Fundur í málefnahóp um lýðræði á sviði stjórnmála/málefnahóp um alvöru lýðræði, Grasrótarmiðstöðinni 20. ágúst kl. 20:00.

Mættir voru Kristinn Már Ársælsson, Guðmundur D. Haraldsson (sem stýrði fundi), Björn Þorsteinsson (sem ritaði fundargerð), Björn Leví Gunnarsson og Júlíus Valdimarsson.

1. Lýðræðislegur stjórnmálaflokkur/stefna í lýðræðismálum, kynning og fundir.

Kristinn Már greindi frá stöðu mála. Höfum þegar fundað með Dögun, fundur með Bjartri framtíð var á dagskrá snemmsumars en var frestað, Samstaða og VG eru líka í sigti.

Rætt um að halda opinn fund um málið, ákvörðun um það tekin síðar.

2. Real Democracy Now!, gagnagrunnur.

Hér er komið næsta stóra verkefni hópsins. Rætt um að byrja á almennum upplýsingum (sbr. hugmyndir hópsins um að gagnagrunnurinn verði lagskiptur).

Samþykkt að Kristinn Már taki saman efni um þátttökufjárhagsáætlanagerð; Guðmundur D. taki saman efni um slembivalin borgaraþing; og Björn Þ. taki saman efni um lýðræðisleg fyrirtæki í samráði við forsprakka málefnahóps um lýðræði á sviði efnahagslífsins.

Fyrstu drög verði tilbúin 1. október.

3. Siðareglur stjórnmálaflokka.

Beiðni hefur borist frá Dögun um að Alda taki að sér að semja drög að slíkum reglum. Málið rætt. Björn Þ. lagði til að Dögun verði bent á að snúa sér til Siðfræðistofnunar HÍ sem býr yfir mikilli reynslu á þessu sviði. Hafi félagar í Öldu áhuga á að leggja málinu lið er það auðvitað líka upplagt.

4. Stjórnarskrármálið.

Rætt um stöðu málsins. Samþykkt að Alda haldi sínu striki, sbr. fyrri ályktanir félagsins um efnið. Full ástæða til að málið verði rætt á næsta stjórnarfundi. Sú hugmynd kom upp að reyna mætti að fá þingmenn til að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið þar sem kveðið væri á um að endurskoða eigi stjórnarskrána innan fimm ára eða svo.

5. Kosningavetur.

Staða mála í stjórnmálum rædd fram og til baka í ljósi þess að þingkosningar eru í vændum, og með tilliti til þess hverju Alda geti fengið áorkað. Sú hugmynd kom fram að Alda gæti tekið saman yfirlit um það sem hefði mjakast í rétta átt í lýðræðismálum á kjörtímabilinu og það sem áunnist hefur í lýðræðismálum á kjörtímabilinu og það (fjölmarga) sem sé ógert. Rætt um að Alda geti haft áhrif á það hvaða mál verði ofarlega á baugi í kosningabaráttunni.

Björn Leví stakk upp á því að flokkarnir verði látnir standa skil á því hver stefna þeirra sé í lýðræðismálum, t.d. hvað varðar uppröðun á framboðslista.

Rætt var um hvernig mætti halda fjölmiðlum við efnið. Stungið upp á því að útbúa upplýsingaefni fyrir þá hvað lýðræðismál varðar. Efnið þyrfti að vera tilbúið í lok október. Kristinn Már stakk upp á því að sérstakur verkefnisstjóri yrði fenginn í verkið. Samþykkt að taka málið upp á næsta stjórnarfundi.

6. Önnur mál.

Kristinn Már stakk upp á því að breyta nafni málefnahópsins, enda snúist vinna hans um lýðræði en ekki stjórnmál út af fyrir sig. Samþykkt að breyta nafni hópsins í „Málefnahópur um alvöru lýðræði“.

Í tilefni af vinnu félagsins (einkum þó málefnahóps um lýðræði í efnahagslífinu) við samvinnufélagalöggjöf vakti Guðmundur D. máls á því að Samband íslenskra samvinnufélaga er ennþá starfandi, m.a. veiti það styrki. Upplagt væri að félagið sækti um styrki þar. Guðmundur D. hefur samband við forsprakka málefnahóps um lýðræði í efnahagslífinu og bendir þeim á þetta.

Félaginu hefur borist ósk um að það sjái um að stofna samráðsvettvang grasrótarhreyfinga. Kristinn Már sendir tölvuskeyti þess efnis á stjórnina.

Fundi slitið kl. 21:55.