
  • Öll stjórnskipan skuli leitast við að finna bestu lausn og að umræður séu leiddar til lykta í sátt og samlyndi eins frekast og kostur sé – kosningar þar sem einfaldur meirihluti ræður sé síðasta úrræði.
  • Allir fulltrúar beri formlega ábyrgð gagnvart umbjóðendum sínum – almenningi. Fulltrúar flokka séu bundnir af stefnu þeirra, persónukjörnir sinni eigin samvisku og slembivaldir af trúnaði við almannahag.
  • Fyrirtæki og fjármagn hafi ekki hagsmunatengsl við fulltrúa almennings.
  • Stjórnsýsla og eftirlit hins opinbera sé gagnsætt og opið.

Leiðir að markmiðum

Að almenningur geti tekið ákvarðanir beint og milliliðalaust – fært ákvarðanir í lýðræðisleg ákvarðanatökuferli, s.s. þátttökuferli, borgarafundi eða almenna kosningu. Öll stjórnskipan skuli leitast við að finna bestu lausn og að umræður séu leiddar til lykta í sátt og samlyndi eins frekast og kostur sé – kosningar þar sem einfaldur meirihluti ræður sé síðasta úrræði.

Leidd verði í lög/stjórnarskrá réttindi almennings til þess að færa ákvarðanir um mál í lýðræðisleg ferli:

  • 10% kjósenda geti fært ákvörðun í þátttökuferli sem ræður niðurstöðu máls og er bindandi. Tilgreindar séu nokkrar tegundir þátttökuferla eftir tilefni og umfangi.
    • Borgarafundir sem vinna stefnumótun til grundvallar skipulagi/ákvörðunum í málaflokki. Slíkir fundir yrðu slembivaldir með minnst 800 manns úr hópi kjósenda og myndu funda í nokkrum lotum.
    • Borgaraþing þar sem fulltrúar (á bilinu 30-160) eru valdir með kosningu og/eða slembivali til þess að fjalla um tiltekið málefni í opnu ferli.
    • Þátttökuákvörðunarferli í mörgum stigum þar sem haldnir eru opnir fundir um allt land þar sem fulltrúar funda fara með niðurstöður á næsta stig sem samræmir og mótar endanlegar tillögur.
  • 10% kjósenda geti fært ákvörðun í almenna kosningu sem ræður niðurstöðu máls. Skylt er að mál fari fyrst í þátttökuferli nema 25% kjósenda krefjist atkvæðagreiðslu. Niðurstaða kosningar er ætíð bindandi.
  • Söfnun undirskrifta sé háð reglum sem tryggja gagnaöryggi og áreiðanleika.
  • Notast sé við samhljóða (e. consensus) ákvarðanatöku og leitast við að komast að niðurstöðu í sátt og samlyndi. Kosning þar sem einfaldur meirihluti ræður skal vera síðasta úrræði.

Allar ákvarðanir séu teknar fyrir opnum tjöldum nema í ítrustu undantekningatilfellum. Allar upplýsingar sem varða almenning séu aðgengilegar, sérstaklega þær sem sem varða vinnu fulltrúa almennings, s.s. þingmanna og ráðherra. Stjórnsýsla og eftirlit hins opinbera sé gagnsætt og opið.

Tryggt sé með lögum aðgengi almennings að upplýsingum er varða ákvarðanir um málefni samfélagsins:

  • Allir fundir opinberra fulltrúa verði opnir. Allar undanþágur í lögum sem ekki varða persónuvernd, lögreglurannsóknir eða aðrar ítrustu kröfur er varða hagsmuni almennings verði felldar úr gildi. Sérstaklega þær sem varða undanþágur fyrir því að gögn og fundir fulltrúa almennings, s.s. þingfundir og skjöl þingmanna og ráðherra, séu opinber.
  • Upptökur eða fundargerðir frá fundum skulu aðgengilegar eins fljótt og auðið er. Fundir skulu sendir út á vefnum sé þess kostur. Gögn skulu aðgengileg eins fljótt og auðið er.
  • Eldri gögn skulu gerð opinber.
  • Almenningi skal ætíð heimilt að koma á framfæri athugasemdum eða ábendingum. Stjórnvöldum sé skylt að svara innsendum erindum efnislega.

