Hjalti Hrafn Hafþórsson félagi í Öldu flutti erindi í tilefni dagsins á 1. maí um samvinnufélög og lýðræðisleg fyrirtæki. Vel þess virði að hlusta á. En annars er textinn hér:

Hugleiðing um nútíma verkalýðsbaráttu

Til hamingju með 1. maí verkafólk um allan heim!

Síðan iðnbyltingin hófst hefur verkafólk unnið marga sigra og með þrautseigju og samstöðu skapað gífurlega bætt lífsskilyrði víðsvegar í heiminum. Verkalýðshreyfingin hefur í gegnum söguna verið mikilvægasta mótvægið við kapítalismann.

Það er önnur hreyfing sem hefur lengst af unnið samhliða verkalýðshreyfingunni sem hefur unnið ekki síður mikilvæga sigra. Þess er vert á þessum 1. maí að mynnast þess aðeins hvað samvinnuhreyfingin hefur unnið í gegnum söguna.

Ég vil gera það með því að segja ykkur þrjár stuttar sögur og reyna svo að draga af þeim svolítinn lærdóm.

Rochdale

Fyrsta sagan hefst árið 1844 í bænum Rochdale á mið Englandi, hjarta iðnbyltingarinnar. Stétt verkafólks vann og bjó við hræðilegar aðstæður. Það var ekki aðeins arðrænt innan verksmiðjunnar heldur utan hennar líka því að fæstir áttu annarra kosta völ en að versla við kaupmenn sem svindluðu á þeim markvisst. Hveitið sem þau keyptu var þynnt út með kalkdufti, haframjölið með sagi, teið var blandað með grasi og í sumum tilfellum jafnvel veitt upp úr ruslinu aftan við kaffihúsin þurrkað og selt aftur til verkafólks sem gat hvergi annarstaðar verslað.

Það var við þessar aðstæður sem að 28 verkamenn tóku sig saman, lögðu þá aura sem þeir höfðu í púkk og stofnuðu samtökin The Rochdale Society of Equitable Pioneers. Markmið samtakanna var einfat, ef að kaupmenn vildu ekki selja ósviknar vörur á sanngjörnu verði þá myndu þeir verða sér út um þær sjálfir. Rochdale frumkvöðlarnir voru þar með búnir að stofna fyrsta kaupfélagið eða verslunar samvinnufélagið.

Það var markvisst unnið gegn þeim, þeir fengu hvergi lán, þeim tókst með herkjum að fá leigt smá rými en það var skrúfað fyrir gasið. Enginn vildi selja þeim vörur í bænum svo á endanum þurftu tveir stofnmeðlimir að ganga alla leið til Manchester með hjólbörur til að kaupa fyrsta lagerinn í búðina. Sex pokar af hveiti, einn poki af höfrum, smá sykur, smá smjör og nokkur auka kerti.

Fljótlega spurðist það samt út að Rochdale kaupfélagið seldi góðar vörur, heiðarlega vigtaðar á sanngjörnu verði. Það sem meira var ef að verslunin kom út í plús var rekstrarafganginum skilað til viðskiptavina í hlutfalli við hvað þau höfðu eitt miklu.
Á einu ári voru meðlimir orðnir 80, en ári síðar næstum 300. Félagið óx jafnt og þétt fyrir utan upphaflega kaupfélagið var stofnuð samvinnu saumastofa, samvinnu slátrari, samvinnu bókhaldsskrifstofa, samvinnu smíðastofa. Þannig óx Rochdale félagið smá saman þangað til það hafði tekið yfir alla götuna þar sem upphaflega verslunin stóð.

