Kristinn Már Ársælsson, stjórnarmaður í Öldu flutti pistil á Rás 1 þann 1. maí 2013. Hægt er að hlusta á pistilinn á vef RÚV. Pistillinn er í heild sinni hér að neðan.

Frá iðnbyltingu og fram á 20. öld snérist verkalýðsbarátta um grunnréttindi, s.s hvað varðar vinnutíma, aðbúnað, kaupgjald, verkfallsrétt, takmörkun á vinnu barna og fleira í þeim dúr. Vinnudagurinn var mjög langur og unnið flesta daga vikunnar. Barist var fyrir eðlilegum hvíldartíma og styttingu vinnudagsins. Aðbúnaður var í mörgum tilfellum hættulegur lífi og heilsu fólks. Margir unnu í mikilli efnamengun, s.s. í verksmiðjum en einnig í námum og við aðstæður sem höfðu slæm áhrif á stoðkerfi líkamans. Hættur á sjúkdómum voru margfalt meiri en í dag. Kjör verkafólks stóðu ekki undir mannsæmandi lífi.

Baráttan var oft á tíðum hörð og ójöfn, verkalýðnum í óhag. Framan af voru átökin stundum blóðug. Og sums staðar á það á reyndar enn við í dag. Staða verkalýðsmála er með ólíkum hætti milli landa. Að jafnaði hefur þó dregið úr hörkunni í verkalýðsbaráttunni á Vesturlöndum. Fyrir því eru margvíslegar ástæður sem ekki verða raktar hér. Baráttan skilaði hins vegar árangri. Aðbúnaður verkafólks á Vesturlöndum er um margt betri en hann var fyrir 100 og 200 árum. Lífsgæði hafa aukist gríðarlega.

Og það verður umfjöllunarefni okkar í dag. Lífsgæði og hamingja. Við látum liggja á milli hluta heimspekilegar vangaveltur um tilgang lífsins, um hvað sé hamingja nákvæmlega. Sú gáta verður ekki leyst hér og því gengið út frá nokkrum nokkuð almennum þáttum er varða lífsgæði. Við spyrjum spurningarinnar, hver er staða verkalýðsbaráttunnar? Er staða verkalýðshreyfingarinnar sterk og þau málefni sem þörf er á að berjast fyrir í góðum farvegi? Eða er baráttan ekki á réttu spori og hreyfingin veik? Og það er engin ástæða til að geyma það að svara þeirri spurningu. Verkalýðshreyfingin er ekki í takti við kröfur og þarfir nútímans. Það er því brýnt að verkalýðsfélög gangi í gegnum naflaskoðun og endurnýjun lífdaga.

Hvers vegna er verkalýðshreyfingin ekki í takti við nútímann?

Förum nú yfir hvers vegna verkalýðshreyfingin er ekki í takti við nútímann. Helsta gagnrýnin á hreyfinguna frá hruni hefur verið að hún standi ekki nægilega þétt með verkafólki s.s. í kjarabaráttu, í skuldamálum, efnahagsmálum t.d. hvað varðar verðtrygginguna og þar fram eftir götunum. Mikið hefur verið rætt um skort á lýðræði innan hreyfingarinnar en bein þátttaka í verkalýðsfélögum er dræm og val á forystu hreyfingarinnar er með þeim hætti að það eru fulltrúar fulltrúa verkafólks sem velja sér forystu. Almennt séð eiga fulltrúalýðræðiskerfi undir högg að sækja um þessar mundir og er verkalýðshreyfingin engin undantekning hvað það varðar.

En þótt þessi mál skipti máli að þá eru þau ekki megin ástæða þess að verkalýðshreyfingin er komin út af sporinu. Það er mikilvægt að efla þátttöku og lýðræði innan hreyfingarinnar og tryggja að forystan sé í betri tengslum við verkafólk, t.d. eru laun forystumanna hreyfingarinnar oft á tíðum algjörlega úr takti við hugsjónir verkalýðsbaráttunnar. Helsta vandamál verkalýðshreyfingarinnar er að aðal baráttumál hennar er úrelt. Það að auka hagvöxt, framleiðslu, neyslu og kaupmátt mun ekki auka lífsgæði almennings né hamingju með sama móti og var á fyrri hluta 20. aldar. Við nálgumst óðfluga þann stað þar sem baráttan fyrir auknum hagvexti með efnahagslegum stöðugleika og sívaxandi kaupmætti og neyslu mun draga úr lífsgæðum og gera okkur óhamingjusöm. Meginstefnumál verkalýðshreyfingarinnar þarf hreinlega að víkja.

