Í Október 2008 fóru þrír stærstu bankar landsins í greiðsluþrot og voru teknir yfir af ríkinu tímabundið. Næstu mánuði á eftir fóru fleiri bankastofnanir sömu leið.
Í kjölfarið fór fram rannsókn á bankakerfinu og ýmsum stofnunum. Einnig hófst mikil umræða um hlutverk banka, um lýðræði, ójöfnuð og hlutverk ríkisins. Nú, rúmum fjórum árum síðar, hefur lítið þokast í að breyta bankakerfinu, viðskiptalífinu, fyrirtækjunum og efla lýðræðið. Þetta á ekki eingöngu við um Ísland því staðan er svipuð víða í öðrum löndum. Segja má að samfélagsmyndin sé lítt breytt nú í flestum öðrum vestrænum ríkjum, í samanburði við árin fyrir 2008.
Alda leggur til að eftirfarandi atriði komist til framkvæmda án tafar. Raunar hafi átt að setja þau í framkvæmd strax eftir hrun. Þessi atriði eru að mati Öldu nauðsynlegt fyrsta skref í átt að nýju hagkerfi. Þetta fyrsta skref gengur út á að breyta núverandi stofnunum til betri vegar; eiga sum atriðanna aðeins við um Ísland á meðan önnur eiga við um Ísland og/eða önnur lönd. Næstu skref myndu ganga lengra, en þau eru í mótun hjá félaginu.
Fjármálastofnanir
Bankar verði brotnir í smærri sjálfstæðar einingar. Fjármálafyrirtæki þarf að reka á lýðræðislegan hátt.
Mikilvægt er að brjóta bankana upp í smærri einingar. Þrír stærstu bankar landsins eru mjög stórir og hefur starfsemi þeirra innanlands farið vaxandi á ný eftir hrun. Stór banki sem lendir í vandræðum í sínum rekstri getur haft gífurleg áhrif á sitt samfélag — er það öllum ljóst af hruninu og eftirleikum þess. Minni banki er ekki líklegur til að hafa mikil áhrif þegar hann lendir í vandræðum. Enn fremur er nánast lokað fyrir þann möguleika að illa reknar bankastofnanir geti farið í gjaldþrotameðferð þegar þær eru mjög stórar. Það er raunverulega hægt þegar þær eru minni.
Mikilvægt er að bankar megi samnýta vissan rekstur, svo sem á tölvukerfum, þrátt fyrir að þeir séu í smærri einingum. Slíkt gerir þá hagkvæmari. Fordæmi eru fyrir þessu, t.d. Reiknistofa Bankanna og Tölvuþjónusta Sparisjóðanna.
Lýðræðisleg fyrirtæki taka minni áhættu í sínum rekstri (miðað við hlutafélög í eigu fárra eða á markaði), sýna nærumhverfi sínu meiri virðingu og leitast við að starfa í sátt við mannfólkið. Þetta eru allt eiginleikar sem við þurfum á að halda í bankastarfsemi, sem og annarsstaðar (sjá nánar í kaflanum um lýðræðisleg fyrirtæki).
Heimila þarf fleiri gerðir bankastofnana og auðvelda stofnun nýrra.
Bankastofnanir á Íslandi eru nær allar reknar í hagnaðarskyni. Setja þarf lög um bankastofnanir sem eru reknar í öðru skyni, s.s. í því skyni að veita þjónustu (lán, bankareikninga) án þess að þeir séu reknir með hagnað að markmiði. Fjölbreytni í bankastarfsemi er af hinu góða.
Einnig þarf að auðvelda stofnun banka. Í dag kostar hundruði milljóna að stofna banka, sem torveldar að hægt sé að stofna banka innan sveitarfélaga eða í hverfishluta stærri sveitarfélaga. Þetta torveldar líka litlum, fésnauðum hópum að stofna banka.
Innlánsstarfsemi og fjárfestingarstarfsemi banka verði aðskilin.
