Mættir: Hjalti Hrafn, Helga Kjartans, Guðni Karl, Guðmundur D., sem stýrði fundi, Hulda Björg, Stefán Jónsson, Reinhard Hennig og Sólveig Alda, sem ritaði fundargerð. Fundur settur 20.40

Dagskrá fundar var að vinna áfram að nýjum lögum um starfsmannasamvinnufélög/lýðræðisleg fyrirtæki eða Co-Op´s. 

Sólveig og Hjalti áttu fund með þinghóp Hreyfingarinnar fyrir stuttu en þinghópurinn hefur lýst sig áhugasaman um að styðja við gerð nýrra laga um lýðræðisleg fyrirtæki. Fleiri þingmenn úr öðrum flokkum hafa einnig lýst áhuga sínum.

Rætt um þá kynningu sem síðar þarf að hefja þegar lengra er komið. Það er ákaflega mikilvægt að þessar hugmyndir fari sem víðast því það er á brattann að sækja í þessum málaflokki.

Á fundinum ræddum við þau verkfæri sem við höfum við gerð nýrra laga. Við höfum lagaramma erlendis frá sem fyrirmyndir, einnig bæklinga frá Clarity verkefninu á vegum SÞ en þeir bæklingar eru sérhannaðar fyrir samfélög til að endurmeta löggjöf sem fyrir er, meta það umhverfi sem bíður nýrra laga og veitir stuðning við gerð þeirra. Þessa bæklinga má finna áwww.clarity.coop

Hjalti hefur tekið saman eitt og annað úr lögum erlendis frá og hefur stillt því upp í grind að lagaramma. Fyrir næsta fund munum við kynna okkur vel þau lög sem fyrir eru (samvinnufélagalög og sameignarfélagalög), lesa bæklingana frá Clarity, renna í gegnum heimasíðu ICA (www.ica.coop) og sanka að okkur upplýsingum og verkfærum fyrir næstu skref. Einnig er vert að renna í gegnum eldri fundargerðir og glöggva sig.

Stefnan tekin á vikulega vinnufundi og næsti fundur er settur mánudagskvöldið, 19. mars, en þá munum við útdeila verkefnum og hefja eiginleg skrif.

Fundi slitið rétt rúmlega 22.00