Mörgum kann að þykja það hljóma undarlega að aukinn hagvöxtur og kaupmáttur sé ekki líklegur til að auka lífsgæði og hamingju og jafnvel draga úr þeim. Og það er eðlilegt, þetta hefur nefnilega verið að breytast á undanförnum áratugum. Richard Wilkinson, fyrrum prófessor í félagslegri faraldsfræði við háskólann í Nottingham á Englandi rannsakaði lengi tengsl milli jöfnuðar og ýmissa heilsufarsþátta. Það er þekkt að þegar framleiðsla eykst í fátækum ríkjum að þá aukast lífsgæði gríðarlega hratt. Með aukinni framleiðslu í fátækum ríkjum batnar húsnæði, sífellt færri skortir mat, heilbrigðis- og menntakerfi byggjast upp, samgöngur batna, samskipti aukast, hreinlæti eykst og ýmis konar þjónusta býðst sem áður var ekki aðgengileg. Einn mælikvarðinn er sá að meðalaldur hækkar mjög hratt, jafnvel úr 40 árum í 80 ár á mjög stuttum tíma. Þannig var þróunin á Vesturlöndum frá iðnbyltingu og fram undir seinni hluta 20. aldar. En þegar ákveðnu stigi í framleiðslu er náð dregur verulega úr áhrifum sífellt aukinnar framleiðslu, það er að segja hagvaxtar og aukins kaupmáttar, á lífsgæði og hamingju. Meðalaldur fer ekki úr 80 árum í 160 eins og hann fór úr 40 í 80 ár. Innviðir samfélagsins hafa þegar byggst upp og efnisleg lífsgæði eru mjög mikil.

Ójöfnuður hefur áhrif á lífsgæði og hamingju

Í rannsóknum Wilkinson, sem hann vann m.a. með Kate Pickett prófessor við háskólann í York, kemur fram að hjá ríkari löndum er ekki lengur fylgni á milli þess hversu mikið þau framleiða og ýmissa lífsgæða. Það hversu mikið meira þau framleiða eftir að ákveðnu marki er náð hefur lítil áhrif á bætt lífsgæði. Þessu marki hefur verið náð á Vesturlöndum, þar á meðal á íslandi. Meðalaldur í Ísrael og Noregi er nánast hinn sami en munurinn á landsframleiðslu á mann er tvöfaldur. Norðmenn framleiða tvöfalt meira en það hefur engin áhrif á meðalaldurinn.

Hins vegar sýna rannsóknir þeirra fram á mjög sterk tengsl á milli ójöfnuðar og ýmissa heilsufarsvandamála. Í löndum með meiri ójöfnuð, þar sem tekjubilið er breiðara, eru að jafnaði meiri félagsleg og heilsufarsleg vandamál. Ójöfnuður hefur sterk tengsl við þætti eins og:

  • Meðalaldur
  • Stærðfræði og lestrarkunnáttu
  • Barnadauða
  • Morðtíðni
  • Fangelsisvist
  • Þunganir unglinga
  • Traust í samfélaginu
  • Offitu
  • Geðsjúkdóma
  • Neyslu vímuefna
  • Félagslegan hreyfanleika

Allir þessir þættir hafa áhrif á lífsgæði og hamingju. Mismikil áhrif, sumir hverjir skipta okkur öll mjög miklu máli en allir skipta þeir einhverju máli hvað lífsgæði í samfélaginu varðar. Í einföldu máli er það þannig að jöfnuður skiptir meira máli héðan í frá en hagvöxtur hvað lífsgæði varðar. Og reyndar eru það fleiri þættir en jöfnuður sem nú vega þyngra í því að auka lífsgæði en áður en við skoðum þá þætti skulum við fara örlítið nánar yfir tengsl ójöfnuðar við lífsgæði.