Samvinnuhreyfingin breiddist á næstu árum út um allt Bretland og síðar mest alla Evrópu. Það verður ekki ofmetið hversu stórann þátt samvinnuhreyfinginn átti í að bæta kjör almennings á þessum tíma. Ein ástæða fyrir því að samvinnufélögin virkuðu var sú að Rochdale frumkvöðlarnir settu sér reglur og stóðu við þær. Rochdale reglurnar hafa síðar orðið að grunn reglum fyrir öll samvinnufélög alstaðar í heiminum. Þær kveða á um eftirfarandi atriði:

1. Opinn og frjálsan aðgang – fyrir alla, konur líka og það þótti ekki lítið merkilegt um miðja 19. öld.

2. Lýðræðislega stjórn félagsmanna – nokkrum árum áður hafði breski herinn myrt 15 manns í mótmælum þar sem verkamenn kröfðust atkvæðisrétts. Lýðræði var byltingarkennd hugsjón á þessum tíma.

3. Efnahagslega þátttöku félagsmann – allir leggja til jafn mikinn pening í reksturinn og stjórna sameignarfé á lýðræðislegan hátt.

4. Sjálfstæði og ákvarðanatökurétt félagsins.

5. Félaginu bar að mennta, þjálfa, og upplýsa meðlimi sína á og almenning.

6. Samvinna samvinnufélaga – samvinnufélög eru hluti af stærri hreyfingu og gera sitt besta til að styðja við önnur samvinnufélög.

Og síðast en ekki síst:

7. Umhyggja fyrir samfélaginu.

Mondragon

Næsta saga sem ég vil segja ykkur er sagan um sjöunda stærsta fyrirtæki Spánar sem heitir Mondragon. Saga þess hefst árið 1941 stuttu eftir borgarastríð, þegar kaþólskur prestur að nafni Jose María Arizmendiarrieta sest að í smábænum Mondragón í Baskahéraði Spánar. Þetta litla samfélag hafði orðið illa úti í stríðinu og þar ríkti sár fátækt og hungursneið. Presturinn dó samt ekki ráðalaus en hann áttaði sig á því að samfélagið gæti aldrei unnið sig upp úr fátækt án tæknilegrar kunnáttu. Hann stofnaði skóla árið 1943 þar sem hann kenndi tæknigreinar en reyndi jafnframt að innræta nemendum sínum hugsjónir um samstöðu og samvinnu í samræmi við sína eigin húmanísku sýn á kristin gildi.

Árið 1955 hvatti Arizmendiarrieta fimm nýútskrifaða nema til að stofna samvinnufélag. Þeir byrjuðu sama ár að smíða gashitara, nýja félagið sitt nefndu þeir Fagor. Þetta var starfsmanna samvinnufélag, lýðræðislega rekið fyrirtæki í sameiginlegu eignarhaldi allra starfsmanna. Rochdale reglurnar voru fyrirmyndin og hugsjónin. Á næstu 15 árum voru stofnuð mörg svipuð félög, árið 1959 var stofnaður samfélagsbanki til að auðvelda aðgengi að stofnfé fyrir ný samvinnufélög.

Öll félögin sameinuðust undir titlinum Mondragon og unnu ekki bara hvert að sinni framleiðslu heldur unnu þau líka saman. Þar sem að samkvæmt Spænskri löggjöf voru starfsmenn samvinnufyrirtækja í raun eigendur fyrirtækja þá höfðu þau ekki aðgang að almennings heilbrigðisþjónustu svo að þau stofnuðu sinn eigin spítala. Mondragon var og er meira en fyrirtæki, það er samfélag. Með sína eigin verslun, sína eigin framleiðslu, sinn eigin skóla, banka og spítala, og allt byggist þetta á efnahagslegri samvinnu frekar en samkeppni.

