Alda – Málefnahópur um skilyrðislausa grunnframfærslu

Mætt voru: Hjalti Hrafn, Guðmundur Ragnar, Seere, Júlíus, Guðni, Ísleifur, Guðmundur Daði

Fundarstjóri: Guðmundur Ragnar

Ritari: Hjalti Hrafn

Fundur var settur kl 20:30 í Grasrótarmiðstöðinni.

Ísleifur byrjaði á að kynna tillögur Bótar um breytingu á 76. grein stjórnarskrár sem sendar voru á stjórnlagaráð.

Hjalti kynnti hugmyndina um skilyrðislausa grunnframfærslu (unconditional basic income) í útfærslu Eric Olin Wright og Philippe Van Parijs. Nefndir voru nokkrir kostir og gallar hugmyndarinnar sem og mögulegar leiðir til að fjármagna og framkvæma hana.

Rætt var um mögulegar fjármögnunarleiðir. Guðni benti á að auðlindasjóður myndi ganga skammt í að borga öllum grunnlaun og stakk jafnframt upp á því að það væri hægt að setja á einhverskonar lágmarks vinnuskyldu með grunnlaununum.

Guðmundur Ragnar svaraði því og benti á að fólk væri þegar í flestum tilfellum að fá þessa peninga einhverstaðar frá í samfélaginu. Þetta væri spurning um jafnari og skilvirkar dreifingu á auðæfum sem þegar væru í umferð. Einnig kom það fram í umræðum að vinnuskylda væri ekki æskileg. Júlíus benti á að auðlindasjóðir gætu vel gengið upp, hann hefði rætt við sjómenn sem gætu vel hugsað sér að borga auðlindagjald frekar en að leigja kvóta og að sjáfarútvegurinn gæti blómstrað og samt gefið af sér mikla peninga fyrir alla þjóðina.

Næst var rætt um það að fólk með trygga grunnframfærslu hefði aukna möguleika á að stofna sín eigin fyrirtæki eða fara út í einhverskonar nýsköpun.

Ísleifur lýsti yfir efasemdum, tillaga Bótar um betrumbætur á 76. gr. stjórnarskrárinnar hefði varla fengið neinn byr og tillagan um skilyrðislausa grunnframfærslu væri líklega of útópísk.

Næst tók til máls Seere sem sagði frá stöðu mála í Þýskalandi þar sem þessi hugmynd er mikið í umræðunni og stöðugt að fá meira og meira fylgi. Meðal þeirra sem eru að vinna hugmyndinni fylgi er þýski sjóræningjaflokkurinn sem hefur komið með nokkrar útfærslur á fjármögnun til dæmis með virðisaukaskatti. Hjalti benti á í því samhengi að menn væru nokkuð sammála um að skilyrðislaus grunnframfærsla myndi ganga betur í neyslusamfélagsmenningu. Í slíku samfélagi er líklegt að fólk með meiri peninga í höndunum eyði meira sem svo aftur þýðir meiri tekjur af virðisaukaskatti sem fer í fjármögnun grunnframfærslunnar í framtíðinni. Þannig haldi peningarnir áfram í hringrás. Júlíus lýsti yfir furðu sinni á því að þetta væri svona stórt mál í Evrópu en varla til í umræðunni hér á Íslandi, það væri þó slæmt ef þetta myndi auka á neysluhyggju manna. Guðmundur Ragnar benti þá á að aukin neysla þýddi ekki endilega aukin neysla á vörum. Með tilkomu skilyrðislausrar grunnframfærslu væri líklegt að áherslur samfélagsins myndu breytast.

Guðmundur Daði tók undir það. Tilkoma grunnframfærslu myndi breyta miklu í menningu okkar. Einnig benti hann á að hópar sem ekki gætu unnið í dag eins og til dæmis öryrkjar gætu líklega komið sér aftur út á vinnumarkaðinn ef að vinnudagurinn styttist og þeir hefðu meiri stjórn yfir vinnuaðstæðum sínum.

Guðmundur Ragnar benti einnig á að með skilyrðislausri grunnframfærslu væri það ekki mögulegt að lenda utan kerfisins. Rétturinn á framfærslu væri alltaf hjá fólkinu en ekki há stofnunum. Guðni tók undir þetta og sagðist einmitt þekkja fólk sem hefði lent utan kerfisins á þennan hátt og ekki geta sótt sér bætur.

Rætt var um næstu skref og samþykkt var að setja niður formlega stefnu fyrir Öldu í þessum málum en jafnframt samþykktu fundarmenn að mikilvægast í bili væri að kynna hugmyndina og að sýna fram á að hún gæti virkað.

Seere stakk upp á því að fá þýska viðskiptamanninn Götz Werner til að halda fyrirlestur um þetta mál. Hann hefði trúverðugleika en væri einnig ötull talsmaður skilyrðislausra grunnlauna. Vel var tekið í þá hugmynd.

Júlíus sagði frá grein eftir Carole Pateman og benti á að í kynningu væri ekki vitlaust að taka umræðuna út frá hugmyndinni um frelsi. Með skilyrðislausum grunnlaunum þyrfti fólk ekki lengur að upplifa sig sem þræla þar sem það væri ekki háð vinnunni.

Upp úr þessum athugasemdum spunnust umræður um virði vinnu. Guðmundur Ragnar benti á að það væri ekki endilega æskilegt að fólk ynni og Hjalti bætti því við að það væri líka mikil og nauðsynleg vinna unnin án þess að menn fengju borgað fyrir það.

Guðmundur Ragnar stakk upp á þeirri útfærslu við kynningu verkefnisins að færa niður ellilífeyrisaldurinn í skrefum og leyfa fólki að vinna með þeirri framfærslu. Þannig gæti grunnframfærslan náð að sanna sig og smá saman náð yfir allt samfélagið. Júlíus hafði efasemdir um þá hugmynd, það væri ekki æskilegt að tína til hópa, eitt þyrfti yfir alla að ganga.

Guðmundur Daði stakk upp á að nálgast hugmyndina út frá sjálfbærni. Skilyrðislaus grunnframfærsla myndi líkast til hægja á hagkerfinu sem væri nauðsynlegt til að skapa sjálfbært samfélag.

Ákveðið var á fundinum að deila skjölum og gögnum og að annar fundur yrði haldinn miðvikudaginn 4.apríl.

Það ríkti á fundinum góður andi og mikill einhugur um að vinna hugmyndinni um skilyrðislausa grunnframfærslu fylgi.

Fundi var slitið klukkan 22:00