Félaginu hafa borist framboð til stjórnarsetu í Öldu 2013-2014. Þau birtast í handahófskenndri röð hér að neðan. Aðalfundur fer fram laugardaginn 5. október kl. 17.00 að Hellusundi 3.
Tvær lagabreytingartillögur bárust (sjá að neðan).
Þá verða reglur um fjárhagsmálefni og fjárframlög til félagsins borin upp til samþykktar á aðalfundi en þær höfðu áður verið ræddar og samþykktar á stjórnarfundi í desember 2011 (sjá að neðan).
Samkvæmt lögum félagsins skulu framboð til stjórnar hafa borist fimm dögum fyrir aðalfund og kynntar á vefsvæði fjórum dögum fyrir fundinn. Samkvæmt lögunum skulu sjö stjórnarmenn kjörnir á aðalfundi. Sjö framboð bárust.
Athygli skal vakin á því að ALDA mun slembivelja tvo félagsmenn til stjórnarsetu líkt og kveður á í lögum félagsins ( http://alda.is/?page_id=17 ). Allir félagsmenn eru með í slembivalinu nema ef þeir segja sig frá því með því að senda skilaboð þess efnis á solald@gmail.com.
Nýkjörin stjórn mun slembivelja tvo félagsmenn að loknum aðalfundi.
Framboð til stjórnar
Hjalti Hrafn Hafþórsson
Ég starfa sem leikskólakennari en hef menntun í heimsspeki. Ég hef starfað í Öldu frá stofnun félagsins og setið í stjórn seinustu tvö ár. Ég vil halda áfram að vinna að uppbyggingu á innra starfi félagsins en einnig að auka virkni og vægi félagsins út á við. Einkum hef ég unnið að kynningu á lýðræðislegu hagkerfi, hugmyndavinnu um skilyrðislausa grunnframfærslu og að málefnum hælisleitenda. Ég er einnig verkefnastjóri í þróunarverkefni um lýðræðislegan leikskóla og verið ráðgjafi fyrir hönd Öldu í öðru sambærilegu þróunarverkefni.
Guðmundur D. Haraldsson
Meðlimur í Öldu frá 2011. Ég hef mikinn áhuga á almennum lýðræðisumbótum í landinu, breytingu á hagkerfi og skemmri vinnutíma.
Vinn fyrir hönd Öldu að styttingu vinnutíma í landinu og sé um vefsíðu félagsins. Er með BS í sálfræði frá HÍ.
Ásta Hafberg
Ég er menntaður viðskiptafræðingur, meistaranemi í Alþjóðaviðskiptum og er að taka meistaradiplómu í Smáríkjafræðum í HÍ. Ég hef verið mjög aktív í grasrótarstarfi síðustu árin, en er í raun alin upp af foreldrum sem voru/eru bæði aktívistar. Ég er ein af Tunnunum, var einn af stofnendum Grasrótarmiðstöðvarinnar, hef haldið fundi um ýmis þjóðfélagsmál, og verið í samstarfshópum um þjóðfélagsmál af ýmsu tagi.
Ég hef þá trú að lýðræðisumbætur og kerfisbreytingar séu það sem þarf að vera fókusinn í dag þar sem við höfum samfélagslegri skyldu að gegna gagnvart hvort öðru og samfélaginu öllu.
Hulda Björg Sigurðardóttir.
Er lyfjafræðingur frá Danska Lyfjafræðiháskólanum 1970 og hefur lengstum starfað við það. Ég hef einnig haft áhuga á félags- og hugvísindum og tók BA-próf í heimspeki og kynjafræðum frá Háskóla Íslands 2003 og diplóma í mannfræði um heimsvæðingu, fólksflutninga og þróun heimsvalda Vesturlanda 2012.
Sólveig Alda Halldórsdóttir
Ég hef setið í stjórn Öldu frá stofnun og býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu. Ég vil leggja mitt af mörkum til að ná fram nauðsynlegum breytingum á samfélagsgerðinni og halda áfram að styðja við það góða starf sem fer fram innan Öldu. Helst hef ég unnið að málefnum tengdum lýðræði í hagkerfinu með áherslu á lýðræðisleg fyrirtæki.
Ég er með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands.
Björn Þorsteinsson
Ég starfa við Heimspekistofnun Háskóla Íslands. Ég hef setið í stjórn Öldu frá upphafi og m.a. unnið við mótun hugmynda um lýðræðislegt hagkerfi og lýðræðisvæðingu stjórnmála. Ég hef ómældan áhuga á að starfa áfram að þeim málefnum sem Alda hefur gert að sínum.
