Alda sendi í dag umsögn til Alþingis um lagafrumvarp, sem miðar að því að lækka aldur þeirra sem hafa kosningarétt til sveitastjórna í 16 ár.

Alda lýsir sig samþykka frumvarpinu, enda er markmiðið að gefa fleirum möguleika á að taka þátt í lýðræðinu, og þannig hafa áhrif á samfélagið sitt.

Umsögn Öldu má finna hér að neðan, og upprunalegt skjal sem fór til Alþingis má finna hér.

***

Umsögn Öldu

Stjórn Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, tekur heilshugar undir það frumvarp til laga sem hér er sett fram.

Mat stjórnarinnar er það, að það sé sjálfsagður réttur allra að hafa rödd og vægi í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Félagið telur að kröfur um þekkingu og færni til að kjósa eigi að vera lágmarkskröfur en ekki ítarlegar. Í því jósi má þykja víst að 16 ára einstaklingar uppfylli að jafnaði slíkar lágmarkskröfur. Ítarlegri kröfur, s.s. eins og að miða við þekkingu miðgildis- eða meðaltalskjósanda við 18 ára aldur eru að mati félagsins fráleitar. Tiltekin þekking og færni getur ekki verið grundvöllur kosningaréttar, enda mannréttindi. Því ber að fara mjög varlega í takmörkun á þeim rétti. Núverandi takmarkanir eru alltof íþyngjandi og því styður félagið þá tillögu að lækka kosningaaldur í 16 ár.