Fundur í málefnahóp um alvöru lýðræði
19. nóv. 2012 kl. 20:00 í Grasrótarmiðstöðinni, Brautarholti 4

Mætt: Guðmundur D., Guðni Karl, Hulda Björg, Einar Gunnarsson, Kristinn Már (fundarstjóri), Björn (fundarritari), Birgir Smári, Þórarinn

Allir fundarmenn kynntu sig örstutt. Kristinn Már útskýrði fundavenjur Öldu fyrir nýjum félagsmönnum.

1. Aðgerðahópar málefnahóps

a. Real Democracy Now!

Vefsíða þar sem safnað er saman upplýsingum um lýðræðisleg þátttökuferli og hvernig megi innleiða þau. Á íslensku og ensku. Hefur verið í bígerð nokkuð lengi – nú þarf að drífa í að klára þetta og koma síðunni í gagnið.

Guðni spyr hverjir megi skrifa inn á síðuna. Kristinn Már: hver sem er – en við (í þessum málefnahópi) vorum búin að skipta með okkur verkum fyrir nokkrum mánuðum hvað grunnþætti síðunnar varðar. Ætluðum að skila 1. nóv., það náðist ekki. Guðni Karl bendir á að fleiri málaflokkar mættu vera á síðunni, t.d. þátttökufjárhagsáætlunargerð (ÞFÁG). Kristinn Már bendir á Participedia-vefinn. á vefnum verða vísanir í aðrar vefsíður af sama toga.

Nýtt deadline: byrjun janúar.

Einar spyr um Participediu (www.participedia.net). Kristinn Már útskýrir hvað þar er um að ræða. Vefurinn sá arna er tengdur Harvard og Real Utopias-verkefninu.

Guðni Karl talaði um mikilvægi þess að nýta hugmyndina um ÞFÁG úti á landi. Kristinn Már: ætlunin er að senda öllum sveitarfélögum á landinu efnið frá ráðstefnunni og viðtölin úr Silfrinu tengd henni. Þetta verður fljótlega og síðan fylgt eftir eins og kostur er.

Kristinn Már sagði síðan frá fundi með sveitarstjórum sem haldinn var þriðjudaginn eftir ráðstefnuna. Á fundinum kom fram að borgarstjóri hyggst útvíkka ÞFÁG í Reykjavík. Hulda Björg sagði frá því að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi hafi boðað aukið þátttökulýðræði, kom fram á Facebook. Kristinn Már greindi frá því að Ólafur frá VG í Kópavogi hefði upplýst hann um að þau hefðu reynt slembival. Reynslan frábær. Góð mæting úr úrtakinu á fundi. Áhugavert því ferlið er ekki bindandi. Fylgja þarf þessu eftir.

b. Þjóðfundur

Þessi undirhópur er munaðarlaus. Kristinn Már og Björn reifuðu málið. Ákveðið að senda hvatningarskeyti á félagsmenn og biðja um að fólk bjóði sig fram til að taka að sér stjórn þessa verkefnis. Fundurinn þyrfti að vera í síðasta lagi í byrjun febrúar, þ.e. áður en landsfundir stjórnmálaflokkanna skella á.

c. Lýðræðisvæðing menntakerfisins

Birgir Smári: verið að vinna í stefnu Öldu í menntamálum. Vonandi komin drög að stefnu í janúar. Mikill gangur í hópnum.

d. Fjölmiðlar – Full fact

Munaðarlaus undirhópur. Til skýringar upplýsti Kristinn Már fundarmenn um að þessi hópur væri ekki það sama og greiningardeild Öldu. Sú síðarnefnda sér um að koma á framfæri nýjum mælikvörðum á hagkerfi og umhverfi etc., en fjölmiðla-/full fact-hópurinn leggur mat á upplýsingar sem koma fram í fjölmiðlum. Björn velti því fyrir sér hvort þetta væri ígildi þess að stofna lítinn fjölmiðil. Kristinn Már sagði að t.d. gæti verið um að ræða 5 manna hóp sem gerir það sem hann getur í e.k. Wiki-stíl. Guðmundur D. kvaðst mundu leita ráða hjá tveimur utanfélagsmönnum sem gætu haft áhuga á að „koma að málinu“. Björn spurði hvort greiningardeildin og FFF-hópur ættu að vinna saman. Það verður rætt á fundi greiningardeildar á fimmtudag.

e. Lýðræðisleg skipan stjórnmálaflokka og stefna í lýðræðismálum fyrir stjórnmálaflokka

Er í kynningarfasa. Dögun hefur tekið upp stefnuna að grunni til og Píratar hafa nýtt sér þennan grunn líka. Guðni spyr um uppstillingarmál hjá Dögun. Píratar notast við „Liquid democracy“. Kristinn Már rifjar upp þá tíð þegar prófkjör þóttu lýðræðisleg en uppstillingarnefndir ekki. Nú er þessu þveröfugt farið!