Tækifæri fólks til að hafa áhrif á líf sitt skiptir miklu máli

Traust fólks á hvert öðru í löndum sem hafa meiri ójöfnuð er í kringum 15% en um 65% í löndum með meiri jöfnuð, t.d. í Skandinavíu. Það er allt að þrefaldur munur á tíðni geðsjúkdóma milli landa eftir því hversu mikill ójöfnuðurinn er. Allt að tífaldur munur á tíðni fangelsisvistunar, þrefaldur munur á morðtíðni, tvöfaldur munur á brottfalli nemenda úr skóla og svo eitthvað sé nefnt.

Félagslegur hreyfanleiki, það er hversu mikil tækifæri fólk hefur á því að vinna sig upp, hverjar líkurnar eru á því að njóta betri lífsgæða en foreldrar sínir, er meiri í löndum með meiri jöfnuð. Wilkinson segir að ef menn vilja upplifa bandaríska drauminn að þá sé skynsamlegast að flytja til Danmerkur.

Það liggur kannski ekki í augum uppi en ójöfnuður snýr ekki bara að skiptingu efnislegra gæða og auðs. Í opinberri umræðu er mest rætt um hvernig eigi að skipta kökunni og mismun launa. En skipting félagslegra gæða skiptir einnig miklu máli. Aðgengi fólks að efnislegum og félagslegum gæðum hefur bæði líkamleg áhrif og sálræn. Og svo er það auðvitað þannig að sálrænum kvillum geta fylgt líkamlegir kvillar og öfugt.

Tækifæri fólks til þess að hafa áhrif á líf sitt, hvort sem er í vinnunni, í nærsamfélaginu eða á vettvangi landsmálanna skipta miklu máli. Á Vesturlöndum eru tækifæri langflestra hvað þetta varðar afar takmörkuð. Flestir starfa á vinnustað þar sem eigendur eða forstjórar ráða nær öllu. Þar gilda ekki leikreglur lýðræðisins. Á stjórnmálasviðinu er hlutdeild almennings í ákvarðanatöku takmörkuð við eitt X á blaði á fjögurra ára fresti. Öllum skoðunum um málefni samfélagsins þarf að troða í X. Ákvarðanarvaldi er verulega ójafnt dreift.

Fleiri atriði mætti tína til, s.s. er varða stöðusamkeppni milli einstaklinga. Grundvöllur neyslusamfélagsins er rottukapphlaupið með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á sjálfsmynd og líðan fólks. En látum hér staðar numið í greiningu á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir vegna ójöfnuðar hér á Vesturlöndum.

Eilífur hagvöxtur í heimi takmarkaðra auðlinda er ómögulegur

Áður en við snúum okkur að því að ræða mögulegar lausnir á vandanum og þau skref sem við þurfum að taka til þess að auka lífsgæði og hamingju er nauðsynlegt að fara stuttlega yfir annað atriði sem ekki er gefinn nægilegur gaumur og mun draga úr lífsgæðum okkar sé ekki brugðist við. Í stuttu máli er það svo að við erum að ganga of freklega á umhverfið og náttúruna. Jörðin getur ekki staðið undir allri neyslu okkar og framleiðslu. Í dag er neyslan svo mikil að það þyrfti eina og hálfa Jörð til að standa undir henni. Árið 2050 er áætlað að það þurfi þrjár Jarðir. Það stefnir í allt að sex gráðu hækkun hitastigs fyrir árið 2100. Nú þegar hefur hitastigið hækkað um tæpa gráðu frá upphafi 20. aldar, þar af um tveir þriðju hækkunarinnar eftir 1980. Vistkerfi og dýrategundir Jarðar, þar á meðal maðurinn sjálfur, eru bókstaflega í hættu. Smávægilegar breytingar á umhverfinu geta haft umtalsverð áhrif á lífsgæði okkar. Öll efnahagskerfi Vesturlanda, og stærstur hluti baráttu verkalýðshreyfinga hér á landi, hverfist um að örva hagvöxt, auka hagvöxt, auka framleiðslu, kaupmátt og neyslu. Staðreyndin er hins vegar sú að eilífur hagvöxtur í heimi takmarkaðra auðlinda er ómögulegur. Á endanum mun neysla dagsins í dag koma niður á lífsgæðum okkar í framtíðinni. Og það sorglega er að vaxandi neysla okkar í dag er ekki að auka lífsgæðin okkar svo nokkru nemi.

