Stjórnarfundur 11. september 2013 kl. 20.

Mættir: Hjalti Hrafn (stýrir fundi), Halldóra Ísleifsdóttir, Ásta Hafberg, Guðmundur Hörður, Guðni Karl, Kristinn Már (ritar fundargerð), Guðmundur D. og Jamie McQuilkin.

1. Jamie frá Public Interest Research Center í Bretlandi kynnti tillögu að vinnudegi með Öldu sem grundvallast á gagnrýni og hugmyndum um aðferðafræði fyrir grasrótarhópa. Hugmyndirnar byggjast á félagssálfræðilegum grunni. Samtökin hans hafa haldið slíka vinnudaga með fjölmörgum hópum að undanförnu. Mismunandi útfærslur á slíkum dögum/námskeiðum, þar af ein útfærsla fyrir skipuleggjendur samtaka/grasrótarhópa í samstarfi við New Economic Foundation. Eitt af því sem rannsóknir benda til er að staðreyndir hreyfi ekki við fólki, það dugi ekki að skýra vandann í þaula. Það þurfi sýn um hvert sé stefnt. Hugmynd um að halda 20-30 manna vinnudag. Nokkrar umræður um tillöguna, þar á meðal möguleikann á að hafa fleiri samtök með og samþykkt að halda slíkan vinnudag þann 2. nóvember. Hjalti verður tengiliður við Jamie.

2. Ráðstefna til heiðurs Herði Bergmann áttræðum í samstarfi við Landvernd. Alda verður með í ráðstefnunni og verða þónokkur erindi frá félagsmönnum. Guðmundur Hörður frá Landvernd gerði grein fyrir stöðu mála. Ráðstefnan er tvískipt, í fyrri hluta erindi um verk Harðar en í seinni hluta verða stutt erindi um framsæknar hugmyndir í anda þess sem Hörður fjallaði um í sínum verkum. Fjölmargir fyrirlesarar þegar komnir og verið að leggja lokahönd á dagskrá sem kynnt verður bráðlega. Ráðstefnan verður 9. nóvember í Þjóðminjasafninu og hefst kl. 13.

3. Farið yfir stöðu málefnahópa. Menntahópur hélt fund í ágúst. Í þeim hópi er unnið að því að afla styrks fyrir verkefni. Sjá nánari upplýsingar um það í fundargerð hópsins. Stytting vinnutíma, þar eru samskipti við félag bókagerðarmanna og einnig verður Guðmundur D. með erindi hjá BHM í næstu viku. Aðrir hópar ekki komnir af stað eftir sumarfrí. Þónokkur umræða um stöðu hópa og áherslur. Samstaða um að Alda yrði meira út á við í vetur, með kynningar og fræðslu. Uppi hugmyndir um að nýta fyrirkomulag vinnubúða (workshops) í starfinu (og nýta þar hugsanlega reynsluna frá vinnudeginum sem verður 2. nóvember). Einnig að bjóða upp á fyrirlestra og fræðslu til ýmissa hópa, s.s. sveitarstjórnarmanna. Rætt um að koma lykilskilaboðum á framfæri í gegnum félagsmiðla. Sumir hópar hyggjast byrja á því að hafa fyrstu fundi í málefnastarfi með fræðslu- og umræðusniði. Ákveðið að vísa því til næstu stjórnar (sjá nánar um aðalfund að neðan) að velja hugsanlega áhersluverkefni vetrarins til þess að kröftum sé sem best varið. Ljóst að áherslum sjálfbærnihóps þarf að breyta, líklega með því að þrengja svolítið viðfangsefni hópsins.

4. Aðalfundur. Aðalfund þarf að halda 15. september til 15. október. Ákveðið að halda fundinn þann 5. október kl. 17 og sérstakur áhugi fyrir því að bragða mojito eftir fundinn.  Guðmundur D. mun útvega húsnæði fyrir fundinn. Kristinn Már mun boða til fundarins og gæta þess að farið sé að lögum félagsins í þeim efnum. Hjalti kynnti fyrirhugaða lagabreytingartillögu af hans hálfu sem varðar að í upphafi fundar sé ákveðið á hvaða tungumáli fundurinn skuli fara fram þannig að sem flestir geti tekið þátt í honum og að fundarboð skuli vera á íslensku og ensku.

5. Önnur mál. Gert grein fyrir stöðunni á Vistgarði sem vinnur að því að koma á Vistþorpi. Leit stendur yfir að jörð.

Félagið hefur fengið kennitölu og er að sækja um bankareikning.

Sólveig Alda mun halda áfram að kanna hvort Reykjavíkurborg geti útvegað Öldu húsnæði fyrir starfsemi félagsins en ekki hafa fengist skýr svör frá borginni. Fjölmörg önnur sveitarfélög hafa veitt upplýsingar um sína þjónustu og munu Ásta Hafberg og Kristinn Már koma þeim upplýsingum á framfæri bráðlega.

Vísað í fyrri umræður um vefinn á síðasta stjórnarfundi.

Ásta Hafberg fór í frábært mótorhjólaferðalag í sumar.

Fleira ekki rætt. Fundi slitið stuttu fyrir 22.