Boða þarf til opins fundar um lýðræði og stjórnmálaflokka með fulltrúum stjórnmálaflokkanna og spyrja þá: hvers vegna gengur þetta EKKI? Halda fundinn í janúar.

f. Alþjóðamál

Björn, Hjalti og Sibeso stýra hópnum. Hélt fund nýlega um málefni flóttamanna. Hópurinn nýbyrjaður og lofar góðu.

2. Fundir á kosningavetri

Áðurnefndur fundur um stjórnmálaflokka og lýðræði er stærsti fundur þessa hóps (þ.e. alvöru-lýðræðis-hóps) á næstunni.

3. Upplýsingalög

Kristinn Már og Björn fóru á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á fimmtudag (15. nóv.) til að ræða við nefndina um umsögn félagsins um frumvarp til upplýsingalaga. Blaðamannafélagið var fyrir nefndinni um leið og fulltrúar og Öldu og töluðu fyrir því að fella frumvarpið. Meirihluti nefndarinnar töldu stórkostlega framför í því að stytta tímann sem tiltekin gögn eru lokuð úr 30 árum niður í 8 ár.

Rætt um grunnafstöðu kjörinna fulltrúa: hún virðist ekki vera sú að aðalatriðið sé að gæta hagsmuna umbjóðendanna, þ.e. almennings.

Rætt var um að halda fund um upplýsingalögin? Málið verður kannað og rætt við Birgittu Jónsdóttur og fulltrúa IMMI.

Hulda Björg talaði um hræðslu þingmanna við dagsljósið.

Björn greindi frá því hvernig nefndarmenn lögðu frumvarpið upp: eins og þeir væru í samningaviðræðum að teygja sig niður og leggja sig alla fram um að ná „málamiðlun“. Undarlegt í ljósi þess að valdið er í reynd hjá þeim. Hvað heldur þá aftur af þeim?

Einar: lýsingar af þingnefndarfundum sem ég hef heyrt eru allar á þessa leið. Ræddi um ákvarðanir sem teknar eru án þess að nokkur gögn fylgi með. T.d. árásin í Írak. Kristinn Már: skráningarskylda er styrkt í nýju lögunum. Einar: þegar engin gögn eru til og „mikil mistök“ eru gerð og menn reyna að hylja slóðina, eru þá einhver viðurlög við því? Kristinn Már: sendum fyrirspurn um þetta til forsætisráðuneytisins. Einar: þessi málefni komu upp í Bretlandi varðandi ákvörðunina um að fara inn í Írak, og svo hér í tengslum við OR. Kristinn Már: ákvörðunin er kæranleg, og þá er slæmt mál ef engin gögn eru til sem styrkja ákvörðunina. Þurfum að kíkja betur á skráningarskylduna.

Einar: umræðan snúist um prinsippið, ekki einstök mál.

Kristinn Már: meirihluti undanþágna í lögunum lýtur að ráðuneytum og stjórnmálamönnum. Gagnvart stofnunum virka upplýsingalögin vel.

Björn talaði um þann sið að stjórna munnlega, nota ekki tölvupóst, gefa skipanir undir fjögur augu eða gegnum síma, o.s.frv. Vel til þess fallið fyrir þá sem vilja forðast að sæta ábyrgð vegna ákvarðana sinna.

4. RÚV

Alda sendi inn umsögn um breytingar á lögum um RÚV þar sem lagt var til að stofnunin/fyrirtækið yrði lýðræðisvætt. Yrði gert að samvinnufélagi, lýðræðislegu fyrirtæki. Stjórn skipuð á annan hátt en nú er, með fulltrúum ýmissa hópa og slembivöldum fulltrúum.

Rætt um samvinnufélagalög og löggjöfina um evrópsk samvinnufélög.

5. Önnur mál

Þórarinn: fundur um samfélagsbanka í gær. Ari Teitsson, formaður Sambands íslenskra sparisjóða (SÍSP), fór þar á kostum. Varpaði ábyrgðinni yfir á hópinn: stofnið banka! Það er ekkert mál. Búa til módel, ekkert endilega það sama og sparisjóðirnir, en SÍSP leggur síðan málinu lið á fjöldamarga vegu. Sparisjóðirnir eru í útrýmingarhættu og vantar sárlega einhvern til að hafa samráð við á höfuðborgarsvæðinu. SÍSP getur útvegað kennitölu, fjármagn, aðstöðu, starfsfólk. Ara leist vel á samfélagsbankamódelið, ívið betra en gamla sparisjóðaformið. Upphafið að lýðræðisvæðingu bankakerfisins.

Guðni spyr um fyrirstöðu af hálfu Seðlabanka.

Sameining sparisjóða er í vændum, þá losna kennitölur sem hægt er að flytja suður.

Kristinn Már: næsti fundur í LH-hóp tekur á þessu.

Björn sagði frá umræðu í Silfri Egils í gær, um hrægammasjóði, snjóhengju o.s.frv.

Rætt um stjórnarskrármálin. Eignarréttarákvæði breytt af sérfræðinganefnd.

Fundi slitið kl. 21:40.