Alda sendi í dag til Alþingis umsögn um lagafrumvarp, sem, ef samþykkt, gerir það að verkum að sýslumenn geti lengur ekki sett lögbann á fréttaflutning fjölmiðla, heldur verði allar beiðnir um slík lögbönn að fara fyrir dómstóla. Í dag er það þannig að sýslumenn geta sett lögbann á fjölmiðla, án aðkomu dómstóla.

Frumvarpið er lagt fram í beinu framhaldi af lögbanni sem Sýslumaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu setti á fréttaflutning Stundarinnar af málefnum Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra, nú fjármálaráðherra. Alda hefur áður ályktað um þessar gjörðir sýslumannsins.

Stjórn Öldu sendi inn jákvæða umsögn um frumvarpið. Umsögnina má finna hér að neðan, upprunalegt skjal sem fór til Alþingis, má finna hér.

***

Umsögn Öldu

Stjórn Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, tekur heilshugar undir það frumvarp til laga sem hér er sett fram.

Mat stjórnarinnar er það, að það sé ekki sjálfsagt mál að sýslumenn geti takmarkað tjáningarfrelsi fjölmiðla, enda er hlutverk fjölmiðla mjög mikilvægt í lýðræðissamfélagi, og þá sér í lagi eftirlitshlutverk þeirra með bæði framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu. Í því ljósi eiga fjölmiðlar almennt og yfirleitt að geta starfað án truflana frá fulltrúum framkvæmdavaldsins.