Aukin hlutdeild almennings í ákvarðanatöku

Hugum nú að því hvaða lausnir séu líklegastar til þess að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir og á sama tíma bæta og auka lífsgæði okkar. Hvaða mál eru það sem verkalýðshreyfingin, og í raun allar umbótahreyfingar, þar á meðal stjórnmálaflokkar, ættu að beita sér fyrir?

Það er rétt að geta þess að hvorki greiningin á vandanum né tillögur að lausnum eru tæmandi. Hér er farið hratt yfir sögu og ýmis atriði sem ekki komast að.

Áðurnefndur Richard Wilkinson nefnir nokkur atriði sem hann telur mikilvægt að ráðist verði í til þess að draga úr ójöfnuði og auka lífsgæði á Vesturlöndum. Þau atriði sem hann nefnir eru líkleg til þess að draga úr neikvæðum áhrifum ójöfnuðar og bæta almennt bæði líkamlega og andlega heilsu fólks, sem svo aftur dregur úr kostnaði sem fylgir vanlíðan og kvillum.

Fyrst ber að nefna aukna hlutdeild almennings í ákvarðanatöku. Að fólki gefist aukin tækifæri í því að vera ráðandi í eigin lífi. Þar nefnir Wilkinson fyrst og fremst að koma þurfi á lýðræði í fyrirtækjum og auka þannig ákvörðunarvald hvers og eins starfsmanns. Fyrirtækin þurfi að lúta stjórn sinna starfsmanna en ekki utanaðkomandi aðila.

Stöldrum aðeins við þennan þátt því hann heyrist sjaldan í opinberri umræðu á Vesturlöndum. Við erum orðin svo vön því að leikreglur lýðræðisins gildi ekki á sviði efnahagslífsins að við veltum nær aldrei upp spurningunni um hvort það sé rétt og skynsamlegt. Þrátt fyrir að lýðræðið sé hugsanlega óumdeildasta hugmyndafræði Vesturlanda.

Sjöunda stærsta fyrirtæki Spánar nefnist Mondragón. Um 100.000 manns starfa hjá fyrirtækinu sem var stofnað um miðja síðustu öld. Fyrirtækið framleiðir keppnisreiðhjól, rekur banka og verkfræðistofur, framleiðir Fagor þvottavélar og ýmsar aðrar vörur. Mondragón er lýðræðislegt fyrirtæki. Eitt atkvæði á mann. Starfsmennirnir eiga fyrirtækið. Rannsóknir á lýðræðislegum fyrirtækjum benda til þess að þau eru jafn hagkvæm á kapitalíska mælikvarða, s.s. hvað varðar skilvirkni og arðsemi nema í undantekningatilfellum. Rannsóknir benda einnig til þess að slík fyrirtæki skili meira af sér til nærsamfélagsins og standi sig betur í umhverfismálum. Lýðræðisleg fyrirtæki safna upp sjóðum fyrir erfið ár, sem er ein af skýringum þess að lýðræðisleg fyrirtæki hafa vaxið gríðarlega víða um heim frá því að efnahagskreppan skall á árið 2008. Launabil í lýðræðislegum fyrirtækjum er umtalsvert minna en í kapitalískum. Lægstu tekjurnar almennt hærri og þær hæstu almennt lægri en gengur og gerist í sambærilegum fyrirtækjum. Þá er ótalið hið augljósa að lýðræðisleg fyrirtæki eru valdeflandi fyrir starfsmenn þeirra, þar sem þeir hafa aukin áhrif í vinnunni, sem er jú stærstur hluti lífs okkar flestra.

Það er ekkert sem bendir til þess að einhver sérstök hætta fylgi því að fyrirtæki séu rekin lýðræðislega. Þvert á móti virðast þau hafa margvíslega kosti umfram kapitalísk fyrirtæki fyrir utan að vera lýðræðisleg. Það er því umhugsunarvert hvers vegna svið efnahagslífsins er undanskilið leikreglum lýðræðisins. Af einhverjum ástæðum höfum við sætt okkur við að búa við mjög takmarkað lýðræði. Í því sambandi má nefna að Rod Hill og Tony Myatt sem eru prófessorar í hagfræði við háskólann í New Brunswick skoðuðu kennslubækur í hagfræði og komust að því að í þeim er lítið sem ekkert minnst á önnur rekstrarform en kapitalísk.