Í hruninu kom vel í ljós hve óheppilegt var að bankar standi í fjárfestingum samtímis því að þeir veiti sína venjulegu bankaþjónustu eins og bankareikninga. Icesave-reikningarnir margfrægu voru ein leið Landsbankans til að halda áfram fjárfestingum og/eða viðhalda eldri fjárfestingum bankans (sjá Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir, 6. bindi, bls. 5-65). Í öðrum löndum hefur líka komið í ljós hve óheppilegt þetta fyrirkomulag er.
Ekki er ástæða fyrir löggjafarvaldið til að veita bönkum nokkurt svigrúm í þessu efni í ljósi reynslunnar. Ef þeir geta ekki gengið í gegnum aðskilnað þarf að setja þá í slitameðferð eða gjaldþrotameðferð.
Þess má geta að í Bretlandi hefur farið fram mikil umræða um aðskilnað af þessu tagi og má nokkuð örugglega gera ráð fyrir að hann verði að veruleika.
Matsfyrirtæki verði ekki rekin í hagnaðarskyni. Kaup á mati verðbréfa sé í höndum þeirra sem vilja kaupa verðbréf, ekki þeirra sem bjóða þau til sölu.
Matsfyrirtæki (eins og Moody’s og Standard & Poor’s) eru rekin í hagnaðarskyni. Hvatar innan fyrirtækjanna til að þiggja óeðlilegar greiðslur eru því meiri en ef þau væru ekki rekin í hagnaðarskyni, enda þurfa þau að afla hluthöfum sínum sem mestum hagnaði.
Matsfyrirtækin þiggja greiðslur fyrir mat á verðbréfum (skuldabréfum, hlutabréfum, og svo frv.) frá þeim sem vilja selja þau. Það getur skapað óeðlilegan þrýsting á fyrirtækin að meta verðbréfin sem traustari — seljendur bréfanna geta í krafti stöðu sinnar sem kaupendur þjónustunnar beitt fyrirtækin óeðlilegum þrýstingi. Eðlilegra er að kaupendur verðbréfanna kaupi þjónustuna af fyrirtækjunum, með því móti eru minni líkur á slíkum þrýstingi.
Banna þarf að starfsmenn eftirlitsstofnana, eins og Fjármálaeftirlitsins, geti ráðið sig til banka eða annarra fjármálafyrirtækja í fjögur ár eftir starfslok hjá slíkum stofnunum.
Í Rannsóknarskýrslu Alþingis kemur í ljós að um 38% starfsmanna Fjármálaeftirlitsins fór að vinna fyrir fjármálafyrirtæki eftir starfslok hjá eftirlitinu á árunum 2000-2008 (sjá Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir, 5. bindi, bls. 143). Hættan vegna flæðis eins og þessa er augljós: Fjármálafyrirtækin yfirbjóða eftirlitsstofnanir í launakjörum og fá til sín fólkið sem ella væri að sinna eftirlitinu. Einnig getur flæðið skapað þá hættu að fólk gagngert noti eftirlitsstofnanirnar til að komast síðar í vinnu fyrir fjármálafyrirtæki. Hér ber að hafa í huga að innan eftirlitsstofnana hér á landi eru trúlega fáir starfsmenn sem hafa sérþekkingu á ákveðnum þáttum fjármálafyrirtækjanna eða hafa þekkingu á ákveðnum tegundum eftirlitsaðferða, sem getur gert flæði eins og þetta enn verra. Með banni eins og þessu yrði verulega dregið úr þessum möguleikum. Fordæmi eru fyrir banni eins og þessu á vinnumarkaði, amk. á Íslandi og í Bandaríkjunum, því sum fyrirtæki í löndunum setja ákvæði um bann eins og þetta í ráðningasamninga (þá um að starfsmenn megi ekki ráða sig til samkeppnisaðila í vissan tíma).
Ríkið
Ekki frekari niðurskurð í almannaþjónustu eða félagsvernd.