Allir hópar samfélagsins séu þátttakendur í umræðu og ákvarðanatöku um málefni samfélagsins.

  • Skylt sé að huga sérstaklega að sjónarmiðum þeirra hópa sem eru jaðarsettir eða standa höllum fæti.
  • Allt að þriðjungur þingmanna/sveitarstjórnarmanna skal valinn með slembivali.
  • Notast skal við slembival í ákvarðanatökuferlum þar sem því verður við komið.
  • Skylt sé að leita umsagnar þeirra hópa sem mál varða. Stuðningur til þeirra hópa sem standa höllum fæti skal standa til boða.
  • Koma skal á sérstöku fyrirkomulagi fyrir félagasamtök/einstaklinga til þess að koma að ákvarðanatöku. Tryggt skal að félagasamtök standi jafnt að vígi, m.a. með sjóðum sem styrkja hagsmunasamtök og reglum um aðkomu félaga, s.s. hvað varðar umsagnir.

Leikreglur lýðræðisins verði tryggðar í sessi og að þær gildi á öllum sviðum samfélagsins.

Grundvallarreglur lýðræðisins, s.s. um eitt atkvæði á mann, valddreifingu, gagnsæi, samfélagslega ábyrgð og svo framvegis, verði innleidd á öllum sviðum samfélagins:

  • Ný lög verði sett um lýðræðisleg fyrirtæki/stofnanir á grunni laga (hérlendis sem erlendis) um samvinnu- og sameignarfélög. Lögin tryggi lýðræðislegan rétt innan allra fyrirtækja.
  • Allar opinberar stofnanir lúti lögum um lýðræðisleg fyrirtæki.
  • Reglur um gagnsæi, jafnrétti og jafnræði gildi um alla lögaðila.
  • Aðgengi að fjármagni til atvinnurekstrar verði á jafnræðis- og samkeppnisgrundvelli en ekki innbyrðis tengslum og fjárhagsstöðu.

Almenningur geti átt frumkvæði að málum í gegnum formlega farvegi.

Leidd verði í lög réttindi almennings til að geta átt frumkvæði að málum:

  • 3% kjósenda geti lagt formlega fram mál á Alþingi, í sveitarstjórn eða við ráðuneyti.
  • 10% kjósenda geti lagt formlega fram mál á Alþingi, í sveitarstjórn eða við ráðuneyti og krafist þess að málið fari í þátttökuferli.
  • Mál sem varða stofnanir/embætti skulu lögð fram við ráðuneyti (viðkomandi yfirvald) sem fjallar um það í opnu ferli.

Allir fulltrúar beri formlega ábyrgð gagnvart umbjóðendum sínum – almenningi. Fulltrúar flokka séu bundnir af stefnu þeirra, persónukjörnir sinni eigin samvisku og slembivaldir af trúnaði við almannahag.

  • Flokkakjörnir fulltrúar skulu bundnir ákvörðun sinna flokka.
  • Allir fulltrúar almennings skulu gangast undir trúnaðareið gagnvart almenningi um að fylgja leikreglum lýðræðisins í einu og öllu, ella sæta ábyrgð.
  • Settar verði formlegar reglur um ábyrgð fulltrúa almennings, s.s. ráðherra- og þingmannaábyrgð en einnig háttsettra opinberra starfsmanna. Meðal reglna skulu ákvæði um skyldu til að gæta almannaheilla í hvívetna.

Fyrirtæki og fjármagn hafi ekki hagsmunatengsl við fulltrúa almennings.

  • Hertar reglur verði settar um fjármál stjórnmálaflokka/fulltrúa almennings (s.s. persónukjörinna). Ekki verði heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum og lögaðilum öðrum en hinu opinbera í gegnum sjóði á jafnræðisgrundvelli.
  • Einungis viðkomandi stjórnmálaflokki/fulltrúa sé heimilt að kaupa þjónustu fyrir viðkomandi stjórnmálaflokk/fulltrúa, s.s. auglýsingar.
  • Allt bókhald stjórnmálaflokka/fulltrúa sé öllum opið og aðgengilegt.
  • Hámarksframlag einstaklings á ársgrundvelli skal ekki vera hærra en sem nemur meðalmánaðarlaunum.