Draga skal úr skattaundanskotum

Annað atriði sem Wilkinson nefnir er að draga úr skattaundanskotum, koma í veg fyrir flæði fjármagns í skattaskjól, og raunar helst að þeim verði lokað, sem og að skattkerfi séu prógressív, það er að segja að þeir sem hafa hærri tekjur greiði hærri skatta og skattkerfið þannig notað til jöfnunar. Þessir þættir auka tekjujöfnuð í samfélaginu sem ætti að vera eitt af lykilmálum verkalýðshreyfingarinnar.

Þetta eru þau atriði sem Wilkinson leggur áherslu á, auka hlutdeild almennings í ákvarðanatöku í vinnunni og auka tekjujöfnuð í samfélaginu. En hvaða önnur atriði eru líkleg til þess að auka lífsgæði okkar og á sama tíma vinna gegn þeim vanda sem fylgir auknum hagvexti og neyslu?

Meiri frítími og óspillt náttúra eru lífsgæði

Frítími. Meiri frítími. Við þurfum meiri tíma með sjálfum okkur og okkar nánustu. Við þurfum að draga úr álaginu á umhverfið með því neyta minna og njóta meira. Vinnutími á Íslandi hefur lítið sem ekkert styst undanfarin 30 ár. Með sama áframhaldi myndum við ná vinnutíma Svía eftir 100 ár. Að því gefnu að vinnutími styttist ekkert þar á sama tíma. Með því er ekki sagt að vinnutími í Svíþjóð sé lokatakmarkið, þvert á móti ætti að stytta vinnutíma þar líka. Kjarni málsins er sá að við framleiðum sífellt meira með aukinni skilvirkni en vinnutíminn styttist ekki á móti. Aukinn framleiðslukraftur, hagvöxturinn, skilar sér ekki í styttingu vinnutíma heldur aukinni neyslu (og reyndar uppgreiðslu á skuldabólu sem lá til grundvallar hagvexti undanfarinna áratuga). Við þurfum að breyta hagkerfinu okkar á þann veg að aukin framleiðsla skili sér í auknum frítíma. Það er hægt að gera bæði með átaksverkefnum, eins var gert t.d. með setningu laga um 40 stunda vinnuviku, en þá þarf einnig að huga að því hvernig breyta megi hagkerfinu þannig að aukin framleiðsla skili sér sjálfkrafa í styttri vinnutíma.

Bætt umhverfisgæði eru annar þáttur sem er líklegur til þess að auka lífsgæði umtalsvert. Tíðni ýmissa sjúkdóma hefur aukist á undanförnum áratugum og horfa margir vísindamenn til svokallaðra kokteiláhrifa efna í því sambandi. Kokteiláhrif eru samverkandi áhrif fjölmargra efna án þess að hvert og eitt þeirra sé í hættulegu magni. Á hverjum degi komumst við í samband við hundruðir efna sem eru í umbúðum, vörum, matvælum, loftinu og svo mætti lengi telja. Þá hefur meðvitund um heilnæmar og öruggar vinnuaðstæður aukist verulega á undanförnum árum. Þar er þó talsvert svigrúm til þess að bæta lífsgæði umtalsvert. Tengt þessu eru svo tækifæri til þess að njóta óspilltrar náttúru sem eru lífsgæði sem fara hverfandi hér á Jörðinni. Ósnortin landssvæði eru án nokkurs vafa okkar allra dýrmætustu auðlindir þótt þau verði ekki mæld sem slík á hagræna mælikvarða.

Efla þarf lýðræðið og tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku

Á sama hátt og koma þarf á lýðræði í fyrirtækjum og stofnunum þarf að dýpka og auka hlutdeild almennings í ákvarðanatöku á stjórnmálasviðinu. Fulltrúalýðræðið var búið til fyrir allt aðra samfélagsgerð, fyrir hestvagna og póstskip. Gríðarlega miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu frá frönsku byltingunni, og má þar nefna bættar samgöngur, samskiptatækni, auðveldara aðgengi að upplýsingum og stóraukna menntun. Sem stendur nýtur fulltrúalýðræðið ekki trausts. Hérlendis er traust á Alþingi um 15% sem er ekkert annað en neyðarástand. Alþingi er mikilvægasta stofnun landsins í því að tryggja og verja lífsgæði almennings og 85% landsmanna vantreysta henni til þess. Erlendis hefur traust á fulltrúalýðræðinu einnig farið minnkandi á undanförnum áratugum. Við þurfum því að finna leiðir til þess að efla lýðræðið og tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku. Það er valdeflandi og líklegt til þess að auka lífsgæði og hamingju fólks.

