Alda hefur veitt Alþingi umsögn um frumvarp að nýjum upplýsingalögum. Umsögnin, sem var send til Alþingis 6. nóvember 2012, fylgir hér að neðan.

***

Umsögn um 215. mál 141. löggjafarþings frá Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði.

Alda telur að gera þurfi nokkrar breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi.

Ljóst er að almenningur er valdhafinn í lýðræðisríkjum. Fulltrúar almennings fara með valdið. Almenningur á því rétt á öllum upplýsingum um störf og verk fulltrúa sinna nema mjög sérstakar ástæður komi til, s.s. persónuupplýsingar eða rannsóknarhagsmunir. Í núverandi lögum og fyrirliggjandi frumvarpi er að finna takmarkanir sem byggja á öðrum forsendum en þeim sem sættast má á í þessu tilliti. Í þeim tilvikum er augljóst að hagsmunirnir sem felast í aðgengi almennings að upplýsingunum vega þyngra en þær takmarkanir sem lagðar eru til í frumvarpinu. Hagsmunir fulltrúa almennings af því að leiða mál til lykta í leynd eru ætíð veigaminni en hagsmunir almennings af því að hafa upplýsingar um gjörðir fulltrúa sinna.

Þeir hagsmunir sem vega þyngra en réttur almennings til aðgengis að upplýsingum eru að mati Öldu:

a. Persónuupplýsingar sem stjórnvöld safna við afgreiðslu mála.
b. Rannsóknarhagsmunir t.d. lögreglu og dómstóla við fyrirliggjandi mál.
c. Öryggishagsmunir íbúa og náttúru.

Alda leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Brott falli í fyrsta málslið 5. gr. „sem varða tiltekið mál“.

Aðgengi almennings að gögnum skal ekki takmarkast við tiltekin mál, s.s. þau sem varða ákvarðanir gagnvart aðilum. Nauðsynlegt er að almenningur hafi aðgang að öllum gögnum hins opinbera sem ekki eru afar þungvæg og málefnaleg rök fyrir að takmarka aðgang að. Sem dæmi um slík gögn sem almenningur á að hafa fullan aðgang að má nefna gögn er varða almenna stjórnsýslu, s.s fundargerðir samráðsfunda ráðuneyta og stofnana og skýrslur/gögn er varða almenna stjórnsýsluframkvæmd. Almenningur á rétt á aðgengi að slíkum gögnum enda eru þau mikilvæg í samfélagsumræðu um starfsemi hins opinbera.

2. Brott falli 1., 2. og 4. töluliður 6. gr. frumvarpsins.

Hagsmunir fulltrúa almennings af því að leiða mál til lykta í leynd eru ætíð veigaminni en hagsmunir almennings af því að hafa upplýsingar um gjörðir fulltrúa sinna. Þessi gögn eru mikilvæg í samfélagsumræðu um starfsemi hins opinbera. Almennar takmarkanir er varða persónuupplýsingar, öryggi eða rannsóknarhagsmuni er kveðið á um sérstaklega. Sjá rökstuðning hér á undan.

3. Brott falli 8. gr.

Þau gögn sem liggja að baki ákvörðunum eru mikilvæg og ekki verður séð hvaða málefnalegu ástæður eru til takmörkunar á aðgengi að þeim. Þá veita slík gögn mikilvægar upplýsingar um starfsemi og starfshætti hins opinbera sem varða almenning mikils.

4. Alda fagnar sérstaklega 13. gr. frumvarpsins og hvetur til þess að fjármagn verði sett í að gera gögn aðgengileg opinberlega á vefsvæðum hins opinbera.

Þá telur Alda að horfa megi til sænskra stjórnvalda og laga hvað þessi mál varðar en styður stjórnvöld hérlendis eindregið í viðleitni sinni til að ganga lengra í því að veita almenningi aðgang að gögnum þar sem því verður við komið.

Því er stundum haldið fram að sé komið á gagnsæi og réttur almennings til aðgengis að upplýsingum tryggður, að þá færist raunverulegir ákvarðanatökufundir annað og að skráning á fundum verði ábótavant. Við þetta vill Alda gera athugasemdir. Fyrst ber að nefna að núverandi aðstæður eru með þeim hætti að ákvarðanir eru teknar á lokuðum fundum og almenningur hefur ekki aðgengi að gögnum og upplýsingum sem liggja til grundvallar ákvarðanatöku. Aukið gagnsæi er þannig ekki að breyta neinu til verri vegar frá því sem nú er. Slíkar röksemdir gegn gagnsæi hljóta þá að eiga við almennt um alla fundi, að almennt sé það til trafala að fundir séu opnir og að fólk geti kynnt sér hvað fram fór á fundum. Augljóslega er svo ekki. Eiga þá fundir Alþingis að vera lokaðir? Með auknu gagnsæi og aðgengi að gögnum verður ábyrgð skýrari og forsendur ákvarðanatöku færast upp á yfirborðið. Þrýstingur myndast á þá sem taka ákvarðanir fyrir hönd almennings um að skýra og skrá sín sjónarmið í aðdraganda ákvarðanatöku. Að öðrum kosti er öllum ljóst, séu engin rök eða gögn sem liggja til grundvallar málum, að eitthvað hafi farið úrskeiðis í undirbúningi málsins. Að eitthvað vanti upp á, eða eitthvað þoli ekki dagsins ljós.

Því er mikilvægt að tryggt sé að fundargerðir séu ætíð haldnar og að þær séu ítarlegar þannig að ljóst sé hver afstaða fundarmanna var til mála, hver rök þeirra voru og hvaða gögn liggja til grundvallar ákvarðanatöku eða málsmeðferð.

Alda er reiðubúin að senda fulltrúa á fund þingnefndar vegna málsins.