Kristinn Már Ársælsson
Ég hef setið í stjórn Öldu frá stofnun þess árið 2010. Alda hefur markað sér sess í íslenskri samfélagsumræðu og vinnur að fjölmörgum mikilvægum og uppbyggilegum verkefnum sem ég hef áfram áhuga á að taka þátt í að vinna. Ég er með BA í heimspeki, diplóma í kennslufræði og MA í félagsfræði. Síðastliðin ár hef ég tekið þátt í starfi Öldu, þar á meðal stýrt málefnahópum sem og tekið þátt í starfi annarra hópa. Þar á meðal má nefna stefnumótun fyrir Stjórnlagaráð, lýðræðisvæðingu stjórnmálanna, tillögum að lýðræðislegum stjórnmálaflokki, stefnu í lýðræðismálum, sjálfbærni og fleiru. Einnig hef ég komið fram fyrir félagið í fjölmiðlum og skrifað greinar á opinberum vettvangi um lýðræðismál.
Tillögur til lagabreytinga
Hjalti Hrafn Hafþórsson sendi inn eftirfarandi tillögu:
11 gr. Allir fundir félagsins skulu vera aðgengilegir sem flestum. Sérstaklega skal taka tillit til hvers kyns fötlunar, veikinda og tungumáls. Þeim stjórnarmanni eða hópstjóra sem boðar fundinn ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að auka aðgengi að fundinum. Sjá til þess að fundurinn sé á stað sem er aðgengilegur hreyfihömluðum, að viðunandi aðstoð sé í boði fyrir þá sem slíkt þurfa. Í upphafi hvers fundar skal kosið um hvaða tungumál skuli nota og þá skal það haft til hliðsjónar að sem flestir geti tekið þátt í samræðu og ákvarðanatöku. Fundinn ber að túlka ef þess er óskað og möguleiki er að verða við því.
Kristinn Már Ársælsson sendi inn eftirfarandi lagabreytingartillögu:
Breyting á 1. gr., í stað þess þar sem segir „félag um lýðræði og sjálfbærni“ skal koma „félag um sjálfbærni og lýðræði.“
Samþykkt um fjárhagsmálefni
Alda hefur sett sér reglur um fjárframlög og fjármál almennt.
Reglur Öldu um fjármál
Þessar reglur voru samþykktar á stjórnarfundi þann 6. desember 2011.
1. gr.
Öldu skal heimilt að taka við fjárframlögum frá innlendum og erlendum aðilum til starfsemi félagsins. Berist Öldu framlag frá óþekktum aðila skal gefa styrkinn til líknarsamtaka skv. ákvörðun stjórnar enda sé hann hærri en 10.000 krónur og ómögulegt að komast að því hver gefandinn sé. Hið sama á við ef samanlögð fjárhæð styrkja frá óþekktum aðilum fer yfir 10.000 krónur á hverju almanaksári.
2. gr.
Heimilt skal að taka við styrkjum sem nema allt að 250.000 krónum á ári frá einstaklingum og lögaðilum. Móttaka hærri framlaga skal þá og því aðeins heimil að gefandinn deili markmiðum Öldu eða að með öðrum hætti sé ljóst að styrkurinn muni ekki hafa áhrif á stefnu eða markmið félagsins. Skal stjórn fjalla sérstaklega um móttöku slíkra styrkja eða boða til almenns félagsfundar til þess að ræða styrkveitinguna. Móttaka framlaga yfir 1.000.000 króna skal ætíð hljóta samþykki félagsfundar. Þegar metin er hámarksupphæð skal telja saman einstaklinga og hlutafélög sem hann tengist. Telja skal veitta afslætti, eftirgjöf krafna og allan anna tilflutning á verðmætum sem styrk í þessu samhengi.
3. gr.
Félagsmenn skulu ávallt hafa aðgang að upplýsingum um styrktarmenn félagsins, form styrksins og verðmæti hans. Alda skal jafnframt birta opinberlega lista yfir styrktaraðila og verðmæti styrkja.
4. gr.
Reikningar Öldu skulu útbúnir með skýrum og greinargóðum hætti. Í þeim skal getið um samtölu styrkja. Skal jafnframt getið um styrki sem ekki hafa áhrif á reikninga félagsins svo sem notað lausafé eða aðrar gjafir sem erfitt er að telja sem fjárhagsleg verðmæti. Skal fylgja ársreikning listi yfir styrkveitendur.
5. gr.
Verði rekstrarafgangur af starfsemi Öldu skal hann færður í sjóði félagsins. Skal við slit félagsins gefa þá fjármuni sem Alda kann að eiga til líknarfélaga. Endurvinnanlegu lausafé skal koma til endurvinnslu.