Af einhverjum ástæðum virðist ganga hægt í því að innleiða þátttökulýðræðisferli þrátt fyrir mörg slík ferli séu til og hafi verið reynd víða um heim með góðum árangri. Það er eins og einhver tregða sé í kerfinu að hleypa almenningi að. Mest er umræðan um þjóðaratkvæðagreiðslur og að tryggja rétt almennings til þeirra. En rannsóknir benda til þess að atkvæðagreiðslulýðræði sé veikari mynd beins lýðræðis og þátttökulýðræði sterkari myndin.

Hér má taka tvö dæmi af þeim fjölmörgu þátttökuferlum sem reynd hafa verið og rannsökuð.

Það fyrra er svokölluð þátttökufjárhagsáætlunargerð sem oft er kennd við borgina Porto Alegre í Brasilíu. Þar búa um ein og hálf milljón manns og árlega koma saman tugir þúsunda og jafnvel yfir 100.000 manns til þess að úthluta rúmlega 20% af útgjöldum borgarinnar. Ferlið er opið og byrjar í hverfum borgarinnar sem raða saman óskalistum og velja sér fulltrúa. Svo heldur ferlið áfram koll af kolli þar til sameiginleg niðurstaða næst meðal íbúanna. Ferlið hefur verið rannsakað töluvert af félagsvísindamönnum, þar á meðal Gianpaolo Baiocchi sem starfar við Brown háskólann í Bandaríkjunum. Niðurstöður rannsókna benda til þess að þátttökufjárhagsáætlunargerð hafi ýmsa kosti og má þarf nefna að fjármagn færist frá ríkari hverfum til fátækari. Það er meiri jöfnuður í úthlutun fjármagns. Ferlin efla félagsleg tengsl íbúanna umfram þátttöku í ferlinu sjálfu sem er þó umtalsvert. Það má sjá af því að félagasamtökum fjölgar í kjölfar þess að slík ferli er sett af stað. Ferlið sjálft er svo valdeflandi og fleiri hópar sem taka þátt í því en í fulltrúalýðræðiskerfum. Þeir sem eru með minni menntun og lægri tekjur skila sér eftir sem áður í minna mæli en þó í meira mæli en venjulega. Traust í samfélaginu eykst sem má meðal annars sjá af því að skattaundanskot fara minnkandi. Þá dregur úr spillingu eða hún hreinlega hverfur þar sem þátttökuferlin eru opin og gagnsæ, hver sem er getur fylgst með ferlinu og allt skráð hver tók hvaða ákvörðun á hvaða stigi.

Í Reykjavík er nú gerð tilraun með slíkt ferli í gegnum vef. Er hún góðra gjalda verð en engin ástæða til þess að bíða lengur með að taka upp þátttökufjárhagsáætlunargerð eins og hún hefur verið framkvæmd erlendis og úthluta til þess ferlis umtalsverðum hluta fjárhagsáætlunarinnar.

Seinna dæmið um lýðræðislegt þátttökuferli kemur frá Bresku Kólumbíu í Kanada þar sem kallað var saman 160 manna slembivalið þing. Fólk var valið af handahófi úr kjörskrá, tveir úr hverju umdæmi, karl og kona auk tveggja innfæddra til jöfnunar. Það er einmitt einn af kostum slembivalsþinga að geta jafnað fyrir ákveðna hópa og tryggja aðkomu allra hópa samfélagsins þar sem allir eiga jafnar líkur á að vera dregnir út til langs tíma litið. Þinginu var ætlað að vinna tillögur að nýrri kosningalöggjöf sem stjórnmálaflokkunum hafði gengið illa með að ganga frá sín í milli. Rannsóknir á ferlinu leiddu í ljós að þingið skilaði góðu verki, nýtti sér sérfræðiþekkingu vel. Sumir höfðu áhyggjur af því að tillögur þingsins yrðu of íhaldssamar en svo varð ekki. Rannsóknir á slembivali, sem m.a. Helena Landemore við Yale háskólann í Bandaríkjunum hefur stundað, benda til þess að hugsanlega skili slembivaldir hópar skynsamlegri eða gáfulegri niðurstöðum en jafnvel sérvalinn hópur sérfræðinga. Ástæðan er sú að í slembivöldum hópi er vitsmunaleg fjölbreytni meiri og því auknar líkur á að hópurinn finni fleiri lausnir en nýti sér þó sérfræðiþekkingu. Í opinberri ákvarðanatöku er einnig líklegra að slembivaldir hópar líti fyrst og fremst til hagsmuna heildarinnar en ekki sérhagsmuna og að þeir velji leiðir sem almenningur getur sætt sig við.

