Stjórnarfundur í Öldu – 5. júní 2012

Fundur var settur 20:40. Mætt voru: Hjalti Hrafn, Guðni Karl, Kristinn Már Ársælsson (er stýrði fundi), Júlíus Valdimarsson, Stefán Vignir, Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð) og enskur mannfræðinemi.

1.Yfirlit yfir starf í hópum:
Hagkerfishópur: Haldinn var fundur nýlega þar sem unnið var að þingsályktunartillögu sem varðar lög um lýðræðisleg fyrirtæki. Þingsályktunartillagan er nú svo til fullgerð, en nokkrar athugasemdir hafa borist um hana frá félagsmönnum, auk þess sem laga þarf nokkur smáatriði. Þegar búið er að laga það, mun hún fara til Hreyfingarinnar. Reiknað er með að einn fund enn þurfi til að ganga frá þessu.

Menntahópur: Lítið hefur gerst í hópnum. Haldinn var fundur sem var vel sóttur, en lítið gerst síðan.

Hópur skilyrðislausa grunnframfærslu: Ekkert hefur enn gerst frá góðum fundi sem var haldinn. Stefnan er á að hópurinn hittist í haust og móti tillögur að stefnu Öldu um skilyrðislausa grunnframfærslu. Hjalti mun kenna um þessa hugmynd íRóttæka Sumarháskólanum.

Stjórnmálahópur: Drög að stefnu lýðræðislegs stjórnmálaflokks, ætluð fyrir stjórnmálaflokka til að taka upp, eru á vefsíðunni. Stefnan er aðlöguð úr stefnu Öldu. Haft hefur verið samband við stjórnmálaflokka um kynningu á stefnunni og hafa flestir svarað boði. Verið er að skipuleggja tímasetningar og ýta á þá sem ekki hafa svarað. Stefnan hefur verið kynnt fyrir einum flokki.

Unnið er að Real Democracy Now verkefninu, beðið er fjármagns.

Unnið er að borgarafundum í samráði við áhugasama aðila. Hugmyndin er að áhugasamir hittist sem vilja breyta samfélaginu. Hlutverk Öldu yrði ráðgjöf um framkvæmd og skipulag, en einnig að fulltrúar frá Öldu myndu sjá um þjálfun á þeim sem myndu sjá um hluta framkvæmdarinnar. Markmiðið er að koma í veg fyrir viss mistök sem áttu sér stað á Þjóðfundinum og í stjórnlagaráði, eins og það umræðuefni Þjóðfundar voru full víðtæk og niðurstaðan var frekar þunn. Markmiðið er því að gera betur og búa til trúverðugar niðurstöður sem eitthvað frekar má gera við, niðurstöður sem er erfitt að hunsa. Umræðuefni fundanna verður líklega lýðræði og hagkerfi.

Sjálfbærnihópur: Stefna fyrir stjórnmálaflokka er í vinnslu. Unnið er að hugmyndum um hvernig á að endurnýta um þessar mundir. Ráðstefnu um sjálfbærniþorp var frestað fram á haustið vegna lítils tíma.

Stytting vinnutíma: Ályktun Öldu ásamt grein Guðmundar fer í prentun vonandi innan tveggja daga frá fundinum. Borist hefur ásættanlegt tilboð í prentun. Þegar prentun er lokið fer þetta í póst og verður sent öllum stéttarfélögum á Íslandi, ásamt helstu samtökum atvinnurekenda. Einhverjum dögum síðar fer sama efni á fjölmiðla og aðra aðila. Vonumst eftir umræðum sem má svo reyna að kynda undir í haust, reynist það nauðsynlegt.

Rætt hefur verið um myndun fjölmiðlahóps innan Öldu, en rætt hefur verið um að það vanti stefnu Öldu í fjölmiðlamálum . Stefnt er á að kanna grundvöll fyrir slíkum hópi í haust. Markmið hópsins væri að kanna eignarhald, lýðræði innan fjölmiðla, fjármögnun og margt fleira. Til eru lýðræðislega reknir fjölmiðlar, eins og t.d. New Internationalist.

2. Stefna fyrir stjórnmálaflokka um sjálfbærni var lesin upp upp og rædd. Stefnan hafði áður verið lesin yfir af formanni Landverndar og öðrum til og líkaði þeim vel. Stefnan er aðgengileg á vefsíðunni. Greinargerðir vantar, en þar verður bent á ýmislegt sem þarf að bæta úr til að stefnan geti gengið í reynd, t.d. um vöxt hagkerfa og margt fleira.

3. Handahófsval í Öldu: Tveir í stjórn Öldu verða handahófsvaldir í haust. Tölvupóstur verður sendur öllum félögum um hvernig þeir geti farið að því að láta undanskilja sig frá handahófsvalinu. Ætlunin er að kynna ferlið vel innan Öldu og nýta þannig reynslu frá Dögun þar sem viss vandamál komu upp.

4. Þingsályktunartillaga um lýðræðisleg fyrirtæki: Stefnan er að senda þingsályktunartillöguna á þingmenn Hreyfingarinnar fljótlega, en þeir hafa lýst yfir áhuga á því að flytja slíka þingsályktunartillögu á Alþingi. Haldið verður áfram með málið í haust, en hugmyndir hafa verið uppi um að halda ráðstefnu um lýðræðislega rekin fyrirtæki. Slíkt þarfnast auðvitað skipulagningar. Rætt var um að Háskólinn á Bifröst komi að málum varðandi ráðstefnuna, en það er allt óljóst.

5. Ályktun um stjórnmálaástandið lesin upp og hún rædd. Athugasemdir bárust sem Kristinn Már mun vinna úr. Afgreidd að öðru leyti.

6. Ályktun um forsetaembættið lesin upp og hún rædd. Umræður snerust um samræmi ályktunarinnar við aðrar ályktanir og svo stefnu Öldu. Kristinn Már vinnur úr athugasemdum. Afgreidd að öðru leyti.

7. Ályktun um fjölmiðla lesin upp og rædd. Voru nokkrar athugasemdir gerðar og ákveðið að bæta við efnisgreinum um lýðræði, fjármögnun og jöfnum tækifærum frambjóðenda. Ekkert bendir til þess að fjölmiðlar hafi breyst eftir hrun. Kristinn Már vinnur úr athugasemdum. Afgreidd að öðru leyti.

8. Önnur mál:

Haft var samband við Guðna vegna ráðstefnu þar sem fulltrúa Öldu var boðið. Stjórn mun afgreiða það mál.

Til stendur að breyta nokkuð ritstjórn á vefsíðu Öldu. Þau mál eru í mótun, en hugmyndin er að einhver verði fenginn til að ritstýra efni og muni hann sjá um að nýtt efni fari inn reglulega. Sérstaklega verði gætt að ensku síðunni.

Guðmundur er að semja “spurt og svarað um Öldu” (FAQ), sem mun enda inni á vefsíðu Öldu. Fundargestir og lesendur síðunnar eru beðnir um að senda honum athugasemdir og uppástungur að spurningum á netfangið gudm.d.haralds (við) gmail (punktur) com – Er markmiðið að hafa tilbúin drög fyrir næsta stjórnarfund.
Rætt var um að fjölga stjórnarfundum í Öldu og að þeir yrðu haldnir 20:00 í stað 20:30 eins og nú er. Engin ákvörðun tekin.

Fundi var slitið 22:51.