Nú vinna yfir 80.000 manns hjá Mondragon í um 250 lýðræðislega reknum fyrirtækjum. Þetta er fólk sem hefur atkvæðisrétt á sínum vinnustað. Lýðræðislegt umboð í sínu efnahagslega lífi, sem er eitthvað sem afskaplega fáir hafa upplifað á þessari Jörð.
Þau eru líka hluti af samfélagi sem að stendur með þeim sama hvað. Þegar að heimskreppan skall á 2008 varð Spánn sérstaklega illa úti. Atvinnuleysi á Spáni fór upp úr öllu valdi, en í Mondragon var enginn rekinn. Ef einhver hluti framleiðslunnar þurfti að minka við sig eða fór á hausinn var starfsmönnum boðið að vinna annarstaðar, eða að fara í skóla og menntasig á launum þangað til hægt var að bjóða þeim aðra vinnu.

Hvað sem öðru líður þá sannar Mondragon að lýðræðislegt rekstrarform samvinnufélaganna er ekki bara fyrir lítil fyrirtæki. Það er form sem getur jafnvel náð yfir heilt samfélag og alla inniviði þess.

Argentína

Í desember árið 2001 lýsti Argentína sig gjaldþrota. Stæsta gjaldþrot þjóðríkis í sögunni. Eftir áratug af nýfrjálshyggju stefnu, þar sem öll höft voru afnumin og réttindi verkafólks markvisst skorin niður sprakk bólan og hagkerfið hrundi. Aðstæður sem hljóma ekki svo ókunnuglega fyrir Íslendinga. Í Buenos Aires fóru 3.900 verksmiðjur á hausinn. Ein þessara verksmiðja var Zannon flísaverksmiðjan.

Þegar reka átti meirihluta starfsmanna verksmiðjunnar árið 2000 stóðu verkamenn saman og fóru í verkfall. Eftir fimm mánaða verkfall var verksmiðjan lýst gjaldþrota frekar en að semja við starfsfólk. Mitt í þessum dekkstu mánuðum efnahagskreppunnar þegar engir peningar voru til og engin von virtist vera ákváðu tveir þriðju starfsmanna Zannon verksmiðjunnar á lýðræðislegum fundi að brjótast inn og halda áfram að vinna.

Þessir 220 verkamenn stofnuðu nefndir og skipulögðu framleiðsluna lýðræðislega, allt frá sölu, skipulagi, öryggi, útgjöldum, hreinlæti og framleiðslu. Þeir ákváðu að allir myndu fá sömu laun, og þeir sömdu við Mapuches ættbálkinn um að fá aðgang að leirnámunum þeirra. Í apríl 2002 fimm mánuðum eftir gjaldþrot þjóðarinnar framleiddi Zannon verksmiðjan 20.000 fermetra af leirflísum. Framleiðslan var komin af stað aftur, eini munurinn var sá að það var enginn yfirmaður og enginn eigandi.

Svolítið merkilegt gerðist á næstu mánuðum. Maður gæti nefnilega reiknað með því að án yfirmanna færi skipulagið í rugl, að án eiganda væri enginn drifkraftur. En raunin var önnur. Þremur mánuðum síðar voru framleiddir 120.000 fermetrar af flísum, slysatíðni snarlækkaði. Verksmiðjan og reksturinn voru að virka. Ekki lengur sem kapítalísk verksmiðja þar sem ágóði og allt ákvörðunarvald fór til eigandans. Heldur sem lýðræðislegt fyrirtæki í sameiginlegri eigu og sameiginlegum lýðræðislegum rekstri verkamanna, sem nú endurskýrðu verksmiðjuna FaSinPat sem er skammstöfun fyrir Fabrica Sin Patron, verksmiðja án yfirmanna.

Þá er þó ekki öll sagan sögð því að allt frá fyrsta degi var allt reynt til að loka verksmiðjunni aftur. Það átti að selja vélar og tæki verksmiðjunnar úr landi upp í kröfur skuldhafa. Lengi vel var allt að því umsátursástand við verksmiðjuna þegar lögreglan reyndi að loka henni. Það sem bjargaði FaSinPat verksmiðjunni var samfélagið sem á þessum tíma var orðið vel sjóað í mótmælum. Í hvert skipti sem lögreglan mætti til að loka þessari ólöglegu verksmiðju stóðu þúsundir manna við innganginn. Fólk stóð vörð um verksmiðjuna dag og nótt og þó það rigndi táragasi og gúmmíkúlum var ekkert gefið eftir. Í atvinnuleysi og efnahagslegu svartnætti þessara ára var FaSinPat örlítill vonarneisti um það að venjulegt fólk gæti tekið stjórn á sínu eigin lífi og búið sér betri framtíð.