Frá hruni hefur verið skorið niður í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og félagsvernd. Þessi niðurskurður hefur bitnað á þeim sem síst mega við því. Enn fremur hefur niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu (sem byrjaði þó löngu fyrir hrun) leitt til þess að starfsfólk hefur sagt upp og fjöldauppsagnir eru fyrirhugaðar. Allt eru þetta grunnstoðir heilbrigðs samfélags; samfélags sem kennir sig við mannúð. Frekari niðurskurður setur stoðirnar í hættu og getur verið erfitt að byggja þær upp aftur.
Niðurskurður eins og þessi hefur enn fremur án efa ýtt undir samdrátt hagkerfisins, einkum meðal þjóðfélagshópa sem minnst mega sín.
Þjóðhagsstofnun verði endurvakin í breyttri mynd.
Stofnunin myndi mæla raunveruleg lífsgæði og myndi leiðbeina stjórnvöldum um hvað þyrfti að lagfæra. Þjóðhagsstofnun var lögð niður árið 2002. Hlutverk hennar var að safna saman ýmsum hagtölum. Eðlilegt væri að endurvekja stofnunina, en með það markmið að leiðarljósi að mæla raunveruleg lífsgæði. Stofnunin safnaði m.a. saman miklu magni tölfræðiefnis, sem mestmegnis byggði á að landsframleiðsla (þjóðarframleiðsla) væri mælikvarði á lífsgæði — eins og gengið er að sem vísu innan hagfræðinnar. Betra væri að ný stofnun myndi mæla aðra hluti, sem stofnunin myndi sjálf velja, því landsframleiðsla er slakur mælikvarði á lífsgæði (sjá Wilkinson, R. og Pickett, K. (2009). The Spirit Level. New York: Bloomsbury Press. Sjá einnig Jackson, T. (2009). Prosperity without growth: Economics for a finate planet. London: Earthscan). Sjá nánar í ályktun Öldu um Þjóðhagsstofnun.
Hækka þarf skatta á þá efnameiri og lækka á þá efnaminni.
Tilgangurinn með þessari aðgerð væri að auka jöfnuð í samfélaginu og gera þeim efnaminni auðveldara að lifa mannsæmandi lífi. Alveg ljóst er að svigrúm er til að hækka t.d. tekjuskatt á þá efnameiri, sbr. nýlega skýrslu ASÍ. Til að ná þessu markmiði mætti t.d. bæta við skattþrepi og lækka skattahlutfall á lægsta þrepi, og /eða hækka persónufrádrátt. Einnig mætti hækka skatta á arð og vexti; mætti íhuga vaxaþrep í þeim efnum.
Loka þarf öllum leiðum í skattaskjól.
Efnafólk þarf eins og aðrir að borga skatta. Annað er ójöfnuður sem og að slíkt grefur undan samfélagslegri ábyrgð. Aukinheldur er eðlilegt að allir sem eru þess færir borgi skatta eftir getu.
Fyrirtækin
Setja þarf lög um lýðræðisleg fyrirtæki.
Lýðræði innan fyrirtækja á Íslandi er lítið sem ekkert. Okkur þykir sjálfsagt að lýðræði sé virt í stjórnmálunum, en einhverra hluta vegna hefur lýðræðið ekki náð inn í fyrirtækin. Lýðræðisleg fyrirtæki eru mjög fá á Íslandi og rekstrarform þeirra er af ýmsum toga. Hafa sum þeirra notast við lögum sameignarfélög, en það hentar ekki endilega lýðræðislegum fyrirtækjum.
Lýðræðisleg fyrirtæki þekkjast víða, t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ísrael og á Spáni. Það sem einkennir þessi fyrirtæki er að starfsmennirnir eiga fyrirtækin og taka allar helstu ákvarðanir í rekstrinum. Eigendurnir, sem eru starfsmennirnir, geta sagt stjórnendum upp störfum ef þeir standa sig illa, enda velja starfsmenn stjórnendurna.