Mun fleiri atriði mætti nefna, s.s. hvað varðar fjármálakerfið, skuldastöðu, nýtingu og eignarhald auðlinda og fleira sem virkar ekki sem skyldi eða má bæta verulega til þess að auka lífsgæði sem flestra en ekki bara nokkurra.

En látum staðar numið í yfirferð um þau atriði sem nauðsynlegt er að setja á oddinn til þess að auka lífsgæði og hamingju almennings.

Það er ekki eftir neinu að bíða

Það liggur fyrir að meginbaráttumál verkalýðshreyfingarinnar í dag, sem verka í takt við gangvirki samfélagsgerðarinnar, eru úrelt. Barátta þeirra er á villigötum. Áherslan á hagvöxt og aukinn kaupmátt sem keyrir áfram stöðugt meiri neyslu og skuldasöfnun mun ekki auka lífsgæði og hamingju. Sú stefna hafði mikil áhrif til þess að auka lífsgæði fram undir seinni hluta 20. aldar en sífellt minnkandi áhrif síðan þá. Það stefnir auk þess í þrot vistkerfa vegna ágangs okkar og ofnýtingu náttúruauðlinda. Og þegar vistkerfi fara í þrot er ekki til nein gjaldþrotameðferð, engin 110% leið.

Nú skipta önnur mál meira máli til þess að auka lífsgæði. Við þurfum að koma á lýðræði á vinnustaðnum og auka þannig áhrif almennings í eigin lífi. Aukið frelsi undan miðstýringu í efnahagslífinu. Það þarf að ráðast í að stytta vinnutímann, auka frítíma. Breyta hagkerfinu þannig að aukin framleiðslukraftur skili sér í styttri vinnutíma til frambúðar. Sömuleiðis þurfum við að gera hagkerfin okkar sjálfbær þannig að Jörðin geti staðið undir neyslunni. Tryggja þarf heilnæmt umhverfi og að við verðum ekki fyrir neikvæðum áhrifum vegna mengunar og efnanotkunar. Auka þarf hlutdeild almennings í ákvarðanatöku í stjórnmálum með þátttökulýðræði, þar sem almenningur sjálfur kemur að málum og tekur ákvarðanir í sameiningu. Þar þurfum við að horfa til upprunans en slembival var notað í Grikklandi til forna, vöggu lýðræðisins.

Og það er ekki bara verkalýðshreyfingin hérlendis sem þarf að taka við sér, það á ekki síður við um önnur umbótaöfl s.s. stjórnmálaflokkana, og vandinn ekki aðeins bundinn við Ísland heldur útbreiddur á Vesturlöndum. Því fyrr sem við áttum okkur á vandanum og hefjumst handa við uppbyggingu því betra. Það er engin ástæða til þess að halda áfram að viðhalda kerfi sem er hætt að bæta lífsgæðin okkar og vinnur jafnvel gegn slíkum markmiðum. Við búum við allsnægtir í samanburði við forfeður okkar og þarf ekki að fara margar kynslóðir aftur í því sambandi. Samfélagsgerðin, stofnanir hennar og ýmis félagsleg kerfi lifa sjálfstæðu lífi og endurframleiða sig en við höfum eftir sem áður valdið til þess að gera breytingar. Og nú er kominn tími til þess. Við höfum góða þekkingu á því hvað bjátar á og til hvaða ráða sé hægt að grípa. Það er ekki eftir neinu að bíða.