Fundur settur kl. 20:00. Mætt voru: Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð), Ásta Hafberg, Hulda Björg, Guðni Karl, Júlíus Valdimarsson, Hilmar S. Magnússon, Kristinn Már Ársælsson (er stýrði fundi), Guðbrandur Jónsson og Gunnar F. Hilmarsson

Í upphafi fundar var byrjað á að segja frá starfsemi Öldu almennt.

1. Opnir fundir Öldu.

Eins og hefur verið rætt áður er áformað að halda opna fundi (sjá t.d. http://alda.is/?p=2096). Fór fram almenn umræða um fundina frá því á síðasta fundi. Dóra kannar hvort ráðhúsið sé laust Ásta kannar hvort Rakel eða Hjara veraldar geti tekið fundina upp, eða þá hópurinn úr Flensborgarskóla sem tók upp lýðræðisráðstefnuna í haust.

Rædd var dagsetning fyrir fundina og ákveðið að halda þá eftir að stóru flokkarnir halda sína landsfundi, en dálítið áður en kosningabaráttan hefst. Ástæðan er þessi: Ef fundirnir eru haldnir fyrir landsfundi, þá er auðvelt fyrir fulltrúa flokkana að afsaka sig með orðum eins og: „Góð tillaga og ég tek hana með mér á landsfund okkar í flokk X“ og ekkert hægt að segja við því. Séu þeir hins vegar haldnir eftir landsfundina er líklegra að vitrænni svör fáist. Líkleg tímasetning fyrsta fundar er í lok febrúar eða byrjun mars og svo koll af kolli.

Nokkuð var rætt um áhuga fjölmiðla. Ómögulegt er að segja til um áhugann fyrirfram.

Rætt var um að áherslan í málefnum fundanna verði út frá samþykkri stefnu Öldu. Þannig verður lítið rætt um t.d. lýðræðisvæðingu menntakerfisins, því stefna sé ekki samþykkt þar, en mun meira rætt um lýðræðisvæðingu, enda samþykkt stefna þar.

2. Þjóðfundur.

Mál sem hefur verið rætt á mörgum fundum áður. Haldinn var fundur meðal þeirra sem áttu frumkvæði að þjóðfundinum 2009. Á þeim fundi var rætt um að halda þjóðfund fyrir Alþingiskosningar, en gerðu fundarmenn sér grein fyrir að slíkt væri mikil vinna. Á þeim fundi var komist að þeirri niðurstöðu að óþarft væri að halda annan alveg eins þjóðfund, því Þjóðfundur hafi verið haldinn 2009 og niðurstöður fengust á þeim fundi. Hins vegar þyrfti að vinna meira úr þeim niðurstöðum, þ.e.a.s, útfæra niðurstöðurnar frá 2009 nánar. Fundurinn bað um að Alda myndi veita álit á tveimur kostum sem voru ræddir á fundinum um annan fund: Annars vegar að slembivelja hluta þeirra sem mættu á þjóðfundinn 2009 og fá þá til að móta ítarlegri niðurstöður, eða að halda opna fundi.

Rætt var um að trúverðugleiki væri mikilvægur fyrir slíkan fund. Ef notast ætti við niðurstöðurnar til að hafa áhrif á gang samfélagsins, væri trúverðugleiki aðferðarinnar sem notast væri við til að komast að niðurstöðu á slíkum fundi sem og aðdragandinn að fundinum mjög mikilvægur. Þau sem héldu Þjóðfundinn 2009 hafa sagt frá því að mikið hefði verið reynt að grafa undan niðurstöðum fundarins og gera hann tortryggilegan. Reynslan sýnir að reynt verði að grafa undan hvers konar fundahaldi af þessu tagi.

Rætt var um form. Má segja að tvö sjónarmið hafi aðallega verið á lofti: Annars vegar að slembival tryggði trúverðugleika, því ómögulegt sé að hafa viljandi áhrif á hverjir veljast inn á slembivaldan fund. Og hins vegar að slembival komi í veg fyrir að áhugasamir geti mætt á slembivalda fundi, slembival hafi það því í för með sér að vissir mjög áhugasamir þjóðfélagshópar verði útundan.Var og bent á að einstaka einstaklingar sem mættu á fyrri Þjóðfundi hafi ekki haft mikinn áhuga. Var einnig rædd sú hugmynd að slá þessum tveimur formum saman.

Flestir fundarmenn voru sammála því að trúverðugleiki væri mikilvægur fyrir slíkan fund til að geta haft áhrif og því væri slembival betra form. Opnir fundir væru óheppilegri því að alltaf mætti gera þá tortryggilega með tali um að smalað hefði verið inn á fundina eða eitthvað slíkt – gilti það jafnvel þótt slembival væri líka sem hluti af ferlinu við fundinn.

3. Málefnahópar.

Fundir fara af stað á næstu dögum. Farið var stuttlega yfir þá hópa sem eru starfandi.

4. Önnur mál.

a) Rætt um lagahóp sem myndi sjá um að skrifa lagatexta (og mögulega álit til Alþingis). Rætt um nokkra lögfræðinga sem eru í tengslum við félagið í því sambandi. Ákveðið var að ræða við nokkra þeirra og heyra hvað þeir segja.

b) Júlíus nefnir að Alda taki að sér samskipti milli grasrótarhópa. Var þetta samþykkt á fundi fyrir nokkru, á eftir að halda fund.

c) Leigu á húsnæði Grasrótarmiðstöðvarinnar hefur verið sagt upp. Dögun hættir að taka þátt í leigunni, en félagið greiddi mest. Var rætt um á fundinum hvað slík starfsemi sem Grasrótarmiðstöðin felur í sér sé mikils virði og mikilvægt væri að halda henni áfram .Var rætt um að álykta þyrfti um nauðsyn þess að ríki og/eða sveitarfélög greiði fyrir slíka starfsemi. Rætt um að herja á hið opinbera um þetta.

Fundi slitið kl 22:12.