Lýðræðisleg fyrirtæki hafa ýmsa kosti, t.d. eru þau síður áhættusækin, leggja meira til nærsamfélagsins og auka áhrif fólks í eigin lífi, það er í vinnunni. Þetta er gagnstætt því sem á við um kapítalísk fyrirtæki (t.d. hlutafélög). Enn fremur er hugað vel að starfsfólki sem á erfiðara um vik, innan lýðræðislegra fyrirtækja (s.s. vegna veikinda, fötlunar eða kvilla af öðru tagi). Sjá nánar um lýðræðisleg fyrirtæki í pistli Hjalta Hrafns Hafþórssonar, Lýðræðisleg fyrirtæki og leiðin að betri framtíð.
Setja þarf lög um að verði fyrirtæki gjaldþrota geti starfsmenn breytt þeim í lýðræðisleg fyrirtæki.
Verði kapítalísk fyrirtæki gjaldþrota eru þau gjarnan tekin yfir af banka eða öðrum og þau seld til fjársterkra aðila. Þá hefur það tíðkast að selja/afhenda fyrirtækin aftur til þeirra sem keyrðu þau í kaf. Nær væri að lögfesta að starfsmenn fái forgangsrétt til að taka yfir fyrirtækið með sjálfbærri skuldastöðu á lýðræðislegum grunni.
Viðskipti
Banna þarf viðskipti með framandi fjármálagerninga, s.s. skuldabréfavafninga og afleiður, nema að sýnt sé fram á skaði ekki hagkerfið.
Afleiðuviðskipti lúta fáum reglum og hafa haft slæm áhrif á hagkerfið. Braskarar hafa á síðustu árum haft mikil áhrif á matvælaverð í heiminum með áhættuviðskiptum með afleiður sem tengdar eru uppskeru. Sama gildir um olíu og málma. Þetta brask veldur hækkun á verði þessa varnings, sem hefur kostað mannslíf í fátækari ríkjum heims. Braskið hefur ekkert hagnýtt gildi en veldur hörmungum og ber því að banna.
Tobin-skattur yrði tekinn upp.
Skattur þessi yrði lagður á öll viðskipti með verðbréf og gjaldeyri. Tobin-skattur er lágur, 0,5% eða minna af heildarupphæð viðskiptanna, en gerir það að verkum að skammtímabrask er ekki lengur arðbært. Skammtímabrask í dag fer að miklu leyti fram með tölvum, þar sem örsveiflur í verði gjaldmiðla og verðbréfa, á mörkuðum, eru nýttar til að græða peninga, en tímabilið milli kaupa og sölu er oft mælt í millisekúndum eða minna. Til eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í þessu. Tobin-skattur myndi draga úr þessum viðskiptum.
Ýmislegt
Lágmarkslaun verði lögfest, sem og hámarkslaun.
Á Íslandi (og raunar fleiri þróuðum ríkjum) eru engin lög um lágmarkslaun. Lágmarkslaun eru þó samningsbundin hjá stórum landssamböndum, eins og Alþýðusambandi Íslands. Lög þarf að setja um lágmarkslaun, svo eitt gildi um allan vinnumarkaðinn, en einnig þarf að setja lög um hámarkslaun. Kjörið væri að hámarkslaun væru tvöföld til þreföld lágmarkslaun.
Fella þarf niður þann hluta höfuðstóls lána sem kom til bólunnar.
Fella þarf niður þann hluta höfuðstóls lána sem kom til vegna bólunnar sem var á Íslandi á síðasta áratug. Allir sjá að um mjög óeðlilegt ástand var um að ræða og því engin ástæða til að halda í uppsafnaðan höfuðstól sem kom til vegna þessa ástands. Sú stefna að ætla sér að láta hagkerfið vaxa úr vandanum gengur ekki af tveimur ástæðum: Hagvöxtur krefst náttúruauðlinda og hagvöxtur krefst mannlegra fórna, en hvort tveggja ættum við ekki að nýta til að borga niður skuldir sem allir vita að eru komnar til vegna vitleysu í hagkerfinu. Hugmyndir um lausnir má meðal annars finna í skrifum hagfræðingsins Steve Keen.
Tillögurnar voru unnar í málefnahópi um nýtt hagkerfi sem vinnur nú að ítarlegri tillögum að breytingum á hagkerfinu. Þær voru ræddar og samþykktar á stjórnarfundi í mars 2013.