Í samfélaginu hafði orðið vakning. Fólk áttaði sig á því að vinnustaðir eru ekki einangraðir og afmarkaðir innan veggja einhverrar byggingar og þeir tilheyra ekki aðeins þeim sem „eiga“ þá. Þeir tilheyra líka samfélaginu. Fyrirtæki gætu ekki verið til án samfélagsins og samfélagið fjárfestir í fyrirtækjum með menntun, vegum, lögum og vinnuafli jafn mikið og hluthafar og eigendur fjárfesta í þeim með peningum. En gagnvart lögum er það alltaf réttur eigendanna sem er metinn hærra en réttur samfélagsins. Á hvaða tímapunkti er samfélagsrétturinn sterkari en eignarrétturinn? Hvenær er réttur fólks til að vinna og skapa sterkari rétti skuldhafa?

Þetta umsátursástand varði í níu ár. Með einstaka hléum þegar pólitískir vindar blésu í rétta átt eða dómstólar voru hliðhollir. En þrátt fyrir erfiðar aðstæður hélt framleiðslan áfram, eftir tvö ár var fjárfest fyrir $300.000 í nýjum tækjum, eftir fjögur ár var ráðið nýtt starfsfólk og framleiðlsan var 400.000 fermetrar á mánuði. En árið 2009 vannst endanlegur sigur fyrir dómstólum og FaSinPat verksmiðjan er nú löglega starfsmanna samvinnufélag.

En það sem meira er þá er FaSinPat verksmiðjan aðeins ein af mörgum verksmiðjum sem hafa svipaða sögu. Í Argentínsku efnahagskreppunni voru meira en 300 verksmiðjur teknar yfir af meira en 15.000 starfsmönnum og eru nú reknar lýðræðislega sem samvinnufélög. Enn er verið að taka yfir nýjar verksmiðjur og hreyfingin er að breiðast út til annarra landa í Suður-Ameríku. Innan við 1% þessara yfirteknu lýðræðislegu verksmiðja hafa farið á hausinn og yfir 50% hafa nú fengið lagalega viðurkenningu sem starfsmanna samvinnufélög.

Yfirteknu verksmiðjurnar gegndu lykil hlutverki í að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað í Argentínu og þar hefur skapast sterk menningarleg og lagaleg hefð fyrir því að virða samfélagsréttinn meira en eignarréttinn.

Það eru margar svipaða sögur, frá Finnlandi, Ítalíu, Japan…. Það eru samvinnufélög um allan heim. En af þessum sögum má draga nokkurn lærdóm.

Samvinnufélög virka og á komandi árum verða þau mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Auðæfi heimsins safnast á færri og færri hendur á gengdarlausan hátt. Kapítalisminn er fyrir löngu kominn úr böndunum. Við munum upplifa efnahagslegar og náttúrulegar hamfarir á komandi árum og áratugum og hinn hefðbundni kapítalismi býður ekki upp á neinar lausnir heldur er hann stærsti hlutinn af vandamálinu.

Tilgangur samvinnufélaga er að þjóna meðlimum sínum frekar en að búa til arð fyrir hluthafa eða eigendur. Þau veita fólki lýðræðislegt umboð á efnahagslegum vettvangi, þau eru valdeflandi og í grunninn réttlátari. Þau styrkja samfélög og hagkerfi. Ólíkt hefðbundinni verkalýðsbaráttu eru þau ekki aðeins mótvægi við kapítalismann, samvinnufélög eru annar og betri valkostur.