Hvað geta félagsmenn í Öldu gert?

Félagsmönnum fjölgar jafnt og þétt og eru margir utan höfuðborgarsvæðisins. Höfuðstöðvar Öldu eru í Grasrótarmiðstöðinni, Brautarholti 4 í Reykjavík. Eðli málsins samkvæmt eiga margir erfitt með að sækja fundi þar. Eftirfarandi eru hugmyndir um hvernig megi starfa í Öldu utan höfuðborgarinnar. Ef einhverjar spurningar sitja eftir eða vakna skuluð þið ekki hika við að hafa samband við stjórnarmenn félagsins.

Hvað get ég gert í Öldu úti á landi?

Helling. Í raun getur þú gert það sem þér dettur í hug og er í þeim anda sem Alda starfar (sjá meira um það að neðan). Allir félagsmenn eiga rétt, skv. lögum félagsins, á því að stofna málefnahópa um hvað sem er. Það er þrennt sem Alda hefur fyrst og fremst gert fram til þessa:

1. Mótað og staðfært hugmyndir
2. Komið hugmyndum á framfæri
3. Þrýst á valdhafa um að koma hugmyndum í framkvæmd

Fyrsti liðurinn er unninn á opnum fundum og í hópastarfi innan félagsins. Félagsmenn hittast, deila upplýsingum, ræða hugmyndir og skrifa tillögur sem svo eru samþykktar sem hluti af stefnu félagsins (skv. lögunum eru endanlegar stefnur samþykktar á stjórnarfundum). Fjölmargir málefnahópar eru starfandi í Reykjavík og yfir þeim eru skipaðir hópstjórar. Margir koma þó að verkefnum hópanna. Sumir mæta öðru hverju, aðrir mæta á alla fundi og koma fram með athugasemdir eða tillögur, en aðrir leggja hönd á plóg með því að skrifa tillögur, safna gögnum eða skipuleggja viðburði. Allt eftir áhuga og tækifærum hvers og eins. Fólk gerir það sem það getur og enginn á að fá samviskubit yfir því að gera ekki meira.

Annan liðinn má framkvæma með margvíslegum hætti. Við sendum yfirleitt tillögurnar á viðkomandi hagsmunaaðila eða markhópa, þá sem hafa um málin að segja í hverju tilviki fyrir sig. T.d. sendum við tillögur um styttingu vinnutíma til stéttarfélaga, atvinnulífs og stjórnmálaflokka. Við sendum alltaf tillögur okkar á fjölmiðla. Og til að miðla hugmyndum eða útskýra þær má skrifa greinar í blöð. Svo höldum við fundi eða viðburði til þess að vekja athygli á tillögunum. Stundum eru haldnir kynningarfundir þar sem fulltrúar Öldu fara yfir hugmyndirnar en við höldum einnig fundi með markhópum þar sem leitað er viðbragða við tillögunum. Þá má einnig hugsa sér annars konar viðburði til þess að vekja athygli á starfi Öldu og þar gildir hugmyndaflugið.

Þriðji liðurinn felst í því að senda kröfur á fulltrúa almennings og óska viðbragða. Alda sendir t.d. umsagnir um lagafrumvörp og fer fyrir þingnefndir með kröfur sínar og tillögur. Það má hitta viðkomandi áhrifaaðila, ræða við þá og kalla eftir breytingum. Gera svo grein fyrir framgangi mála á fundum hjá Öldu. Auðvitað eru ekki alveg skörp skil á milli annars og þriðja liðar, en stundum er Alda að senda frá sér hugmyndir sem gott er að hafa til viðmiðs en stundum gerir félagið skýrar kröfur um breytingar.

Félagsmenn úti á landi geta verið með í öllum þremur liðunum. Stofnað málefnahópa og unnið tillögur. Haldið fundi og kynnt hugmyndir Öldu. Og líka farið á fund t.d. sveitarstjórna og rætt við þá um breytingar í anda Öldu.

Mikilvægt er að láta stjórnina vita af stofnun málefnahópa og sömuleiðis upplýsingum um starfið.

Grunnstefna Öldu

Alda starfar á hugmyndagrunni. Grunnstefnan er til þess að vísa veginn í þeim málefnum og verkefnum sem félagið tekur sér fyrir hendur.

Stefna
Lög félagsins
Lýðræði í hagkerfinu
Lýðræði á sviði stjórnmálanna

Svo má líka benda á útgefið efni úr starfi félagsins, þar er að finna útfærðar tillögur og ályktanir.

Hvernig starfar Alda?

Allir fundir eru öllum opnir, líka þeim sem ekki eru skráðir í félagið. Enga fundi má halda í starfi Öldu sem eru lokaðir. Á öllum fundum hafa allir sem eru mættir eitt atkvæði á mann. Alla fundi verður að auglýsa á vefsíðu félagsins, www.alda.is, með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara.

Almennt séð er þó lítið sem ekkert kosið í Öldu á fundum vegna þess að við notum samhljóða ákvarðanatöku, sem hægt er að útfæra með ýmsu móti, en þýðir að við tölum okkur í gegnum mál þannig að allir séu sáttir. Til eru ýmis merki sem gefin eru til að umræður gangi hratt og örugglega. Á veraldarvefnum er aragrúi til af efni um consensus decision making. Ef ekki tekst að leiða fram niðurstöðu í sátt er kosið og ræður þá einfaldur meirihluti fundarmanna.

Alda heldur ítarlegar fundargerðir á öllum fundum málefnahópa. Það er mikilvægt til þess að allir geti fylgst með starfinu og til þess að uppfylla kröfu um gagnsæi. Í fundargerðum þarf að koma fram hverjir sóttu fund, um hvað var rætt, meginsjónarmið sem fram komu og niðurstöður. Fundargerðir eru birtar eins fljótt og auðið er á alda.is.

Og þá er þér ekkert að vanbúnaði. Ekki hika við að heyra í stjórninni ef eitthvað er. Góða skemmtun!